Ólíkt Björgvini Guðmundssyni hef ég ekki enn skilað inn skattskýrslunni minni. Þrátt fyrir það hafa hvorki ég né aðrir séð neina ástæðu til að upphefja mig í íslenskum fjölmiðlum. Ástæðan fyrir því er líklega sú að ég mun skila minni samviksusamlega á netinu fyrir þann 10. apríl, en það er síðasti skiladagur fyrir okkur sem lifa og hrærast í upplýsingasamfélaginu.
Eins og Björgvin sé ég ýmislegt að vinnubrögðum skattsins þó ég geri mér auðvitað grein fyrir því að skattar séu ekki einungis notaðir til þess að fylla veski þeirra sem halda um valdataumana. Þeir eru líka notaðir í að mennta æsku landsins, standa undir heilbrigðisþjónustu sem og ýmissri annarri þjónustu sem er landanum lífsnauðsynleg.
Hin kraftmiklu mótmæli Björgvins hefðu getað nýst hinum almenna Íslending mun betur hefði Björgvin haft einhverja hugmynd um hverju hann ætlaði að ná fram með þeim. En því miður missa mótmæli hans vægi sitt við það eitt að hann átti þess enn kost að skila skattskýrslu án milligöngu hægrihandar forsætisráðherra, því eins og kom fram hér að ofan getum við skilað skattskýrslu fram til 10. apríl á netinu. Í þessari ímynduðu krossferð sinni gegn kerfinu lagði Björgvin ekkert undir.
Gallinn er sá að hinn almenni Íslendingur á þess ekki kost á að fá Jón Steinar Gunnlaugsson til að skrifa bréf fyrir sína hönd, nema þá að Jón Steinar fjárfesti í fjölritunarstofu til að standa undir eftirspurn. Auðvitað getum við hin leitað til annarra lögfræðinga en ekki er víst að nöfnum þeirra fylgi sama vigt og nafni Jóns Steinars.
Björgvin hafði vitaskuld aðrar leiðir til þess að hafa áhrif á skattinn. Til dæmis er Björgvin varaformaður í ungliðafélagi innan þess flokks sem fer með fjármálaráðuneytið. Björgvin hefði því getað haft upp á fjármálaráðherra og saman hefðu þeir getað fundið einhverja skynsamlega lausn á ágöllum íslenskrar skattheimtu. En vitaskuld hefðum við þá líklega aldrei fengið að vita hvers lags góðverk Björgvin hefði framið enda ólíklegt að hann hefði getað baðað sig í fjölmiðlaljóma eins og hann hefur gert undanfarið.
Á hverju ári hafa Björgvin og félagar staðið fyrir einhverskonar árás á skattheimtu ríkisins. Á sama tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt ríkisstjórn í níu ár samfleytt og mun líklega gera í þrjú ár enn. Hann hefur því haft ærin tækifæri til að taka á skattakerfinu. Samt sem áður vöðum við enn í sköttum og enn þurfum við að bukta okkur og beygja ef skattinum þóknast. Ég ætla því að skora á Björgvin og Heimdall að þeir saman muni þeir beita sér fyrir raunverulegri tiltekt í skattkerfinu á einhverjum vetvangi þar sem slíkt framtak ber árangur, þó svo þeir missi af því að sjá sjálfa sig á forsíðum fjölmiðlanna fyrir vikið.