Fréttastofa Ríkissjónvarpsins greindi frá því í kvöldfréttum sínum í kvöld (15. júní 2002) að ástæða þess að lögreglan lagði bílum sínum fyrir framan mótmælendur við Perluna hafi ekki verið til þess að skyggja á mótmælendur og spjöld þeirra. Þetta hlýtur að vera lygi þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar.
Undirritaður var í afar fámennum hópi þeirra sem var við Perluna þegar harðstjórinn kom þangað í fylgd lögreglu. Mótmælendur voru um 10 þar sem undirritaður var en hins vegar voru 22 lögreglumenn á svæðinu frá sjónarhorni undirritaðs.
Sá sem þetta skrifar hélt á stóru spjaldi þar sem á stóð ,,Aðgát skal höfð í nærveru sálar” og fyrir neðan var mynd af Tiananmen manninum sem stöðvaði einn síns liðs skriðdrekasveit á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Lögreglan, eða undirmenn Zemins (oft var erfitt að greina þar á milli), sáu sig tilneydda til að leggja jeppa í veg fyrir mótmælin (sjá: Mynd 1) en þegar þeir sáu að hann skyggði ekki nógu vel á skilaboð okkar var heil rúta lögð fyrir framan okkur (sjá: Mynd 2).
Ólíkt því sem lögreglan segir hafði þessi gjörningur EKKERT með öryggi Jiang Zemins að gera heldur var þetta einungis gert til þess að koma í veg fyrir að hann yrði vitni að gagnrýni. Enda óvenju viðkvæmur fyrir slíku.
Þegar matarboði morðingjans var lokið höfðu mun fleiri mótmælendur safnast saman fyrir utan Perluna og mun fleiri skilti og borðar voru á svæðinu. Þá mætti lögreglan með alla stóru lögreglubílana sína og lagði í veg fyrir mótmælendur til að skyggja á okkur. Þeir geta kannski, hugsanlega, réttlætt að þarna hafi þeir verið að tryggja öryggi Zemins. En sama má ekki segja um þegar þeir lögðu rútu í veg fyrir okkur við komu hans.
Þegar Zemin var farinn frá Perlunni gekk undirritaður meðfram veginum að Perlunni með ofangreint skilti (sjá: Mynd 3). Allan þann tíma elti lögreglumaður mig á bíl (sjá: Mynd 4) í þeim tilgangi einum að skyggja á skiltið. Það voru tugir lögreglumanna á gangi við hliðina á mér þannig að ekkert öryggi var frekar tryggt með þessari aðgerð. Lögreglumaðurinn fór áfram þegar ég gekk áfram og hann setti snarlega í bakkgír ef ég ákvað að ganga til baka. Hann var í raun svo upptekinn við að elta mig að hann keyrði á annan mótmælenda (sem sakaði ekki sem betur fer).
Ég hvet allt fjölmiðlafólk til að spyrja lögreglu nánar út í þessi atriði því það sem kom fram í fréttatíma Ríkissjónvarpsins stenst ekki skoðun.
Sjá nánar:
Sögulegur dagur í máli og myndum
Voru aðgerðir lögreglu löglegar?