Við vitum betur

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

30/10/2000

30. 10. 2000

Kunningi minn sem er trúleysingi stendur í stappi við skólann sem ungur sonur hans gengur í. Þannig eru mál með vexti að sonurinn á að skila verkefni sem tengist þemadögum um að þúsund ár séu liðin frá kristnitökunni á Þingvöllum árið 1000. Verkefnið er að skrifa bæn til guðs. Trúarinnræting barna í skólum Það er […]

Kunningi minn sem er trúleysingi stendur í stappi við skólann sem ungur sonur hans gengur í. Þannig eru mál með vexti að sonurinn á að skila verkefni sem tengist þemadögum um að þúsund ár séu liðin frá kristnitökunni á Þingvöllum árið 1000. Verkefnið er að skrifa bæn til guðs.


Trúarinnræting barna í skólum
Það er rétt að taka fram nú þegar, svo það fari ekki á milli mála, að skólinn sem sonur kunningja míns gengur í er ekki skóli sem rekinn er af kristilegu trúfélagi. Þetta er einn hinna fjölmörgu grunnskóla sem sveitarfélög um land allt reka og starfa eftir námskrá sem starfsmenn menntamálaráðuneytisins hafa samið. Í þessum grunnskóla er væntanlega að finna börn kristinna foreldra sem vilja ala börn sín upp í kristinni trú rétt eins og þar er að finna börn trúlausra foreldra sem vilja ekki ala börn sín upp í neinni trú. Ekki er ólíklegt að í skólanum séu einnig börn sem alin eru upp í annarri trú en þeirri kristnu. Eftir sem áður taka skólayfirvöld þá ákvörðun að börnin skuli biðja til guðs kristinna manna.

Þetta er að sjálfsögðu ekkert annað en trúarinnræting af hálfu skólayfirvalda. Mér er ekki kunnugt um að börnin hafi verið spurð um hvort þau væru kristin áður en þeim var sett fyrir það verkefni að biðja til guðs. Mér er hins vegar kunnugt um að foreldrar þeirra voru ekki spurðir álits áður en börnum þeirra var sagt að biðja til guðs. Kunningi minn frétti fyrst af þessu þegar hann leit á lista með heimaverkefnum barnsins síns. Enda varð hann allt annað en sáttur við verkefnið. Það þarf ekki að koma á óvart. Þegar skólayfirvöld ákváðu að láta öll börn í, alla vega, einum árgangi skólans biðja til guðs gerðu þau sig sek um margfaldan dómgreindarbrest. Í fyrsta lagi grípa þau fram fyrir hendur foreldra barnanna og boða í raun kristna trú með þessu verkefni (reyndar geta þau bent á að í námskrá er ítarleg umfjöllun um trúarbragðafræðslu sem er að stórum hluta kristinboð). Í öðru lagi ganga þau út frá því sem vísu að allir nemendur séu kristnir (mikill meirihluti landsmanna er reyndar skráður í kristilega söfnuði þó ég hafi fáum kynnst sem iðka kristna trú að einhverju ráði, því fer hins vegar fjarri að landsmenn séu allir kristnir). Í þriðja lagi eru bænir barnanna hluti af samstarfsverkefni skólans og eins ákveðins trúfélags, þar með er því trúfélagi hampað á kostnað annarra trúfélaga og samtaka trúleysingja.

Tekið fram fyrir hendur foreldra
Svona trúarinnræting er gróft inngrip í það uppeldi sem foreldrar velja börnum sínum. Með þessu setja skólayfirvöld sig í dómarasæti, ekki aðeins um hvort heldur einnig hvaða trúarbrögð börnin eigi að aðhyllast. Eða er hægt að kalla það eitthvað annað þegar börnum er sagt að biðja til ákveðins guðs?

Félagi minn er eins og áður segir trúlaus. Eins og gefur að skilja hefur hann tekið þá ákvörðun að ala barn sitt ekki upp í trú á einhverja yfirskilvitlega veru sem hann álítur að sé ekki til. Hann hefur þvert á móti útskýrt fyrir barni sínu að sumir trúi á guð (kristinna manna), aðrir á Allah og einhverjir á eitthvað annað. Sjálfur trúi hann hins vegar ekki á neitt slíkt og að ýmsir séu sammála honum um að engir guðir séu til. Þegar sonur hans hefur skólagöngu sína situr hann hins vegar tíma í trúarbragðafræðslu sem byggist að mestu á því að lýsa kristinni trú og kristnisögu. Syni hans er gert að biðja til guðs sem hann hefur aldrei trúað á og óvíst er hvort hann trúi nokkurn tíma á. Syni hans er í raun og veru sagt að eitthvað sé athugavert við það uppeldi sem hann fær hjá foreldrum sínum. Námsgrein, sem drengurinn á að leggja stund á með bekkjarsystkinun sínum gengur að mestu leyti út á að vekja og efla hjá honum trú á yfirskilvitlega veru sem foreldrar hans telja heppilegast að hann sé laus við að trúa á, í það minnsta þar til hann getur sjálfur tekið ákvörðun um slíkt.

Því ætti ekki að fara á milli mála að skólinn og menntamálayfirvöld taka skipulega fram fyrir hendurnar á foreldrum.

Er hægt að kalla þetta trúfrelsi?
Mér er spurn: Er hægt að segja að við búum við trúfrelsi þegar grunnskólarnir leggja sig fram við að ala börn upp í kristinni trú samkvæmt kenningum Þjóðkirkjunnar? Er hægt að segja að við búum við raunverulegt trúfrelsi þegar grunnskóli og sókn Þjóðkirkjunnar taka höndum saman við að innræta börnum trú eins trúfélags? Mitt svar er nei. Rétt eins og ég tel það brjóta í bága við trúfrelsisákvæði að eitt trúfélag njóti stjórnarskrárbundinnar verndar umfram önnur trúfélög. Að mínu mati eru trúarbrögð eitthvað sem hver og einn á að eiga við sjálfan sig og aðra þá sem áhuga hafa á að eiga samskipti við um trúarbrögð. Þar eiga stjórnvöld og skólayfirvöld ekki að skipta sér af. Fólki ætti að vera treystandi til að velja sér trú eða trúleysi og fá að taka ákvörðun um hvaða lífsskoðanir það vill ala börn sín upp við, án þess að tekið sé fram fyrir hendurnar á þeim.