Skóli og trúarbrögð

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

24/03/2000

24. 3. 2000

Það má færa rök fyrir því að án kirkjunnar hefði menntun Íslendinga orðið mun minni og orðið almenn síðar en raunin var. Það breytir því þó ekki að trúarbragðakennsla í grunnskólum er tímaskekkja. Hafi hún þá einhvern tíma átt við sem ég efast reyndar um. Eru trúarbrögð æskilegt námsefni? Í grunnskóla var mér kennd kristinfræði […]

Það má færa rök fyrir því að án kirkjunnar hefði menntun Íslendinga orðið mun minni og orðið almenn síðar en raunin var. Það breytir því þó ekki að trúarbragðakennsla í grunnskólum er tímaskekkja. Hafi hún þá einhvern tíma átt við sem ég efast reyndar um.


Eru trúarbrögð æskilegt námsefni?
Í grunnskóla var mér kennd kristinfræði (mér finnst reyndar heiðarlegra að segja að það hafi verið stundað kristinboð í þeim skólum sem ég gekk í en látum það liggja á milli hluta) og svo er enn þó kristinfræðin sé að einhverju leyti að þróast út í trúarbragðafræðslu. Ef maður les námskrá og hlustar á málflutning þeirra sem leggja áherslu á hlut trúarbragða er svo að skilja að þetta sé mikilvægur hluti af uppeldi barna. Í trúarbragðafræðslu er leitast við að kenna börnum kristileg gildi (sem er þó að finna í velflestum trúarbrögðum heims) sem eiga að gera þau að góðum og gegnum þjóðfélagsþegnum.

Nú hljómar þetta ekki illa og því kann að virðast skrýtið að maður sem hefur áður lýst því yfir að hann leggi áherslu á uppeldishlutverk skóla leggist gegn þessu. Málið er hins vegar það að ég hef nokkrar efasemdir um gagnsemi kristinfræðslu/trúarbragðafræðslu í þessa veru og stórkostlegar efasemdir um að það sé siðlegt að boða líttþroskuðum börnum ein trúarbrögð öðrum fremur í opinberum skólum.

Betri leiðir
Ef við ætlum að kenna börnum mannasiði í skólum tel ég heppilegra að gera það með því að byggja grunnskólann á heimspekilegum grunni. Það er að segja að leggja áherslu á siðfræði og röksemdafærslu og benda börnum á að gerðir þeirra hafa afleiðingar. Eftir því sem ég kemst næst hafa allar tilraunir með þetta í íslenskum skólum skilað góðum árangri. Þess vegna tel ég þörf á að gera meira í þessu. Vitaskuld kostar það tíma, fé og fyrirhöfn að breyta skólakerfinu en ég tel að þeim tíma, því fé og þeirri fyrirhöfn sé vel varið.

Afnemum trúarbragðakennslu
Fyrir þúsund árum síðan var trúfrelsi afnumið á Íslandi. Í ár er nokkur hundruð milljónum af almannafé varið til að fagna þeim tímamótum. Ég tel að öllu heppilegra væri að minnast þessara tímamóta með því að ákveða að afnema alla trúarbragðakennslu og trúboð í opinberum skólum. Þannig myndum við stíga enn eitt skrefið í þá átt að vinna upp það trúfrelsi sem við bjuggum við fyrir þúsund árum.