Hvað er í gangi?

Logo

28/10/2000

Höfundur:

28. 10. 2000

Þá er fyrsta landsþingi Ungra jafnaðarmanna lokið og er það mál manna að vel hafi tekist til. Mæting var ágæt og málefnaleg umræða fór fram á þinginu og skemmtu menn sér vel. Er það von mín að grunnur hafi verið lagður að sterkri og breiðri fylkingu Ungra jafnaðarmann á Kornhlöðuloftinu um helgina sem láta mun […]

Þá er fyrsta landsþingi Ungra jafnaðarmanna lokið og er það mál manna að vel hafi tekist til. Mæting var ágæt og málefnaleg umræða fór fram á þinginu og skemmtu menn sér vel. Er það von mín að grunnur hafi verið lagður að sterkri og breiðri fylkingu Ungra jafnaðarmann á Kornhlöðuloftinu um helgina sem láta mun mikið að sér kveða á næstu árum. En það var þó eitt varðandi landsþingið sem vakti pirring hjá mér og ég tel brýnt að komi fram.


Gestkvæmt var á þinginu og fólk á borð við Össur Skarphéðinsson, Bryndísi Hlöðversdóttur og Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur lét sjá sig. Þótti mér það hið besta mál enda sjálfsagt að þingmenn Samfylkingarinnar fylgist með og hlúi að sinni ungliðahreyfingu. En hins vegar eru öll afskipti af málefnastarfi Ungra jafnaðarmanna óþolandi og ekki til annars enn að skapa pirring og leiðindi. Þannig fór það mikið í taugarnar á mér að að heyra í Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttir hvá yfir því að málefnahópur hefði samþykkt ályktun varðand lögleiðingu ólympískra hnefaleika og mæla með því að ályktunin yrði tekin út. Eins vakti það furðu mína að Mörður Árnason varaþingmaður skyldi koma sér fyrir í öðrum málefnahópnum og halda langa tölu um Ríkisútvarpið. Nú spyr ég eins og fávís krakki: (sem ég vissulega er) Hvað er eiginlega í gangi?

Það er auðvitað ekkert athugarvert við það að stjórnmálamenn reyni að koma sínum hugðarefnum á framfæri við yngri kynslóðir en það verður ekki gert með þessum hætti. Nægir ekki Ástu Ragnheiði að hafa þegar tjáð alþjóð skoðun sína á ólympískum hnefaleikum með því að greiða atkvæði gegn frumvarpi með íþróttinni á síðasta þingi? Þarf hún líka að koma sinni skoðun að innan vébanda Ungra jafnaðarmanna? (Ásta Ragnheiður getur jú tæplegast talist Ungur jafnaðarmaður) Og hvað með Mörð? Ef mér skjátlast ekki þá hefur hann fyrir all nokkru komist af þeim aldri sem gjaldgengur er í ungliðarhreyfingar stjórnmálaflokka. Samt sem áður taldi hann rétt að setjast í málefnahóp Ungra jafnaðarmanna og útlista sínar skoðanir. Það verður bara að viðurkennast að ég átta mig ekki á hvað vakir fyrir þessu fólki. Treysta þau ekki Ungum jafnaðarmönnum til þess að sjá sjálf um sitt málefnastarf eða snýst þetta kannski um æskuþrá viðkomandi? Spyr sá sem ekki veit.

Eins og áður sagði fagna ég því að Samfylkingarfólk sýni ungliðum sínum áhuga en harma mjög að þeir vilji hafa áhrif á málefnastarf hreyfingarinnar á landsþingi. Niðurstaða landþingsins á að endurspegla stefnu og skoðanir UJ en ekki stefnu Ástu og Marðar. Það hefur oft verið talað um að sækja megi fyrirmynd að sterkri ungliðahreyfingu til SUS og get ég tekið undir það, enda sér maður ekki að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu að vasast í ályktanagerð sinnar ungliðahreyfingar. Ef ungir jafnaðarmenn vilja mynda sterka og sjálfstæða ungliðahreyfing legg ég til að þeir taki sér Sjálfstæðisflokkinn til fyrirmyndar og jarði svona gamaldags afskiptasemi eins og átti sér stað um helgina í eitt skipti fyrir öll.

Kári Þorleifsson

Deildu