Tíu ára reunion

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/06/2002

8. 6. 2002

Þá er komið að því. Í kvöld ætla fyrrum bekkjarfélagar mínir að halda partí í tilefni þess að tíu ár eru liðin síðan við útskrifuðumst úr grunnskóla. (Djöfull er ég orðinn gamall!) Ég hafði ekki hugsað mér að mæta en ákvað þó á síðustu stundu að kíkja. Ég er svolítið stressaður þar sem ég hef […]

Þá er komið að því. Í kvöld ætla fyrrum bekkjarfélagar mínir að halda partí í tilefni þess að tíu ár eru liðin síðan við útskrifuðumst úr grunnskóla. (Djöfull er ég orðinn gamall!) Ég hafði ekki hugsað mér að mæta en ákvað þó á síðustu stundu að kíkja. Ég er svolítið stressaður þar sem ég hef ekki séð þetta lið saman í tíu ár og minningar mínar frá grunnskóla eru nú ekki sérstaklega skemmtilegar. Ég er 26 ára gamall og ég verð þvalur á höndunum og fæ hnút í magann bara við tilhugsunina að hitta þetta fólk aftur.

Mig minnir að það hafi verið svipað reunion fyrir fimm árum eða svo og þá datt mér ekki í hug að mæta. Svona eineltissár geta verið lengi að gróa og þekki reyndar fullorðið fólk sem líður enn illa út af einelti sem það lenti í grunnskóla. Ég verð sorgmæddur þegar ég hugsa um þau langvarandi áhrif sem einelti getur haft á þá sem lenda í því. Grunnskólaárin ættu að vera einn sá hamingjusamasti tíminn í lífi manns en því miður upplifa margir þennan æskutíma sem lifandi helvíti.

Ástæðan fyrir því að ég ákvað að skella mér í þetta sinn er ekki einhver áköf löngun til að hitta þessa gömlu ,,félaga“. Hún tengist frekar því verkefni sem ég er að vinna í um þessar mundir og líklegast einhver þörf til gera upp fortíðina.

Ég er oft spurður hvort ég beri einhvern kala til þeirra sem ég var í grunnskóla. Svarið er bæði já og nei. Ég ber ekki kala til fyrrum samnemanda minna, enda tel ég þau hafa verið fórnarlömb aðstæðna, rétt eins og ég. Það verður þó að viðurkennast að ég er stundum bitur út í skólayfirvöld fyrir að hafa brugðist seint og illa við eineltinu. Einelti er að mínu mati fyrst og fremst fullorðinsvandamál. Það er fullorðna fólkið sem mótar skólastefnuna, rekur skólana og elur upp börnin, og börn læra jú víst það sem fyrir þeim er haft…

Deildu