Þessa dagana er okkur sagt að stefnt sé að því að fækka sauðfjárbændum á næstu árum og eru þær aðgerðir hluti af nýjum búfjársamningi. Nú fer það vart framhjá mörgum að þetta er þjóðhagslega hagkvæmt. Vandamálið er hins vegar það að enn er gert ráð fyrir ríkisstyrkjum í landbúnaði.
Rót vandans
Í Silfri Egils í gær var meðal annars rætt um vaxandi tekjumun og fátækt margra einstaklinga. Valgerður Sverrisdóttir var þeirrar skoðunar að hvoru tveggja væri vandamál og tiltók að það væri “sérstaklega fólk til sveita sem er fátækt”. Eftir sem áður starfar hún í flokki með stefnu sem leiðir til fátæktar sveitafólks. Staðreyndin er nefnilega sú að núverandi landbúnaðarkerfi er þannig byggð upp að það heldur uppi atvinnu í landbúnaði á kostnað fólksins sem vinnur í greininni. Fátækt í sveitum, sem meðal annars birtist í miklum vandræðum bænda við að senda börn sín til náms, er þannig ekki þrátt fyrir, heldur mikið til vegna þess hvernig kerfið er byggt upp.
Ef landbúnaður á að verða raunverulegur valkostur fyrir fólk verður margt að breytast. Sérstaklega verður bændum að fækka stórkostlega. Núverandi fyrirkomulag tryggir að það eru margir bændur með lítil bú sem bera sig ekki. Með markaðsvæðingu landbúnaðarkerfisins, afnámi ríkisstyrkja og innflutningshafta, er ljóst að bændum mun fækka verulega. Þeir sem bregða búi og leita annarra afkomuleiða munu, ef rétt er að málum staðið, finna aðra og væntanlega betri vinnu. Þeir sem eftir verða munu, þrátt fyrir erlenda samkeppni eiga meiri og betri möguleika til að afla sér viðunandi lífsviðurværis.
Núverandi landbúnaðarkerfi kostar Íslendinga fimmtán milljarða króna á ári hverju. Fimmtán milljarða króna sem í raun og veru fara í súginn en væri hægt að nota í margt skynsamlegra svo sem menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslega kerfið að ógleymdri buddu almennings.
Markaðsvæðing samfélagsins myndi að öllum líkindum hafa í för með sér allt að 10% kaupmáttaraukningu fyrir þá launalægstu auk þess sem hagur þeirra sem starfa að landbúnaði í dag myndi batna með tíð og tíma.
Þess vegna má segja að stjórnvöld séu að taka skref í rétta átt þegar þau stefna að því að styrkja bændur til að bregða búi. Hins vegar skortir að þau setji sér það markmið að markaðsvæða landbúnaðarkerfið þannig að landbúnaður starfi við svipuð skilyrði og margar aðrar atvinnugreinar sem hafa náð að blómstra hér án þeirra ríkisafskipta og verndar sem er einkenni landbúnaðarkerfisins.
Hins vegar er það því miður staðreynd að langtímasýn hefur alltof oft vantað í íslensk stjórnmál.
ES
Svo má ekki gleyma því að þrátt fyrir að þetta skref sé tekið boðar landbúnaðarráðherra eftir sem áður aukna ríkisstyrki til þeirra sem eftir eru auk nýrra styrkja þar sem því verður við komið, svo sem til hestamanna fyrir norðan.