Eineltisfrásögn 5: Ég get ekki treyst neinum

Höfundur:

15. 8. 2002

Sæll ég heiti Þórdís, ég er 23 ára gömul og bý í Reykjavík. Ég lenti í miklu einelti þegar ég var í grunnskóla, sem betur fer eða verr (veit ekki hvort er) þá man ég ekki eftir miklu, bara einstökum atriðum, ég er búin að blokkera fyrir margt. Allavega… Þegar ég var að verða 7 […]

Sæll ég heiti Þórdís, ég er 23 ára gömul og bý í Reykjavík.

Ég lenti í miklu einelti þegar ég var í grunnskóla, sem betur fer eða verr (veit ekki hvort er) þá man ég ekki eftir miklu, bara einstökum atriðum, ég er búin að blokkera fyrir margt.

Allavega…

Þegar ég var að verða 7 ára byrjaði ég í skóla í nýju hverfi, en náði aldrei að eignast neina vini. Ég man lítið eftir fyrstu árunum, en þau voru ekki góð. Um 8 eða 9 ára aldurinn byrjuðu krakkarnir að kalla mig ryðhaus, sem síðan festist við mig, og var ég farin að svara því nafni.

Mestur hluti af þessu einelti var andlegt, en það kom þó fyrir að eitthvað líkamlegt átti sér stað. Ég ætla ekki að rekja söguna ár fyrir ár, heldur segja frá nokkrum dæmum sem ég man eftir.

Eitt sinn, ég hef verið um 12 ára þá, rétt fyrir jól, vorum við, ég, ein stelpa í viðbót og nokkrir strákar valin til þess að  skreyta stofuna okkar. Ég var nokkuð góð að teikna og var látin teikna á töfluna, sem ég var stolt af að fá að gera. Nokkrum vikum áður hafði ég fengið smekk-gallabuxur í afmælisgjöf eins og var í tísku þá og kom ég í þeim í skólann þennan dag. Ég stóð upp við töfluna og var að teikna þegar mér var allt í einu kippt upp af einum stráknum og látin hanga þar á meðan restin af krökkunum fór og hóaði í alla krakkana í næstu stofum. Þetta var frítími og enginn kennari nálægt (ekki það að þeir mundu hafa gert eitthvað) en allavega fékk ég að hanga þarna á meðan restin af krökkunum stóð í dyragættinni og í kringum mig og hlógu að mér, þetta var svo fyndið…

Í öll þessi ár eignaðist ég enga vini, svo einn daginn komu tvær af stelpunum til mín og  báðu mig að koma með sér í sund eftir skóla. Ég var rosalega ánægð og samþykkti að fara með þeim og hljóp strax heim og náði í sundföt og peninga og fór svo heim til einnar þeirrar sem við höfðum ákveðið að hittast heima hjá. Þegar ég labbaði upp að húsinu sá ég þessar stelpur í glugganum á herbergi stelpurnar og þær voru að fylgjast með mér. Ég labbaði áfram og að útidyrunum og bankaði. Systir stelpurnar sem bjó þarna kom til dyra og sagði að hún væri ekki heima. Þarna stóð ég mjög vonsvikin og hlustaði á þær hlæja á bak við dyrnar. Þetta var svo fyndið…

Svo var komið að fermingu, þetta var rosa spennandi, ég var búin að eignast „vinkonu“, fatlaða stelpu sem var ný byrjuð í skólanum. Undirbúningurinn gekk vel þangað til að kom að fatavali. Ég hafði ekki hugmynd um hvernig fermingarkjól ég átti að velja mér, svo ég spurði stelpurnar. Alltaf sögðu þær að þær voru ekki búnar að ákveða sig. Þannig fór að mamma saumaði á mig kjól. Hann var bleikur með hvítum kraga, og ég var bara þokkalega ánægð með hann. Svo þegar ég kom í kirkjuna, voru allar stelpurnar í svipuðum fötum, allar eins og klipptar út úr tískublaði, nema ég í hallærislega bleikum kjól. Allir fóru að hlæja og þær eyðilögðu þennan dag fyrir mér. Þá hafði „vinkonu“ minni verið bannað að segja mér í hvernig fötum stelpurnar ætluðu að vera.

Dag einn kom systir mín hlaupandi heim af rólóvellinum, í endanum á götunni, hágrátandi og sagði mömmu að krakkarnir voru að stríða mér. Mamma hljóp út á róló og mætti mér á leiðinni, hágrátandi, með mikinn hluta af hárinu mínu í höndunum og með buxurnar á hælunum. Mamma og pabbi sem kom líka hlupu krakkana uppi og náðu þeim fyrir framan útidyrnar hjá nágranna okkar, sem kom út og sagði: „nei, börnin mín gera ekki svona“. Eftir þetta átti ég lengi erfitt að halda virðingunni fyrir framan litlu systur mína, sem hafði lengi áhrif á samband okkar.

Í öll þessi ár, bauð ég alltaf allavega stelpunum og stundum strákunum líka í afmælispartý, mér var aldrei boðið í neitt svoleiðis. Fyrir krakka er þetta mjög mikil höfnun.

Vegna þess að ég er rauðhærð og var kölluð ryðhaus, fékk mikið að dynja á hárinu mínu, þau léku sér að því að klína tyggjói í það, hrækja í það og toga í það. Mörgum sinnum var hrækt í hárið eða bara beint framan í mig.

Einn af fáum sem lét mig í friði var strákur sem byrjaði þarna þegar við vorum um 11-12 ára gömul. Hann var lítill og veiklulegur, svona strákur sem mundi ekki gera flugu mein, ekki einu sinni mér. Hann varð þjáningarbróðir minn í þann tíma sem hann var í skólanum, en hann slapp þó þaðan nokkrum árum seinna. Ég sá hann aldrei aftur en síðasta vetur sá ég að hann hafði framið sjálfsmorð. Það vildi svo til að ég var að vinna með pabba hans, en ég vissi ekki að þeir voru feðgar fyrr en eftir að Óli* var dáinn. Ég talaði við hann og hann sagði mér hversu erfitt Óli hefði haft það eftir að hafa verið í skólanum og að þetta væri stór þáttur í því að hann hafði framið sjálfsmorð.

Oft hefur mig langað að hafa kjark til að mæta þessum krökkum, en staðreyndin er sú að ef ég hitti þau á förnum vegi, forða ég mér alltaf… ef ég get. Þegar ég var c.a.20-21 árs, var ég búin að eignast vinkonu og fór með henni að djamma, hún var rosalega djörf og ekki hrædd við neinn þannig að mér fannst ég örugg með henni. Við fórum einu sinni á ball á Hótel Íslandi og vorum í kjólum. Eftir ballið var haldið niður í bæ, og þar sem það var vetur fékk ég lánaðar hjá henni buxur innanundir kjólinn. Þetta voru köflóttar buxur sem var í tísku þá. Ég var í mjög góðu skapi og skemmti mér mjög vel, þangað til að ég mætti tveim stelpum sem höfðu verið með mér í skólanum. Þær byrjuðu á kalla á mig og hlæja að mér, ég fékk rosalegt „flashback“ og fannst ég vera komin í skólann aftur og langaði til að grenja. Vinkona mín byrjaði að rífast við þær en ég kom ekki upp orði. Henni tókst eftir smá tíma að reka þær í burtu, en ég vaknaði svo til lífsins, tók flöskuna sem ég var með í hendinni og braut hana á staur og hljóp á eftir þeim, alveg blind af reiði. Gátu þær, fullorðnar manneskjurnar ekki látið mig í friði? Vinkona mín og önnur stelpa sem var með okkur urðu að halda mér svo ég hlypi ekki á þær, sem ég er fegin að þær gerðu því hver veit hvað ég hefði gert.

Ég hef örugglega átt metið í veikindum líka þessi ár sem ég var í þessum skóla. Það var alltaf eitthvað að, sem er algengt hjá krökkum sem verða fyrir einelti, en þetta var ekki einu sinni allt lygi hjá mér, ég var á góðri leið með að fá magasár, því þetta var mikið álag á mér og taugarnar voru á góðri leið, eða farnar í rúst.

Í einum af efri bekkjunum var skipulögð líffræðiferð yfir helgi rétt fyrir austan Reykjavík og hafði kennarinn dregið nöfnin okkar saman í hópa. Ég lenti auðvitað með aðalhrekkjusvínunum í ferð. Ég gerði allt sem ég gat til að sleppa við að fara, en allt kom fyrir ekki. Laugardagsmorguninn sem við áttum að mæta rann upp og mamma keyrði mig upp í skóla, ég setti töskuna mína inn í rútu, og settist inn. Þá sá ég aðaltöffarann koma upp að rútunni, og það sást vel á honum að hann var fullur. Ég stóð upp og hljóp til mömmu og sagðist EKKI ætla að fara af því að ég vissi hvernig þetta ætti eftir að verða. Mamma fór og talaði við líffræðikennarann sem sá þá að strákurinn var drukkinn og hún hringdi í skólastjórann sem kom og bannaði honum að fara í ferðina. Hann varð ekki hrifinn að fá ekki að fara með og kom upp í rútuna þar sem ég var sest aftur og sagðist ætla að ganga frá mér þegar ég kæmi í skólann á mánudaginn… ég mætti ekkert í skólann vikuna á eftir. Þeir krakkar sem fóru með mér í ferðina og töluðu ekki um annað en það sem strákurinn ætlaði að gera við mig vikuna á eftir, og tókst að taka mig algjörlega á taugunum.

Það er svo skondið að upphafið á eineltinu var það að ég var rauðhærð, sem var allan tímann aðalaðhlátursefnið. Síðasta árið sem ég var í skólanum komst það í tísku að vera rauðhærður og nú fóru allir og létu lita á sér hárið, kaldhæðnislegt ekki satt?

Sem betur fer hef ég ekki hitt mikið af þessum krökkum þessi seinni ár, en ég lenti í því einu sinni þegar ég var í sumarvinnu á sjúkrahúsinu Vogi, að einn af þessum strákum kom í meðferð. Ég var að vinna í eldhúsinu og var eitthvað að ganga þar frá þegar hann kom inn. Strákurinn fraus, snéri sér við og fór út, og hætti við meðferðina. Svo nokkrum mánuðum seinna, þegar ég var hætt þar, kom hann aftur inn og þar sem mamma var að vinna þarna, og strákurinn þekkti hana, þá fór hann að segja hvað honum þætti þetta leiðinlegt og bað hana um að segja mér að hann sægi eftir þessu. Hún sagði mér þetta og mér þótti vænt um að heyra þetta. Fyrir um ári síðan var ég í bænum og sá þennan strák, hann var greinilega fallinn, en hann sá mig, og ég var að vona að hann kæmi og segði eitthvað við mig, en hann lét sem hann þekkti mig ekki. Þannig að afsökunin hefur ekki rist djúpt hjá honum. Enda var ég farin að halda að þetta væru allt tilfinningarlausar skepnur hvort eð er.

Í dag er ég enn ein, hef eignast vinkonu, en samt er það mjög slitrótt samband. Ég get ekki treyst neinum, þó að almenn skynsemi segi mér að það er í lagi. Mér finnst mjög óþægilegt að vera innan um mikið af fólki sérstaklega ókunnuga. Mín reynsla hafði mikið með traust að gera því að ég trúði aldrei að krakkarnir yrðu alltaf svona vondir við mig, svo ég treysti því og beið eftir því að allt lagaðist. Það var alltaf verið að plata mig, og hrekkja og stundum þegar nýir krakkar byrjuðu í skólanum þá voru þau alltaf vingjarnleg og góð við mig, og ég trúði því alltaf að ég væri búin að eignast nýja vinkonu eða vin, en það endaði alltaf með því að hinir krakkarnir náðu þeim og það var alltaf jafn mikið „slap in the face“ þegar það gerðist.

Oft reyndu foreldrar mínir að fá hjálp fyrir mig, þau töluðu við skólastjórann sem sagði hreint út við mömmu: ,,ef ég fer að taka á þessu, þá verð ég að taka á öllum hinum“. Mamma reyndi líka að fá hjálp hjá skólasálfræðingnum og bað aðstoðarskólastjórann um viðtöl hjá honum. Þetta var stuttu eftir áramót og aðstoðarskólastjórinn sagði að það væri svo stutt í páska og vildi bíða þangað til eftir þá. Eftir páska heyrði hún ekkert í þeim, hvorki aðstoðarskólastjóranum né sálfræðingnum svo hún fór aftur til aðstoðarskólastjórans, en þá var svo lítið eftir af önninni að það þurfti að bíða þangað til næsta vetur. Aldrei komst ég til skólasálfræðingsins…

Í 9. bekk byrjaði nýr skólastjóri hjá okkur, sá maður og einn kennari voru þau einu sem gerðu eitthvað í málum mínum. Þessi nýi skólastjóri gerði síðasta árið mitt í skólanum bærilegt, og á ég honum mikið að þakka. Seinni hluta annarinnar í 9.bekk, ákváðu foreldrar mínir að flytja mig um skóla og var ég send í skóla í næsta hverfi, en þessi skólastjóri hringdi heim og bað mig um að koma aftur í skólann næsta haust, hann mundi gera allt sem hann gæti til að láta þetta hætta. Ég fór aftur og hann stóð við loforðið.

Það sem ég var mest reið yfir, er ekki hvernig krakkarnir komu fram við mig, heldur viljaleysi skólastjórnenda (fyrir utan skólastjórann sem kom því miður alltof seint) og foreldra krakkanna í að taka á málunum.

Þórdís

*Óli er ekki raunverulegt nafn viðkomandi.

Deildu