Hér, þar og annars staðar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

28/08/2000

28. 8. 2000

Ríkið út af samkeppnismörkuðum Það hafa nokkrar skammir dunið yfir mér eftir að ég skrifaði pistil fyrir viku þess efnis að það eigi að selja Ríkisútvarpið og Landssímann. Landssíminn er fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem nýtur þess að hafa verið einokunarfyrirtæki. Ef rétt er að staðið varðandi sölu fyrirtækisins og þá lagasetningu sem þarf til að […]

Ríkið út af samkeppnismörkuðum
Það hafa nokkrar skammir dunið yfir mér eftir að ég skrifaði pistil fyrir viku þess efnis að það eigi að selja Ríkisútvarpið og Landssímann. Landssíminn er fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem nýtur þess að hafa verið einokunarfyrirtæki. Ef rétt er að staðið varðandi sölu fyrirtækisins og þá lagasetningu sem þarf til að tryggja samkeppni á fjarskiptamarkaði ætti salan að verða til þess að auka samkeppni og bæta hag neytenda. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að skilja þurfi grunnnetið frá en niðurstaðan er eftir sem áður sú að neytendur njóta betur samkeppni á markaði en eignarhalds ríkisins á ráðandi markaðsaðila.


Hvað Ríkisútvarpið varðar er það skoðun mín, og reyndar margra annarra, að sú yfirburðastaða sem rásir þess njóta á íslenskum útvarpsmarkaði hafi orðið til þess að stjórnvöldum hefur reynst erfitt að setja reglur til að tryggja samkeppni á þeim markaði. Þeir sem óttast einokun Norðurljósa á þessum markaði mættu velta því fyrir sér hvort útþensla þeirrar samsteypu sé ekki í miklum mæli í skjóli RÚV.

Hvað gagnrýni Guðmundar Auðunssonar á frásögn mína af Ferðaskrifstofu ríkisins varðar hef ég fátt að segja. Ég þekki afar lítið til þeirrar stofnunar og viðurkenni það fúslega. Sem áhugamanni um stjórnmál og sögu finnst mér þó oft áhugavert að sjá merki einhvers þess sem liðið er undir lok. Ef til vill átti Ferðaskrifstofa ríkisins rétt á sér á sínum tíma rétt eins og færa má rök fyrir því að ríkisrekin fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtæki hafi einhvern tíma átt rétt á sér. Við hljótum þó alltaf að spyrja okkar að því hvort eitthvað sem áður gagnaðist okkur kunni ekki að hamla okkur í dag. Þannig byggjum við betra þjóðfélag.

Ferðaglaður morðingi
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá mörgum að 2. september kemur hingað til lands maður sem ber persónulega ábyrgð á morðunum á Torgi hins himneska friðar auk fjölda grimmdarverka bæði fyrr og síðar. Ef þú hefur ekki þegar sent mótmæli þín til skrifstofu Alþingis, forsætisráðuneytisins og kínverska sendiráðsins hvet ég þig til að gera það nú þegar, frekari leiðbeiningar færðu á undirsíðu á Frelsi.is.

Nú er það vissulega ekki tíska í alþjóðastjórnmálum að fara eftir samvisku sinni og gera það sem réttast og best þykir. Þó finnst mér að íslenskir stjórnmálamenn hefðu að ósekju mátt sniðganga kínversk stjórnvöld. Sú ákvörðun ýmissa íslenskra stjórnmálamanna að ferðast til Kína og að taka nú á móti fjöldamorðingja þaðan er þeim til minnkunar og við gerum best í því að láta þá vita af óánægju okkar. Því þrátt fyrir að stjórnmálamenn, eins og aðrir, taki oft meira mark á lofsöng um sig en gagnrýni er það borgaraleg skylda okkar að hafa áhrif á hugsunargang þeirra.

Í krafti einokunar
Eins og þeir sem hafa lesið kynninguna á mér í umfjöllun um ritstjórn vita hef ég mikinn áhuga á fótbolta. Ég held upp á ÍA, Manchester United og fylgist með íslenska landsliðinu þegar nógu margir Skagamenn eru í liðinu.

Það er nokkuð síðan ljóst varð að kunningjahópurinn færi saman á landsleikinn við Dani 2. september og hafði einn í hópnum sem stundar nám í Danmörku skipulagt heimferð sína þannig að hann næði leiknum. Nú kemur hins vegar í ljós að til að fá miða á leikinn þarf líka að kaupa miða á leikinn gegn N-Írum í október. Því stendur Danmerkurfarinn frammi fyrir þeim kosti að verða af leiknum eða kaupa miða á leik sem hann kemst ekki á.

KSÍ er væntanlega í fullum rétti að ákveða þetta sölufyrirkomulag. Þó er það gagnrýnisvert að einokunaraðili skuli viðhafa svona aðferðir. Því má vitna í orð Vilmundar Gylfasonar og segja að þetta sé löglegt en siðlaust.

Deildu