Óvæginn vegatollur

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

05/01/2001

5. 1. 2001

Það er ótrúlegt að allt til þessa dags hafa samgönguráðherrar þjóðarinnar daufheyrst við kröfum um raunverulegar úrbætur á Reykjanesbrautinni. Þess í stað hafa þeir kosið að grafa göng í gegnum fjöll fyrir fámenn bæjarfélög, gjarnan sem einhvers konar fyrirgreiðslu. Ég ætla ekki að halda því fram að slík göng séu ekki mikilvæg fyrir viðkomandi bæjarfélög […]

Það er ótrúlegt að allt til þessa dags hafa samgönguráðherrar þjóðarinnar daufheyrst við kröfum um raunverulegar úrbætur á Reykjanesbrautinni. Þess í stað hafa þeir kosið að grafa göng í gegnum fjöll fyrir fámenn bæjarfélög, gjarnan sem einhvers konar fyrirgreiðslu. Ég ætla ekki að halda því fram að slík göng séu ekki mikilvæg fyrir viðkomandi bæjarfélög en ég held að þetta sýni ákaflega brenglaða forgangsröðun stjórnmálamanna.


Verkfræðilegt óráð
Reykjanesbrautin er ein mikilvægasta samgönguæð þjóðarinnar. Um hana ferðast ekki aðeins Reyknesingar á leið til höfuðborgarinnar heldur allir þeir sem eiga erindi á eina millilandaflugvöll landsins. Þrátt fyrir það er Reykjanesbrautin einn hættulegasti hluti þjóðvegakerfisins. Því miður er hún staðsett á milli fjölmennra bæjarkjarna og því eru dauðsföllin hlutfallslega fá að mati sérfræðinga, enda nóg af Reykvíkingum og Reyknesingum og ekki ósennilegt að enginn taki eftir því þó nokkrir þeirra tapi lífi og limum á þessum vegi.

Reykjanesbrautin er í raun verkfræðilegt óráð. Einhver snillingurinn ákvað að skynsamlegt væri að leggja á hana lykkju við Kúagerði til þess að halda bílstjórum vakandi undir stýri. Þegar fram liðu stundir reyndist þessi snjalla lykkja hinsvegar vera ein mesta dauðagildra sem sögur fara af. Þrátt fyrir það hefur enginn séð ástæðu til þess að gera lagfæringar á þessum vegakafla enda ætlunin með lykkjunni ákaflega góð. Sjálfum finnst mér að draga eigi til ábyrgðar þá sem tóku ákvörðum um þessa lykkju.

Kaldlyndi og raunveruleikafyrring
Ýmsir hafa komið fram og mælt gegn stækkun Reykjanesbrautarinnar. Einn þeirra er DV mógúllinn Gunnar Smári sem taldi enga sérstaka ástæðu til að breikka Reykjanesbrautina, og bætti við í kaldhæðnistón að fólk myndi alltaf finna einhverjar leiðir til að fara sér að voða. Sjálfur sé ég ekki þessa meinhæðnu hlið á því að jafn mikið af fólki skuli deyja á svo skömmum tíma eins og hefur gerst á Reykjanesbrautinni. Hitt veit ég að þegar sambærilegir vegir hafa verið breikkaðir þá hefur dregið verulega úr slysatíðni á þeim. Vissulega er það satt að mannleg mistök munu alltaf eiga sér stað og breikkun Reykjanesbrautarinnar mun aldrei útrýma slysum á henni. Engu að síður eiga flest slys á brautinni sér stað vegna aðstæðna og það er hægt að komast hjá þeim.

Um daginn rak ég svo augun í grein í Morgunblaðinu þar sem því var haldið fram lausnin fælist ekki í því að breikka Reykjanesbrautina heldur í því að lækka hraðamörkin á henni. Ein og sér eru þetta skynsamleg rök en bera þess þó vott að greinarhöfundurinn hefur ekki mikla reynslu af þjóðvegaakstri, enda eru Íslendingar þjóða lakastir við að halda hraðamörk. Slík ráðstöfun yrði því í eðli sínu marklaus og óskhyggja að halda að slík ráðstöfun hefði veruelg áhrif. Við að leysa þennan vanda verðum við að horfast í augu við raunveruleikann og koma með lausnir byggðar á því hvernig fólk ekur en ekki hvernig það ætti að aka.

Blóðug jól
Nú hafa á skömmum tíma átt sér stað þrjú mannskæð bílslys á Reykjanesbrautinni. Það má í raun líta á þau sem jólagjöf samgönguráðuneytisins til aðstandenda hinna látnu. Þrátt fyrir þetta einkennast viðbrögð ráðherra af seinagangi og virðingarleysi fyrir mannslífinu. Ég vona að hann sjái sóma sinn í því að hefja breikkun Reykjanesbrautarinnar hið snarasta og koma þannig í veg fyrir að jólaljós næsta árs verði blikkljós sjúkrabíla líkt og þau voru þessi jól. Nýverið kaus Frelsi.is Davíð Oddsson eyðslukó ársins fyrir ýmislegt sem hann gerði. Ég ætla að tilnefna Sturlu Böðvarsson fyrir það sem hann gerði ekki, því fyrir utan fjárhagslegan kostnað samfélagsins af slysum á Reykjanesbrautinni eru þau mannslíf sem þar hafa glatast ómetanleg í peningum.

Deildu