Ég skal fúslega viðurkenna að ég get verið fremur kaldhæðinn og vantrúaður á að stjórnmálamenn vinni alltaf eftir bestu samvisku, meini allt sem þeir segja og segi allt sem þeir meina. Ef til vill er það þess vegna sem ég lít fyrst og fremst á starf auðlindanefndar sem flóttaleið stjórnarflokkanna frá afstöðu sem hefur valdið þeim vandræðum um margra ára skeið.
Andlitinu bjargað
Stjórnarflokkarnir hafa árum saman ekki tekið í mál að gera nokkrar breytingar á stjórnun fiskveiða og hafnað auðlindagjaldi. Þessi afstaða þeirra hefur verið þeim til trafala enda meirihluti landsmanna fylgjandi auðlindagjaldi og fá mál sem hafa haft jafn mikil áhrif á afstöðu kjósenda til stjórnmálaflokka. Því var ef til vill alltaf ljóst að flokkarnir myndu endurskoða afstöðu sína til auðlindagjalds og jafnvel kvótakerfisins.
Sú ákvörðun stjórnarflokkana að setja á fót auðlindanefnd til að fara í þessi mál verður að teljast með betri pólitísku leikjum síðari ára. Þegar nefndin tók til starfa í júní 1998 gátu stjórnarflokkarnir bent á að verið væri að vinna í málinu sem sjónir þjóðarinnar beindust að, án þess að nokkrar breytingar væru gerðar á þeirri stundu. Þegar áfangaskýrslu nefndarinnar var skilað í mars 1999, tveimur mánuðum fyrir kosningar, var auðveldara en ella að sýna fólki fram á að unnið væri að því að finna sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Því þyrfti fólk ekki að láta afstöðu sína til auðlindagjalds og kvótakerfis hafa áhrif á hvað það kysi 8. maí. Snilldarbragðið er þó að nú þegar auðlindanefnd skilar skýrslu sinni og mælist til að upp sé tekið auðlindagjald má segja að stjórnarflokkarnir, sem svo lengi hafa barist gegn öllum breytingum, hafi tekið frumkvæðið. Í stað þess að berjast gegn breytingum með kjafti og klóm undirbúa þeir nú breytingar á kerfinu sem mega verða til að sætta fólk. Þeim sem hafa svo lengi barist fyrir breytingum verður að ósk sinni um breytingar. Það er hins vegar hætt við að þeir tapi orrustunni um almenningsálitið og leiðina sem farin verður.
Verður málamyndalausn ofan á?
Reyndar er ekki ljóst hvaða útfærsla verður farin. En í ljósi fyrri afstöðu stjórnarflokkanna þykir mér ólíklegt að þeir muni fara uppboðsleiðina, að fyrna veiðiheimildir sem hefur verið úthlutað og bjóða upp. Með uppboði fengi sá heimildirnar sem treystir sér til að gera út á hagkvæmasta háttinn. Niðurstaðan verður líklega sú að aðeins verði lagt á veiðigjald. Það hefur þann kost að þjóðin fær eitthvað í sinn hlut. Ókosturinn er hins vegar sá að ekki er tekið á þeirri misjöfnu stöðu sem fyrri úthlutun hefur skapað mönnum.
Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að uppboð veiðiheimilda sé eina ásættanlega lausnin. Þannig verða kostir markaðarins nýttir á sama tíma og hægt er að byggja ýmsa fyrirvara inn í uppboðsfyrirkomulagið sé sá vilji fyrir hendi. Það sem ég óttast er að með veiðigjaldi án uppboðs verði fyrra óréttlæti fest í sessi að miklu leyti en slegið á óánægjuna með ranglátt kerfi. Það er nefnilega ekki bara úthlutun án endurgjalds sem er óréttlát, heldur líka úthlutun þar sem mönnum er mismunað eftir aldri og fyrri störfum. Slíkt fyrirkomulag má aldrei festast í sessi.