Ég rambaði fyrir einhverja rælni inn á Frelsisvefinn nú fyrir skömmu og rak þar augun í harðorða gagnrýni ritstjóra síðunnar á umfjöllun Morgunblaðsins um framferði íslenskrar æsku á nýafstaðinni tónlistarhátíð. Ritstjóranum var mikið niðri fyrir og þótti augljóslega vegið að þeim kynslóðum sem sóttu tónleikana, og fjandakornið ef ég er ekki sammála honum að þessu sinni.
Nú vil ég taka það fram að ég sótti ekki þessa tónlistarhátíð né heldur las ég þennan ritstjórnarpistil sem fór svo mjög fyrir brjóstið á Frelsaranum, en af tilvitnunum í pistilinn að dæma einkenndist þessi umfjöllun af þeirri einstöku þröngsýni sem í auknum mæli er farin að einkenna þennan skásta fjölmiðil á Íslandi.
Ég get því miður ekki sagt að ég muni þá tíð er Morgunblaðið var hinn ferski andblær sem blés lífi í íslenska þjóðmálaumræðu, enda er ég enn á því stigi frumbersku minnar að ég hef gaman að því að sækja tónleika og sletta ærlega úr klaufunum. Ég held ég geti þó fullyrt að einhversstaðar á leiðinni að nútímanum hafi Morgunblaðið grafist undir jarðlögum hefðarinnar og steingervst eins og hver önnur risaeðla. En eins og risaeðlurnar fangar Morgunblaðið ímyndunarafl okkar því þróunin hefur enn ekki náð að skapa neitt áhugaverðara ofanjarðar.
Morgunblaðið er ekki lengur fjölmiðill í hefðbundinni merkingu þess orðs. Vegna sérstöðu sinnar og ritstjórnarstefnu leita tugþúsundir Íslendinga í síður Morgunblaðsins eftir lífssýn og afstöðu til veruleikans og Morgunblaðið uppfyllir þessa þörf af stakri natni. Morgunblaðið er því orðin einhverskonar stofnun sem veitir meðalfrónbúanum hugarró í amstri dagsins. Fjöldi fólks fyllist örvæntingu og vonleysi ef blaðið berst þeim ekki á réttum tíma líkt og ef sólin tæki upp á þeirri sérvisku að koma ekki upp.
En ungt fólk leitar í sífellt minna mæli í visku Morgunblaðsins. Blaðið uppfyllir ekki þörf nýrra kynslóða fyrir víðsýni og hlutleysi og ég get skilið að þetta angri einhverja kontórista blaðsins. Ef til vill er þetta afleiðing þess að ungu fólki er fremur illa við að vera úthrópað fyrir heimsku og skrílslæti.
Nú getur vel verið að eitthvað hafi mátt betur fara í framferði gesta tónlistarhátíðarinnar, enda eru ævinlega einstaklingar í öllum þjóðum og af öllum kynslóðum sem hafa af því gaman að standa fyrir hverskyns uppþotum og ærslagangi. En það er varla næg ástæða fyrir Morgunblaðið til að afskrifa heilu kynslóðirnar. Það er í raun sorglegt að þessi hugsanabanki þjóðarinnar skuli birta slíka umfjöllun þar sem reynt er að niðurlægja stóran hluta Íslendinga.
Ég er þess fullviss um að orðstýr íslenskrar æsku er ekki verri en gengur og gerist í samfélagi þjóðanna. Ungt fólk streymir af blessuðu skerinu til annarra landa og skapar sér gott orð sem framúrskarandi námsmenn og duglegir starfskraftar. Það er hinsvegar orðstýr Morgunblaðsins sem bíður hnekki þegar mannfyrirlitning og æskuhatur brýst fram í pistlum blaðsins. Ég vona að ritstjórn Morgunblaðsins sjái sóma sinn í að draga þessi kjánalegu ummæli til baka og feli í framtíðinni einhverjum víðsýnni pennum að tjá afstöðu blaðsins til nýrra strauma.