Einhverra hluta vegna var ég búinn að telja mér trú um að sá tími væri liðinn þegar listamenn næðu að fanga athygli almennings þannig að aðrir menn og önnur málefni féllu algjörlega í skuggann. Svo kemur baráttan fyrir tjáningarfrelsinu í júróvisjón og gjöldin á geisladiskana og ljóst er að enn búa þeir, margir hverjir, yfir hæfileikanum til að láta til sín taka.
Reyndar eru þetta hvoru tveggja svo bjánaleg mál að ég nenni vart að hafa orð á þeim. Að sjálfsögðu hljómaði það eins og hver annar brandari þegar allir útvarpsráðsmenn nema einn samþykktu tillögu Marðar Árnasonar að íslenska júróvisjónlagið skyldi sungið á íslensku. Ekki það að maður nennti að velta því fyrir sér. Einu skiptin sem maður hefur nennt að fylgjast með þessu afstyrmi undanfarin ár var þegar fjórða sætið vannst og nokkrum árum síðar þegar gellurnar dönsuðu í kringum Pál Óskar. Annars hefur maður forðast keppnina eins og heitan eldinn og ég get stoltur sagt að á síðasta ári held ég að ég hafi ekki heyrt íslenska lagið fyrr en eftir að keppnin fór fram. (Því miður verður það sama ekki sagt um lagið árið á undan sem öllu tröllreið og gerði það að verkum að mann langaði helst að kasta útvarpinu út um gluggann.)
En listamönnum er fleira til lista lagt en að fanga athygli landsmanna. Þeir eiga það líka til að fanga aura þeirra þegar sá gállinn er á þeim. En það sést víst best á uppfærðu reglugerðinni um gjaldtöku á þeim tækjum og tólum sem fólk kann að nota til að vista gögn og skiptir þá engu hvort um höfundarréttarefni listamanna sé að ræða eða gögn sem eru í einu og öllu búin til af þeim sem efnið vistar. Gunnar Salvarsson, upplýsingastjóri Tæknivals hittir nefnilega naglann á höfuðið í Degi í dag þegar hann svarar spurningu um hvort réttlætanlegt sé að setja umrætt gjald á alla geymslumiðla óháð því til hvers þeir eru notaðir:
,,Þá vekur gjaldtakan upp réttmæta reiði því sönnunarbyrði er snúið við og allir kaupendur afritunarbúnaðar eru í raun þjófkenndir. Íslenskir tónlistarmenn fá stóran skerf af þessu fé – en halda menn virkilega að þeir sem á annað borð afrita tónlist á geisladiska séu fyrst og fremst á höttunum eftir íslenskri tónlist? Og þar sem svarið við er nei – er þá ekki nærtækast að spyrja: hver er þá að ræna hvern?“