Fjölgar dómsmálaráðherra afbrotum?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

20/11/2000

20. 11. 2000

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sagði þingheimi í síðustu viku að hún muni innan skamms leggja fram frumvarp um þyngri refsingar við fíkniefnabrotum. Það vekur upp spurningar um hvort hún hafi að einhverju leyti kynnt sér skýrslu um áhrif refsinga sem dómsmálaráðuneytið kynnti í síðasta mánuði. Þar kemur fram að þyngri refsingar eru, ef eitthvað er, líklegri […]

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sagði þingheimi í síðustu viku að hún muni innan skamms leggja fram frumvarp um þyngri refsingar við fíkniefnabrotum. Það vekur upp spurningar um hvort hún hafi að einhverju leyti kynnt sér skýrslu um áhrif refsinga sem dómsmálaráðuneytið kynnti í síðasta mánuði. Þar kemur fram að þyngri refsingar eru, ef eitthvað er, líklegri til að fjölga brotum en fækka.


,,…vísbendingar eru um hið gagnstæða“
Í skýrslunni sem dómsmálaráðuneytið kynnti í síðasta mánuði kemur skýrt fram að þyngri refsingar verða ekki til þess að draga úr ítrekunarbrotum þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir lögbrot. Dómsmálaráðherra hefði ekki þurft að lesa annað en niðurstöður rannsóknarinnar til að vera það ljóst.

,,Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að ítrekunartíðni þeirra sem ljúka fangavist á Íslandi sé mjög svipuð því sem tíðkast meðal annarra þjóða, jafnvel þó að sumar þessara þjóða beiti talsvert þyngri refsingum en Íslendingar.“ *

,,Engin merki sjást um að þyngri refsingar dragi úr ítrekunartíðni en vísbendingar eru um hið gagnstæða. Þyngri refsingar eru því ekki líklegar til að draga úr líkum á ítrekun.“ **

Hvaða ályktanir getum við dregið af þessu? Í stuttu máli aðeins tvær. Tökum fyrst jákvæðari ályktunina: Ef dómar vegna fíkniefnabrota verða þyngdir má gera ráð fyrir auknum kostnaði samfélagsins án þess að nokkuð gott hljótist af. Svo er það neikvæðari ályktunin: Ef dómar vegna fíkniefnabrota verða þyngdir má gera ráð fyrir auknum kostnaði samfélagsins samhliða aukningu í afbrotum tengdum fíkniefnum. Þeir sem dæmdir eru fyrir hin ýmsu afbrot verða líklegri til að brjóta af sér aftur.

Það er reyndar rétt að taka strax fram að skýrslan fjallar aðeins um ítrekunartíðni, þ.e.a.s. hversu margir þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir brot brjóta aftur af sér. Því er rétt að fara varlega í að alhæfa út frá þessari einu skýrslu. Hins vegar hefur réttilega verið bent á þungir dómar hafa ekki þau fælingaráhrif sem sumir vilja meina. Þessi skýrsla áréttar það.

Að sjást gera eitthvað
Það hefur stundum verið sagt um stjórnmálamenn að sjái þeir ekki leið til að leysa vandann sjái þeir oftast í staðinn leið sem virðist leysa vandann. Af tveimur kostum þurfi sá síðari ekki endilega að vera verri. Nú ætla ég ekki að segja að þetta sé ástæðan að baki því að dómsmálaráðherra hyggst þyngja refsingar við fíkniefnabrotum. Það kann að vera skoðun hennar að þetta sé besta leiðin til að leysa vandann. Það vill bara svo til að sú skoðun er ekki á rökum reist.

* Skýrsla til íslenskra stjórnvalda um rannsókn á ítrekunartíðni afbrota. Dómsmálaráðuneytið, október 2000. Baumer, Eric; Helgi Gunnlaugsson, Kristrún Kristinsdóttir, Wright, Richard. Bls. 2.

** Sama.

Deildu