Spámaðurinn

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

27/12/2000

27. 12. 2000

Það er gömul hefð í íslenskum fjölmiðlum að við hver áramót er fengið fólk til þess að spá fyrir um atburði komandi árs. Þar sem þetta er síðasta grein mín fyrir Skoðun á þessu ári ætla ég að rýna fram í tímann og velta fyrir mér hvað sé falið í framtíð íslenskra stjórnmála. Sjálfstæðisflokkurinn Það […]

Það er gömul hefð í íslenskum fjölmiðlum að við hver áramót er fengið fólk til þess að spá fyrir um atburði komandi árs. Þar sem þetta er síðasta grein mín fyrir Skoðun á þessu ári ætla ég að rýna fram í tímann og velta fyrir mér hvað sé falið í framtíð íslenskra stjórnmála.


Sjálfstæðisflokkurinn
Það er fyrirsjánalegt að ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík munu standa fyrir einhverju andófi gegn skattayfirvöldum. Þeir munu afhenda fjármálaráðherra risavaxna ávísun með einhverri áætlaðri summu og Björgvin Guðmundsson mun neyta að skila framtali án þess að því fylgi hótanabréf þungavikta lögfræðinga.

Það sem verður óvæntara er að á þessu ári mun halla undan fæti hjá forsætisráðherra. Ekki svo að skilja að hann hafi staðið sig illa. En tíu ár eru ærinn tími og langur í pólitík og fólk er einfaldlega orðið þreytt á Davíð og Sjálfstæðisflokkinn er farið að lengja eftir breytingum. Davíð mun brjótast um á hæl og hnakka en svo mun hann gefast upp. Þá hefst formannsslagur Geirs Haarde og Björns Bjarnasonar sem mun enda með því að Björn gefur ekki kost á sér. Geir mun mala einhvern lepp í formannsslag og Björn verður varaformaður.

Samfylkingin
Hugtakið jafnaðarmaður mun hægt og rólega leggja undir sig alla orðræðu flokksins. Það verður þó líklega bið eftir því að Samfylkingin komi úr skápnum og skýri sig Jafnaðarmannaflokk Íslands. Rótið í Sjálfstæðisflokknum verður til þess að Samfylkingin mun rétta úr kútnum og komast aftur í kjörfylgi. Samfylkingin mun enduruppgötva aldraða og öryrkja, taka afgerandi afstöðu í utanríkismálum og fallast á einkavæðingu RÚV.

Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn mun halda áfram að tapa fylgi á landsbyggðinni. Einhverntíma á árinu munu þeir svo leggja í annan varaformannsslag. Þar mun Guðni Ágústsson leggja Valgerði af velli og í kjölfarið mun flokkurinn taka u-beygju varðandi Evrópusambandið sem þeir eru búnir að vera að daðra við. Gömul slagorð eins og „Ísland fyrir Íslendinga“, og „Kletturinn í hafinu“ munu verða endurnýttir. Upphafið að endalokunum fyrir Halldór Ásgrímsson.

Vinstrigrænir
Fólk fer að hlusta á Kolbrúnu Halldórsdóttur og fyllist örvæntingu yfir smáborgaraskapnum. Svo munu kjósendur átta sig á því að VG er kjölturakki íhaldsins og í kjölfar aukinna áhrifa Guðna Ágústssonar í Framsóknarflokknum munu kjósendur VG færa sig yfir á Framsóknarflokkinn sem verður kominn í meðalfylgi næstu jól.

Frjálslyndi flokkurinn
Sverrir verður leiður á þingmennsku og dregur sig í hlé. Gunnar Ingi Gunnarsson mun gera allt til að bola burt Margréti Sverrisdóttur en þegar ljóst verður að hún mun erfa þingsæti föðurs síns mun Gunnar ganga í raðir Sjálfstæðisflokksins, íhaldsmönnum til mikilla skaprauna. Þessi 2% stuðningsmanna flokksins munu átta sig síðastir manna á að Frjálslyndir eru ekki flokkur heldur elliglöp og fara þá samstundis að leita sér að nýju sérframboði til að skemma.

Deildu