Lögverndað rán

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

09/04/2001

9. 4. 2001

Þó svo samsæri nokkurra grænmetisseljenda gegn neytendum sé skilgetið afkvæmi gjörspillts landbúnaðarkerfis eru enn margir sem virðast reiðubúnir að verja kerfið. Þrátt fyrir að það hafi um áratugaskeið skert lífskjör almennings með því að leggja á hann óþarfa álögur í formi hærri skatta og hás matvælaverðs. Landbúnaðarkerfið sem við búum við sver sig í ætt […]

Þó svo samsæri nokkurra grænmetisseljenda gegn neytendum sé skilgetið afkvæmi gjörspillts landbúnaðarkerfis eru enn margir sem virðast reiðubúnir að verja kerfið. Þrátt fyrir að það hafi um áratugaskeið skert lífskjör almennings með því að leggja á hann óþarfa álögur í formi hærri skatta og hás matvælaverðs.


Landbúnaðarkerfið sem við búum við sver sig í ætt við landbúnaðarkerfi flestra efnaðra landa. Hagsmunum almennings er fórnað fyrir sérhagsmuni fámenns hóps. Það sorglega við þetta er að kerfið skerðir ekki aðeins lífskjör neytenda heldur líka kjör þeirra sem það er sagt eiga að vernda, þeirra sem stunda landbúnað. Auðvitað er auðvelt að benda á að framleiðslustyrkir og innflutningsvernd hjálpi bændum og fyrirtækjum á landbúnaðarsviði að halda rekstri sínum gangandi. Það sem fólk lítur hins vegar of oft framhjá er að bændur gætu væntanlega notið betri kjara í öðrum störfum og betri arður gæfist af fjárfestingu fólks í öðrum greinum en landbúnaði.

En það er ekki nóg með að landbúnaðarkerfið leggi álögur á almenning í formi hærri skatta og hærra vöruverðs. Það liggur líka álögur á þjóðina alla í formi verri nýtingar fjármuna og glataðrar fjárfestingar. Það fé sem glatast vegna framleiðslustyrkja gæti nýst til arðbærari fjárfestingar eða betri lífskjara yrðu skattar lækkaðir sem þeim næmi. Það gæti líka nýst til þess að greiða niður skuldir eða bæta þjónustu ef fólki líst betur á það.

Óréttlætanleg afskipti
Stundum finnst manni eins og það skorti nokkrar víddir í þjóðmálaumræðu. Sérstaklega þegar inn á Alþingi er komið. Þannig fær maður stundum á tilfinninguna að stjórnmálamenn velti lítt fyrir sér spurningunum: Hvers vegna ætti ríkið að skipta sér af? Hvernig réttlætum við það?

Það er tiltölulega auðvelt að færa rök fyrir því hvers vegna ríkisvaldið má setja frelsi manna vissar skorður, svo sem með því að banna ofbeldisverk og fyrirskipa refsingar við brotum. Röksemdafærslan er einföld: Þannig viljum við tryggja öryggi fólks. Í framhaldi af því er auðvelt að færa rök fyrir því hvers vegna skuli innheimta skatta til að greiða kostnaðinn sem af hlýst. Sama má segja um menntakerfið. Við viljum tryggja hverjum einstaklingi vissa menntun og tækifæri til frekari menntunar. Þannig viljum við hjálpa hverjum og einum að virkja hæfileika sína og nýta þau tækifæri sem bjóðast. Við færum rök fyrir því að þetta tryggi frelsi og tækifæri einstaklingsins og leiði til betri þjóðarhags. Því samþykkjum við að innheimta skatta til að greiða fyrir menntunina. Okkur finnst meira að segja réttlætanlegt að skylda fólk til að stunda visst grunnnám, fullviss um það að frelsisskerðingin (við það að geta ekki hafnað námi) leiði til ríkulegri tækifæra og raunverulegra frelsis síðar meir.

Þetta samþykkjum við vegna þess að okkur þykir þetta til bóta og leiða til betra þjóðfélags stöðu einstaklingsins. Þannig réttlætum við að ríkisvaldið hafi stundum afskipti af lífi fólks.

Það sama á ekki við um landbúnaðarkerfið. Það er ekki þannig uppbyggt að skattar séu innheimtir til að tryggja betri og ódýrari vöru. Varan verður reyndar ódýrari út úr búð en raunverulega verðið er eftir sem áður hið sama. Reyndar hærra þar sem styrkirnir vilja of oft leiða til of mikillar framleiðslu og of margra of lítilla búa. Innflutningshindranirnar eru heldur ekki settar á til að vernda almenning allan heldur tiltölulega fámennan hóp. Þær hafa þann tilgang að hysja upp verðið til að koma í veg fyrir samkeppni og tryggja skárri afkomu framleiðenda. Reyndar er sjálfsagt og rétt að tryggja minnihlutahópum vernd til að koma í veg fyrir kúgun meirihlutans. Málið er bara það að bændur eru ekki minnihlutahópur í hættu. Þeir eru einfaldlega starfandi í atvinnugrein sem er í besta falli rekin á óarðbæran hátt en í versta falli óarðbær með öllu. Það ástand verður ekki bætt með því að setja álögur á almenning heldur með því að markaðsvæða landbúnaðarkerfið og leyfa raunverulega samkeppni á þessum markaði sem öðrum, frá innlendum jafnt sem erlendum aðilum. Bændur munu vissulega bregða búi í miklum stíl enda er tími til kominn. Búin hafa áratugum saman verið of mörg, of smá og því ekki réttlætanlegt að halda þeim uppi sem efnahagseiningum. Allra síst þegar það er gert með því að skerða lífskjör allra annarra en þeirra sem á þeim starfa.

Málið er nefnilega það að eins og með flest annað geta ríkisafskipti verið réttlætanleg eða ekki. Þegar þau eru réttlætanleg er það vegna þess að þau tryggja hag heildarinnar, einstaklinga og samfélags, eða vernd kúgaðra hópa fyrir valdi meirihlutans. Hvorugt á við þegar landbúnaðarkerfið er annars vegar. Þar er hvorki verið að tryggja almannahagsmuni né frelsi einstaklinganna. Þar er einfaldlega verið að standa vörð um sérhagsmuni og spillingu. Annað ekki.

Deildu