Ég verð að viðurkenna að ég er fyrir löngu orðinn þreyttur á mörgum þáttum jafnréttisumræðunnar. Það er einfaldlega vegna þess að umræðan um jafnréttismál, rétt eins og felst ef ekki öll önnur mál, hefur hlaðið utan á sig og er nú orðin þannig að of margt er sagt, of fátt meint og alltof mikið af því bull.
Þátttakan
Þannig er til dæmis þessi endalausa umræða um að fjölmiðlar gefi konum ekki næg tækifæri. Að of mikið sé lagt upp úr því að fá álit karlmanna þegar rætt er um einhver mál. Auðvitað á þetta stundum rétt á sér. Það er hins vegar alltof oft litið framhjá þeirri staðreynd að konur eru og hafa verið í minnihluta þeirra sem, til dæmis, taka þátt í stjórnmálum. Ég minnist þess til dæmis frá þeirri tíð þegar ég var að vesenast í flokksstarfi hvað það var erfitt að fá konur til starfa. Það var hægt að fá hvaða strákbjálfa sem var til að sækjast eftir formennsku í félögum en sínu erfiðara að fá kvenfólk til þess að taka að sér ábyrgðarstöður. Hvort sem misjafnri ábyrgðarkennd eða öðru er um að kenna var þetta, og er því miður í of miklum mæli enn, staðreynd. Væntanlega hefur það svo mest um það að segja hversu sjaldan konur eru í fjölmiðlum miðað við karla.
Reyndar vill svo til að það var ekki aðeins erfitt að fá kvenfólk til að taka að sér ábyrgðarstöður, heldur var erfitt að fá þær til starfa. Staðreyndin er einfaldlega sú að enn sem komið er virðist það vera lenska að karlmenn hafi meiri áhuga til að taka þátt í stjórnmálum. Í það minnsta láta þeir frekar verða af því.
Reyndar má ekki sleppa þessu án þess að minnast á fíflin sem telja hversu margir í stjórnum, nefndum og ritstjórnum eru af hvoru kyninu og komast að því að þar sem tölurnar séu jafnastar sé jafnréttið mest. Ósjaldan eru viðkomandi ákkúrat úr þeim hreyfingum þar sem tölurnar eru jafnastar og jafnréttið því væntanlega mest. Það vaknar þó sú spurning hversu langt þurfti að seilast til að ná fram jöfnum tölum og hvort jafnréttið hafi ef til vill verið sveigt til að ná fram svo hagstæðum tölum.
Kynjakvótarnir
Svo er annað sem ég ætla að pirra mig á. Það eru þessir kynjakvótar sem virðast tröllríða svo mörgum flokkum og hreyfingum. Persónulega þætti mér það niðurlægjandi ef ég veldist til trúnaðarstarfa vegna þess að það hefðu of margar konur náð kjöri og það þyrfti að fjölga körlum með því að taka nokkra þá sem náðu ekki kjöri fram yfir þær sem hlutu fylgi til ábyrgðarstarfa. Þær eru ófáar konurnar sem ég þekki sem eru mér sammála um þetta og telja kynjakvóta til háborinnar skammar. Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma því að kynjakvótar stríða gegn flestum lýðræðislegum leikreglum. Spurningin snýst ekki lengur hverjum er best treystandi heldur hverjum úr ákveðnum hópum er best treystandi með hliðsjón af öðrum þáttum en faglegum og hugmyndafræðilegum.
Ég gæti sennilega hjalað meira um þetta en ég einfaldlega nenni ekki að pirra mig meira á þessu í augnablikinu. Það fer einfaldlega svo hrikalega í taugarnar á manni þegar maður heyrir fólk tala um jafnrétti og baráttu gegn mismunum og leggja svo til leiðir til úrbóta sem byggja á mismunum og ójafnrétti. Þegar svo er komið er of langt gengið.