Kæri Björgvin

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

06/04/2000

6. 4. 2000

Eftir umræðu síðustu daga sé ég mig tilknúinn að taka upp umræðu um afstöðu frjálshyggjumanna og í því tilefni hef ég ritað opið bréf til Björgvins Guðmundssonar, skattaböðuls og ritstjóra Frelsi.is. Kæri Björgvin Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er ekkert sérstaklega að leitast við að ráðast að þér eða […]

Eftir umræðu síðustu daga sé ég mig tilknúinn að taka upp umræðu um afstöðu frjálshyggjumanna og í því tilefni hef ég ritað opið bréf til Björgvins Guðmundssonar, skattaböðuls og ritstjóra Frelsi.is.


Kæri Björgvin
Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er ekkert sérstaklega að leitast við að ráðast að þér eða þínum skoðunum enda ber ég engan persónulegan kala í þinn garð. Satt best að segja held ég að ég hafi aldrei verið þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta þig og hef því ákaflega hlutlausa afstöðu til þinnar persónu. En þrátt fyrir að þú sért vafalítið besta skinn get ég ekki látið það vera að gagnrýna ýmislegt sem frá þér kemur. Þetta er ekkert persónulegt, þú liggur bara svo vel við höggi.

Ég ætla að láta það vera að halda áfram gagnrýni minni á barnalegan mótþróa þinn við skattheimtu íslenska ríkisins. Ég minnist þess að hafa í 5.-7. bekk verið haldinn svipaðri afstöðu til yfirvalds sem varð til þess að ég gerði mörgum kennaranum lífið leitt. Ég er því í engri aðstöðu til að atyrða þig fyrir framgöngu þína. Þó get ég ekki varist þeirri hugsun að barátta þín beri lítinn ávöxt og hafi í besta falli verið sóun á tíma og peningum. Mig langar hinsvegar að ræða ýmsar ranghugmyndir sem koma fram á vefritinu sem þú ritstýrir.

Það er nú svo að ómögulegt er að segja hvort þú sjálfur upphugsað allar þær hugarsmíðar sem prýða síður Frelsi.is, enda er fólki augljóslega frjálst að fá útrás fyrir pirring og mannfyrirlitningu án þess að leggja nafn sitt við það og taka þannig ábyrgð á skrifum sínum. En sem ritstjóri berð þú alla ábyrgð á þeim greinum sem birtast án undirskriftar og því kýs ég að líta svo á sem þær endurspegli skoðanir þínar.

Þann 2. apríl birtist lítið skeyti til okkar ”vinstrimanna” á vefnum þínum. Þar vænir þú ”vinstrimenn” um að vera nýbúna að uppgötva markaðslögmálin og heldur því blákalt fram þeir noti hugtök frjálshyggjunar til þess eins að afla sér vinsælda en meini lítið sem ekkert með þeim. Máli þínu telur þú til stuðnings ýmis mál sem þú gefur þér að muni afhjúpa afturhaldssama afstöðu okkar.

Ég ætla að taka fyrir þessi mál og gera þér grein fyrir afstöðu okkar flestra. Vissulega erum við ekki öll sammála um hvert og eitt einasta mál, enda ekki við því að búast frekar en að innan Sjálfstæðisflokksins ríki einhugur um hugmyndafræði Frelsarans. (Í þessu samhengi vil ég benda lesendum á bráðskemmtilega greinasyrpu á Maddömunni, vef Ungra Framsóknarmanna). Ef grannt er skoðað kemur í ljós að lítill áhugi er fyrir hugmyndum hans a.m.k. hjá forystu Sjálfstæðisflokksins.

Skylduáskriftin að RÚV
Á að leggja niður skylduáskrift af RÚV? Mitt svar er hiklaust ”já” og því fer fjarri að ég sé einn um þessa afstöðu. Til að mynda hófu ungir jafnaðarmenn að álykta um slíkt löngu áður en Hannes Hólmsteinn kenndi Heimdellingum að bjaga hugtakið frelsi. Ég er ennfremur á móti því að ríkið reki fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila og það á einnig við um fjölmiðla.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins er skýr. Undanfarin níu ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með menntamálaráðuneytið sem er það ráðuneyti sem fer með málefni ríkisfjölmiðlana. Þrátt fyrir að hafa verið í góðri aðstöðu til að breyta stöðu ríkisútvarpsins hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekkert gert í þá áttina.

Ríkisstyrkir til menningar og lista
Á að leggja niður opinbera menningar- og listastyrki? Enn er svarið ”já”. Í þeirri mynd sem slíkir styrkir eru núna eru þeir lítið annað en gerspillt fyrirgreiðslukerfi og oft er fróðlegt að fara yfir listann yfir þá sem fá slíka styrki og telja þá sem ekki uppfylla tilsett skilyrði. Ég er hinsvegar hlintur því að listamenn sem hafa það frumkvæði að koma sér á framfæri á alþjóðlegum markaði eigi að geta notið stuðnings ríkisins, t.d. með þeim hætti að ríkið leggi til upphæð til móts við frjáls framlög. Slíkt hefur verið gert í Svíþjóð með ágætum árangri og skilar sér aftur inn í hagkverfið með aukinni ferðamennsku sem er afleiðing landkynningar sænskra listamanna.

Aftur er um að ræða málefni sem snertir menntamálaráðuneytið. Þrátt fyrir langa dvöl í því ráðuneyti hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert neitt til að þess að leggja niður eða breyta styrkveitingum til listar og menningar. Þvert á móti nýtir hann sér hiklaust þetta bitlingakerfi til að deila út greiðum fyrir greiða.

Markaðsvæðing landbúnaðarkerfisins
Á að hætta miðstýringu í landbúnaðarkerfinu? Já, elsku vinur, já. Ég kem úr Alþýðuflokknum sem hefur löngum verið meinað að fara með landbúnaðarráðuneytið vegna framsækinna skoðana. Þrátt fyrir að hafa barist hatrammlega fyrir því að afnema miðstýringu í landbúnaði og bjarga þannig bændum úr þeirri ánauð sem þeir eru í, þá tókst okkur aldrei að sannfæra Sjálfstæðisflokkinn um ágæti slíkra hugmynda. Enda á Sálfstæðisflokkurinn svipaðra hagsmuna að gæta á þessu sviði og Framsóknarflokkurinn.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt ríkisstjórn síðustu níu árin og farið með landbúnaðarráðuneytið fjögur af þeim. Það kann vel að vera að þú viljir afnema miðstýringu í landbúnaðarkerfinu, Björgvin, en það bendir lítið til þess að það sé vilji Sjálfstæðisflokksins.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja
Á að einkavæða ríkisbanka og landssímann? Já. Það er fáránlegt að ríkið reki fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila. Ríkið á að halda uppi nauðsynlegri þjónustu sem ekki er arðbær, auk þjónustu sem við erum farin að líta á sem sjálfsögð mannréttindi í þessum heimshluta, s.s. heilsugæslu, menntun og umönnun þeirra sem eru ófærir um að sjá um sig sjálfir.

Nú hefur ríkið verið að einkavæða örlítið undanfarið en þrátt fyrir níu ára forystu í ríkisstjórn hefur Sjálfstæðisflokknum enn ekki tekist að finna sómasamlega framkvæmd á þessari einkavæðingu. Enda er honum mjög umhugað um að einkavæða ríkisfyrirtæki til vel valinna einkaaðila, líkt og kom í ljós með FBA. Enn fremur vil ég benda þér á svínslega samkepnishætti ríkisfyrirtækisins Landssímans hf. Ef til vill væri réttlætanlegt að einkafyrirtæki kæmi svona fram við markaðinn. En í þessu tilfelli er fyrirtæki sem lýtur stjórn samgönguráðuneytisins, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið síðustu níu ár, að leggja sig fram við að kæfa niður frjálsa samkepni á símamarkaðinum.

Léttvín i matvöruverslunum
Á að leifa sölu léttvíns í matvöruverslunum? Enn og aftur er svarið ”já”. Ég er jafnvel enn frjálslyndari. Ég vil selja léttvín og bjór í matvöruverslunum og lækka aldursmörkin á slíkt áfengi niður í 18 ár. Ég tel að slíkt myndi móta mun vænlegri drykkjumenningu en nú er til staðar á Íslandi. Ég vil líka benda þér á að eina frelsisskrefið sem hefur verið stigið í þessum málum var stigið af ”vinstrafólkinu” sem fer með völd í Reykjavík, þá á ég við rýmkaðan opnunartíma skemmtistaða.

Þetta er mál sem forystu Sjálfstæðisflokksins, eftir að hafa leitt ríkisstjórnir í níu ár, hefur ekki heldur lánast að hrinda í framkvæmd. Eina þróunin í þessu máli var þingsályktunartillaga lögð fram af fimm þingmönnum Samfylkingarinnar um endurskoðun laga svo heimila megi sölu léttvína í matvöruverslunum.

Ég má til með að minnast á eitt mál sem ekki koma fram í þessari upptalningu þinni.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Á að aðskilja ríki og kirkju? Já Björgvin. Ungir jafnaðarmenn hafa lengi verið fylgjandi því að svo verði gert. Það brýtur í bága við hugmyndir okkar um trúfrelsi og jafnrétti mismunandi trúhópa að ein trústofnun njóti ríkisverndar með tilfallandi sérréttindum.

Kirkjumálaráðuneytið hefur verið í höndum Sjálfstæðisflokksins í . . . níu ár, og enn hafa engin skref verið stigin í áttina að aðskilanaði ríkis og kirkju. Hvenær mun Sjálfstæðisflokkurinn taka trúfrelsi inn á stefnuskránna?

Kæri Björgvin. Ég er hræddur um að flokksaðild þín að Sjálfstæðisflokknum sé á misskilningi byggð. Barátta þín fyrir auknu frelsi einstaklingsins, sem ég tel bæði virðingar- og aðdáunarverða, byggir á hugmyndum sem hafa átt heima í jafnaðarhreyfingunni um áraraðir. Hugmyndum sem forysta Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hrint í framkvæmd.

Enn fremur kemur þessi misskilningur sterklega fram í baráttu þinni gegn skattheimtu ríkisins. Þessi barátta er einhverskonar birtingarmynd óþols gagnvart yfirvaldi og kerfinu. En engin flokkur er eins mikið yfirvald og Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur ráðið mestu um mótun íslensks samfélags og þess kerfis sem þú berst svo mjög á móti. Enn fremur vil ég minna þig á það að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem innleiddi fyrirgreiðsluna inn í íslenska pólitík.

Það er til afl í íslenskum stjórnmálum sem ætlar að breyta því samfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn byggði upp. Það afl er ekki Sjálfstæðisflokkurinn. Þvert á móti er það sú jafnaðarhreyfing sem nú er í fæðingu þessa dagana. Þegar fram líða stundir munu hugmyndir jafnaðarmanna ná fram að ganga, hugmyndir sem ég tel að muni falla þér vel í geð þegar þú verður fær um að láta af kreddufullum hleypidómum þínum. Ef til vill munt þú þá, líkt og ég gerði, átta þig á ótrúverðugleika Sjálfstæðisflokksins og yfirgefa hann fyrir skynsamlegri valkost.

Með vinsemd og virðingu

Deildu