Heiðursvörður Íslendinga

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

06/03/2000

6. 3. 2000

Okkur berast nú fregnir af því að eitt helsta baráttumál landbúnaðarráðherra virðist vera að nást í höfn. Draumur hins þjóðlega ráðherra um að koma á fót heiðursverði landsins fegurstu hrossa til að taka á móti erlendum gestum virðist loksins vera að verða að veruleika. Þjóðlegir Framsóknarmenn Framsóknarmenn mega eiga það að þeir eru öðrum Íslendingum […]

Okkur berast nú fregnir af því að eitt helsta baráttumál landbúnaðarráðherra virðist vera að nást í höfn. Draumur hins þjóðlega ráðherra um að koma á fót heiðursverði landsins fegurstu hrossa til að taka á móti erlendum gestum virðist loksins vera að verða að veruleika.


Þjóðlegir Framsóknarmenn
Framsóknarmenn mega eiga það að þeir eru öðrum Íslendingum þjóðlegri. Þannig lagði einhver flokkssystir hans fram þingsályktunartillögu á síðasta þingi þess efnis að koma beri á fót þjóðbúningaráði til að kenna Íslendingum rétta meðferð og umhirðu þjóðbúningsins. Væntanlega er full þörf á slíkum leiðbeiningum og vaknar því sú spurning hvort ekki sé rétt að vera með útibú í hverju kjördæmi. Þannig gæti þjóðbúningaráð, sem ætti með réttu að vera öflug stofnun, jafnvel komið inn sem hluti af lausn byggðavandans auk þess að treysta söguleg bönd og að menningarleg arfleifð glatist ekki.

En aftur að truntulandsliðinu. Auðvitað er það með öllu ótækt að hér skuli ekki vera til einhver sú fylking sem getur skammlaust staðið heiðursvörð þegar erlent tignarfólk kemur til landsins. Skiljanlega er engin hersveit í okkar friðsæla landi til að sinna þessu hlutverki og sennilega væri víkingasveit lögreglunnar ekkert sérlega frýnileg ásýndum takandi á móti erlendu fyrirfólki.

Þess vegna er hugmyndin um hestalandsliðið sem heiðursvörð svo snjöll. Þar sameinast þjóðleg arfleifð þarfasta þjónsins og lausn á vandanum með heiðursvörðinn enda skrýtið að engum skyldi detta þett í hug fyrr. Auðvitað er alltaf hætta á því að einhver truntan taki upp á því að drulla á tærnar á forvitnum fyrirmennum sem hætta sér of nálægt. En það er auðvitað hreinn og klár kostur enda þar kominn skemmtilegur kafli í væntanlegar endurminningar viðkomandi, þó auðvitað hljómi það betur ef drullan lendir á tám gestgjafa frekar en að heiðursvörðurinn gefi skít í voru tignu gesti.

Hvað sem öðru líður get ég ekki annað en líst ánægju minni með þessa snilldarhugmynd okkar ágæta landbúnaðarráðherra. Það sem mér finnst verst er að ekki er gert ráð fyrir móttökusveit fríðra kvenna íklæddum þjóðbúningi samkvæmt stöðlum og fyrirmælum þjóðbúningaráðs, sveit vaskra pilta á lopapeysu, hunda og katta. Það er nefnilega engin ástæða til að láta staðar numið þegar fyrsta hugdetta er góð heldur full ástæða til að bæta við. Þannig má sjá fyrir sér fulltrúa allra þeirra dýra sem prýða íslenska náttúru og sveitabæi, enda landbúnaðarráðherra varla þeirrar gerðar að taka einu tegund fram yfir allar aðrar.

Deildu