Það er kominn jólabragur á vefmiðlana og lítið sem ekkert spennandi að gerast á síðum þeirra. Frelsið er að velja sér eyðslukló, Maddömunni misheppnast enn að ná sér á flug,og Múrinn er orðinn enn sjálfhverfari, móðgunargjarnari og leiðinlegri en nokkru sinni fyrr. Ég er neyddur til þess að hella mér út í þessa ládeyðu og skrifa um eitthvað enn ómerkilegra en vanalega.
Tímamótaár í stjórnmálum
Þetta ár var athyglivert fyrir það eitt að standa á mörkum nýs árþúsunds. Eftir að hafa þurft að hlusta á nýaldarslagorð stjórnmálaflokka frá því 1995 var maður næstum farinn að trúa því að eitthvað gæti breyst en þegar hinir nýju tímar komu fékk maður enn eina sönnun þess að stjórnmálin eru söm við sig.
Samfylkingin var stofnuð fyrr á þessu ári. Þetta var auðvitað mikilvægt skref í áttina að uppbyggingu hins nýja jafnaðarmannaflokks. Hún olli mér að vísu vonbrigðum með því að halda í þetta skelfilega nafn.
Vinstrihreyfingin – Grænt framboð varð að pólitísku viðhaldi Sjálfstæðisflokksins. Steingrímur J. talar reyndar stórkallalega um að koma íhaldinu frá völdum en hann veit eins vel og ég að þriggjaflokka vinstristjórn er óspennandi kostur og þessvegna slefar hann eins og graður hundur í hvert sinn sem forsætisráðherrann klappar honum á kollinn.
Framsóknarflokkurinn er barða eiginkonan á stjórnarheimilinu. Honum lýst þó ekkert á að slíta hjónabandinu enda vita þeir að Sjálfstæðisflokkurinn á viðhald sem flytur inn um leið því íhaldið þarf einhvern til að þrífa klósettin hjá sér.
Reyndar koma merkustu tíðindin úr röðum sjálfstæðismanna. Í fyrsta sinn í manna minnum mælist stjórnmálamaður með meiri vinsældir en Davíð Oddsson, þ.e. Geir H. Haarde. Eftir að Davíð hafði verið ósýnilegur og geðfúll í tvö ár var þjóðin farin að leita sér huggunar í vinalegum örmum fjármálaráðherrans. Þetta varð auðvitað til þess að Davíð varð sýnilegri aftur enda hugnast honum ekki að skipta um vinnu, en margir hafa haldið því fram að brátt muni hann hverfa til annarra starfa. Davíð berst nú fyrir pólitísku lífi sínu með yfirvofandi bókaútgáfu í von um að þjóðin muni að lokum snúa baki við Geiri og koma aftur heim til hans, helst áður en Sjálfstæðisflokkurinn fattar að skipta um formann.
Annað
Árið var samt fremur óáhugavert. Villi Vill kom, sá og sigraði og fór strax aftur. Ungir jafnaðarmenn urðu fyrstir innan Samfylkingarinnar til að taka afstöðu. Vefmiðlamagnið tvöfaldaðist. Ásdís Halla var pólitískt ráðin bæjarstjóri, eins og flestir sem gegna því starfi. Ásdís Halla gaf út bók eins og Davíð gerir stundum. Björgvin Guðmundsson sparkaði í skattinn. Kennarar fóru í verkfall. Hannes Hólmsteinn komst enn einusinni í sjónvarpið. Sigmundur Ernir fékk ekki að vera fréttastjóri en gaf samt út ljóðabók.