Mér varð litið á Meet the Press á NBC í gær. Þar voru menn enn að rífast um það hvort útsölunáðanir Bills Clintons þegar hann var að láta af embætti hafi verið gegn ákveðnum greiðum. Svo sem að kjósa konuna hans, leggja fé í kosningasjóði, borga hluta af nýja, fallega bókasafninu hans eða þar fram eftir götuna. Einhvern veginn tókst mönnum alfarið að líta framhjá spurningunni hvort stjórnmálamaður eigi að hafa það vald að ógilda dóma til þess bærra dómstóla.
Einhverra hluta vegna virðast menn sáttir við að kjörnir stjórnmálamenn, hvort sem er forsetar eða ríkisstjórar, geti ógilt dóma sem hafa verið kveðnir upp af þar til bærum dómstólum eftir rannsókn málsins og réttarhöld. Vissulega geta alltaf komið fram upplýsingar sem lágu ekki fyrir þegar málið var fyrir dómstólum eða þá að leitt verður í ljós að málsmeðferðin var af einhverjum ástæðum göllum. En spurningin hlýtur þó að vera: Hvað er það sem gerir stjórnmálamenn hæfa til að taka afstöðu til þessa umfram réttarkerfið? Enn fremur: Hvers vegna á stjórnmálamaður, oft undir þrýstingi kjósenda, að geta ógilt eða mildað dóma? Sjálfur viðurkenni ég fúslega að ég sé ekki ástæðurnar fyrir því enda gengur þetta þvert á hugmyndina um þrískiptingu valds þó svo Bandaríkjamenn leggi meiri áherslu á það en margir aðrir að hver grein stjórnvaldsins hafi eftirlit með hinum. En ef til vill þarf þetta ekki að koma á óvart í landi þar sem dómskerfið treystir ekki síður á tilfinningaríkan pöpulinn en löglærða spekinga til að kveða upp úr um hvort maður sé sekur eða saklaus.
En að öðru máli, ef til vill lauslega tengdu þar sem það snýst einnig um bandarískt réttarfar. Nú stendur til að taka Timothy McVeigh af lífi, mann sem hefur unnið sér það til frægðar að myrða á fimma hundrað manns með því að sprengja stjórnsýsluhús í Oklahoma í loft upp. Dauðadómurinn yfir honum og fyrirhuguð framkvæmd hans sýnir enn og sannar hversu heimskuleg ráðstöfun það er að veita ríkinu vald til þess að taka menn af lífi. Nú snýst aftakan aðallega um það hversu margir fái að fylgjast með henni. Fjöldi eftirlifenda og aðstandenda vill sjá McVeigh deyja. Því þarf annað hvort að sýna aftökuna í lokuðu sjónvarpskerfi í fangelsinu þar sem hún fer fram eða, ef McVeigh fær einhverju ráðið, í beinni útsendingu stóru sjónvarpsstöðvanna. Niðurstaðan kynni því að verða sú að breyta aftökunni í skemmtun almúgans og McVeigh í hetju.