Ný hreyfing – ný vinnubrögð?

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

08/03/2000

8. 3. 2000

Um daginn gerði ég mér það til dundurs að níða ögn Ármann Jakobsson sem birti vel meinta en mótsagnakennda grein um mannvonsku fyrrverandi forsetasonar Bandaríkjanna George Bush yngri, á vefritinu Múrnum. Ármann, sem gjarnan er kynntur af vinum sínum sem greindasti maður á Íslandi, sá ekki ástæðu til að svara hnítingum mínum en þess í […]

Um daginn gerði ég mér það til dundurs að níða ögn Ármann Jakobsson sem birti vel meinta en mótsagnakennda grein um mannvonsku fyrrverandi forsetasonar Bandaríkjanna George Bush yngri, á vefritinu Múrnum. Ármann, sem gjarnan er kynntur af vinum sínum sem greindasti maður á Íslandi, sá ekki ástæðu til að svara hnítingum mínum en þess í stað svaraði mér annar vel hugsandi Múrari, Steinþór Heiðarsson.


Nú liggur beinast við að svara grein Steinþórs, enda reif Steinþór grein félaga síns meira úr samhengi en ég hefði nokkurn tímann þorað að gera. En eftir að hafa baunað á pólitíska andstæðinga, bæði á hægri og vinstri, tel ég komin tíma til að beina spjótum reiði minnar að samherjum mínum í Samfylkingunni, enda liggur mikið við.

Laugardaginn 11. mars verður haldinn stofnfundur Ungra jafnaðarmanna. Þetta er fyrsti vísirinn að flokksmyndun úr þeim flokkum sem mynda Samfylkinguna og ætti því að vera nokkuð fagnaðarefni fyrir okkur jafnaðarmenn. En það er margt við yfirvofandi stofnfund sem gefur tilefni til efasemda um þetta nýja félag. Í stað þess að halda alvöru stofnfund þar sem meðlimir í hinu nýja félagi geta kosið sér forystu og markað hreyfingunni stefnu verður sett upp lítil leiksýning þar sem einhverjir verða kjörnir í stjórn, líklega að eigin tillögu, með tilheyrandi lófaklappi og hræsnaraskap.

Þetta er ekki mjög lýðræðislegt og minnir óþægilega mikið á stofnfund Grósku, samtök áhugamanna um sameininingu jafnaðarmanna, þar sem sjálfskipaðar framtíðarstjörnur sameiningarinnar stigu á svið til að láta klappa fyrir sér. Rétt er að benda á að ofangreindur Steinþór er á skrá yfir stofnfélaga Grósku. Honum virðist hafa ofboðið stofnfundur Grósku svo mjög að í dag er hann einn fremsti málsvari Vinstrihreyfingarinnar utanþings. Ef þetta verður ofan á er hætt við að stofnfundur Ungra jafnaðarmanna verði ekki pólitískur viðburður. Heldur aðeins helgiathöfn sjálfsdýrkunar þar sem skorið verður á tengsl forystu og hreyfingar strax á fyrsta degi. Vilji hins almenna félagsmanns er virtur að vettugi og hans eina hlutverk verður að tryggja það að einhver geti stært sig af því að hafa verið sjálfkjörinn fyrsti formaður Ungra jafnaðarmanna.

Ég er ekki að leggja til póstatkvæðagreiðslur eða opna kjörstaði í hverju sveitafélagi. Það er hinsvegar eðlilegt að fólk í slíkri hreyfingu sem Ungir jafnaðarmenn vonast til að verða eigi þess kost að mæta á stofnfund og taka þátt í starfi fundarins og mótun samtakanna. Það verður því nauðsynlegt fyrir hina sjálfsskipuðu forystu Ungra jafnaðarmanna að halda aðalfund fljótlega eftir stofnfund til að kjósa stjórn með raunverulegt lögmæti og marka sér stefnu.

Deildu