Þegar stjórnmálamenn firra sig trausti

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

11/09/2000

11. 9. 2000

Stundum fæ ég það einna helst á tilfinninguna að stjórnmálamenn og ráðamenn leggi sig alla fram um að tapa trausti almennings. Ýmsir atburðir liðinna daga hafa verið þannig og má þar hvoru tveggja nefna daðrið við Li Peng og orustuna um skólanetið. Þó má alltaf hugga sig við að eitt og annað gefur umræðunni lit […]

Stundum fæ ég það einna helst á tilfinninguna að stjórnmálamenn og ráðamenn leggi sig alla fram um að tapa trausti almennings. Ýmsir atburðir liðinna daga hafa verið þannig og má þar hvoru tveggja nefna daðrið við Li Peng og orustuna um skólanetið. Þó má alltaf hugga sig við að eitt og annað gefur umræðunni lit á sama tíma.


Pressan vaknar til lífsins
Ég held að það fari ekki á milli mála að Hrafn Jökulsson er mikilhæfur blaðamaður og það vaknaði hjá mér töluverð eftirvænting þegar ég frétti af því fyrir skemmstu að hann væri að fara að opna vef um fjölmiðla og stjórnmál, tvö af helstu hugðarefnum mínum. Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þó ég sé þeirrar náttúru að gera mér miklar væntingar og verða iðulega fyrir einhverjum vonbrigðum. Á vefnum er að finna fréttakorn, slúður og pistla álitsgjafa. Ég hef reyndar áður líst því opinberlega að mér finnst það draga úr gildi þess sem sagt er þegar menn gangast ekki við orðum sínum eins og er regla með pistlana sem birtast á Pressunni. Þó neita ég því ekki að það verður gaman að fylgjast með framgangi þessa nýja vefs Hrafns.

Þessi leiðinlega valdapólitík
Deila Reykjavíkurlistans/Lína.Nets og Sjálfstæðisflokksins/Landssímans er til marks um allt það versta sem fylgir því að tveir stórir aðilar berjast um völdin hvort sem er í stjórnmálum eða atvinnulífi. Það fyrsta sem manni dettur í hug um báða flokka er að þeir leggi meira upp úr því að vinna orustuna en að þjóna umbjóðendum sínum. Þannig skiptast þeir á um að ásaka hvorn annan um tækifærispólitík og vafasöm vinnubrögð. Vandinn er einfaldlega sá að báðir hafa rétt fyrir sér og hvorugur listinn hefur efni á því að gera lítið úr hinum. Ef fram heldur sem horfir gæti ég vel trúað að margir ákveði frekar hvorn listann þeir vilji síður en hvorn listann þeir vilji við stjórnvölinn næst þegar gengið verður til kosninga. Ég hef í það minnsta tapað allri trú á báðum aðilum í þessu máli þó einhverjir kunni að standa sig betur í öðrum.

Að skjóta sig í fótinn
Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og stjórnandi nokkurra opinberra fyrirtækja og stofnana lýsti í vikunni miklum áhyggjum sínum af því að Sjálfstæðisflokkurinn misnotaði aðstöðu sína til að koma sínu fólki í góðar stöður. Þannig væri hætta á því að ríkisvaldið væri of hallt undir einn stjórnmálaflokk. Áhyggjur Alfreðs eru skondnar fyrir tveggja hluta sakir eins og áður hefur verið bent á; annars vegar vegna þess að þessi iðja hefur tíðkast frá því framkvæmdavaldið fluttist til landsins í upphafi aldarinnar, hins vegar vegna þess að hans eigin flokkur hefur verið ansi duglegur á þessu sviði og sést það ef til vill best á stöðu borgarfulltrúans. Það skortir því verulega á trúverðugleikann í siðvæðingarboðskap Alfreðs að þessu sinni.

Fjöldamorðingja fagnað
Ég veit að það er að bera í bakkafullan lækinn að skrifa meira um heimsókn Li Peng en þar sem ég kann mér ekki hóf læt ég það ekki stöðva mig. Maðurinn ber óneitanlega ábyrgð á morðunum á þúsundum mótmælenda sem kröfðust þess sem við teljum sjálfsögð lýðréttindi hér á landi. Þess vegna þótti mér það til marks um dómgreindarskort starfandi forseta Alþingis þegar hann sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hann harmaði að fasistinn frá Kína heimsótti ekki Alþingi. Þó var það öllu verra þegar hann kallaði morðingjann „virðulega starfsbróður“ í kvöldverðarboðinu síðar sama dag. Ég spyr einfaldlega: Hvað telur hann sig eiga sameiginlegt með manni sem fyrir ellefu árum lýsti áliti sínu á lýðræði og mannréttindum með því að láta hermenn myrða þúsundir manna? Ekki það að ég ætli með þessu að draga úr sök annarra sem komu að þessu máli. Menn úr öllum flokkum urðu sér og sínum til skammar. Ef til vill hefur það þó bjargað þeim að lögreglan klúðraði málum sínum enn frekar.

Ró rasista raskað
Aldrei þessu vant er komin ný bókarumsögn á bókavef Skoðunar. Breski blaðamaðurinn Jeremy Harding hefur sent frá sér áhugaverða og skemmtilega skrifaða bók um innflytjendur, flóttamenn og fleira það sem kann að raska ró rasista. Þeim sem hafa áhuga á að lesa meira er bent á að líta á bókarumsögnina.

Deildu