Þessi svokallaða þrískipting

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

05/02/2001

5. 2. 2001

Þrátt fyrir að Íslandi eigi að heita stjórnað í anda þrískipts stjórnvalds hefur ekki farið svo ýkja mikið fyrir því. Ef til vill ekki framan af og sérstaklega ekki í seinni tíð. Þannig hefur framkvæmdavaldið stjórnað löggjafarvaldinu að miklu leiti eins og dæmin sanna. Því er spurning hvort ekki væri rétt að löggjafarvald og framkvæmdavald […]

Þrátt fyrir að Íslandi eigi að heita stjórnað í anda þrískipts stjórnvalds hefur ekki farið svo ýkja mikið fyrir því. Ef til vill ekki framan af og sérstaklega ekki í seinni tíð. Þannig hefur framkvæmdavaldið stjórnað löggjafarvaldinu að miklu leiti eins og dæmin sanna. Því er spurning hvort ekki væri rétt að löggjafarvald og framkvæmdavald væru kosin hvort í sínu lagi.


Þingræðið
Þingræðið hefur verið ríkjandi regla hér á landi eftir að lýðræði fór að þróast. En það hefur í för með sér þá hættu að löggjafarvald og framkvæmdavald skarast og annað verður hinu undirgefið. Það er auðvitað firra að halda öðru fram en að ríkisstjórn stjórni þingi, oft harðri hendi. Þangað veljast einfaldlega forystumenn þeirra flokka sem mynda þingmeirihluta hverju sinni til ráðherrastarfa og aðrir þingmenn láta oftast á endanum undan kröfum þeirra. Ekki svo að skilja að óbreyttir þingmenn séu viljalaus verkfæri en staða ráðherranna innan flokkanna og kjördæma sinna, þær upplýsingar og aðstoð sem þeir hafa aðgang að í ráðuneytum sínum og sú vigt sem ráðherrastaða gefur mönnum í fjölmiðlum valda því að völd ríkisstjórnar hverju sinni eru meiri en svo að ástæða sé til að ætla að þingið komi í veg fyrir löggjöf stjórnar. Frumvörp breytast vissulega oft í meðförum en grundvallarbreytingar eru ekki svo tíðar. Það var nefnilega full ástæða fyrir því að Pétur Blöndal gagnrýndi starf Alþingis á síðasta ári.

Því hefur raunin orðið sú að þingið hefur í raun framselt ráðuneytum löggjafarvald og stendur sig ekki í stykkinu í eftirliti gagnvart eigin stjórn. Það yrði einfaldlega ekki liðið að þing áminnti ráðherra með áberandi hætti hvað þá að samþykkt yrði vantraust á einstakan ráðherra stjórnar. Til þess er flokksaginn of mikill. Íslenska þingið virkar vissulega mun sterkara og valdameira en það breska þar sem má segja að um hreint ráðherra- og jafnvel forsætisráðherravald sé að ræða. Hins vegar er ástæða til að fara fram á meira. Að þingið vinni betur og hafi meiri völd.

Aðskilnaðurinn
Nú ætla ég ekki að segja að öll vandamál verði leyst með því að framkvæmdavaldið verði kosið beinni kosningu. Það yrði þó án vafa til að auka virkni þingsins og gera eftirlit með framkvæmdavaldinu virkara. Hingað til hefur eftirlit löggjafans með framkvæmdavaldinu verið minna en efni og aðstæður eru til og helst í því fólgnar að stofnanir og embætti skili skýrslum. Skýrslum sem þó er reynt að líta framhjá sem lengst svo enginn verði fyrir hnekki. Slík breyting gefur manni þó vonir um að eftirlit yrði virkara. Að líklegra væri að þingið rannsakaði ásakanir um afglöp í starfi. Að meira yrði um að þingið neitaði ríkisstjórn um lagasetningu og fjárveitingar til verkefna sem ekki ríkti samstaða um. Vonir um að þingið yrði að sjálfstæðari stofnun.

Vilmundur Gylfason er einn þeirra sem lögðu áherslu á að skorið yrði á tengsl löggjafarvalds og framkvæmdavalds en kvaddi án þess að geta komið því á dagskrá. Aðrir hafa reynt áður, Gylfi Þ. Gíslason og Jónas Jónsson meðal annarra, en einhvern veginn hefur þetta alltaf lognast út af. Kannski ekki skrýtið í landi þar sem sami maður gat fyrir ekki svo löngu síðan verið hluti af löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Mér er þó spurn hvort ekki sé í það minnsta ástæða til að íhuga möguleikann og sjá hverju það gæti breytt.

Deildu