Vex Stóri Bróðir?

Logo

Bragi Freyr Gunnarsson

Bragi Freyr Gunnarsson sat í ritstjórn Skoðunar frá febrúar til september árið 2000.

17/02/2000

17. 2. 2000

Það hefur verið sagt frá því í fréttum að Einar Magnússon skólastjóri Hagaskóla hafi sótt um leyfi til að setja upp eftirlitsmyndavélar í og við skólann. Markmiðið með myndavélunum er að sporna við ofbeldi og peningaplokki meðal nemenda skólans. Samkvæmt Einari eru dæmi um að nemendur þvingi félaga sína í skólanum til að gefa sér […]

Það hefur verið sagt frá því í fréttum að Einar Magnússon skólastjóri Hagaskóla hafi sótt um leyfi til að setja upp eftirlitsmyndavélar í og við skólann. Markmiðið með myndavélunum er að sporna við ofbeldi og peningaplokki meðal nemenda skólans. Samkvæmt Einari eru dæmi um að nemendur þvingi félaga sína í skólanum til að gefa sér peninga án þess að hafa í hyggju að greiða þá til baka.


Það er gífurlega alvarlegt mál að nemendur í gagnfræðaskólum landsins skuli hegða sér á þann hátt sem Einar lýsir. Það er að sjálfsögðu algerlega óhæft að slík hegðun sé liðin og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að sporna við henni.

Það er þó varhugavert að nota eftirlitsmyndavélar til að fylgjast með nemendum í Hagaskóla, þrátt fyrir að myndavélarnar myndu koma í veg fyrir ofbeldi, peningaplokk og ef til vill einelti. Persónufrelsi einstaklingsins er dýrmætasta eign hans og eftirlitsmyndavélar vega illilega að því frelsi. Unglingar á gagnfræðaskólastigi verja bróðurparti dagsins í skólanum, og væri það því gífurleg skerðing á persónufrelsi þeirra að koma upp myndavélum sem gerðu yfirvöldum skólans kleift að fylgjast með þeim allan þann tíma sem unglingarnir eru í skólanum. Það væri nær að huga að raunverulegum orsökum þess að sum börn og unglingar beita jafnaldra sína ofbeldi og kúgunum.

Íslendingar eru almennt grandalausir þegar eftirlit yfirvalda með almennum borgurum er annars vegar. Þegar eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í miðborg Reykjavíkur gerðist það þegjandi og hljóðalaust. Mjög lítil umræða skapaðist um málið. Myndavélunum var ætlað að leysa hið svokallaða miðbæjarvandamál. Myndavélarnar voru/eru þó engin raunveruleg lausn. Hún kom nokkrum mánuðum síðar þegar opnunartími skemmtistaða í miðborginni var gefin frjáls. Eftir að það var gert er mun minna um mannaferðir í miðborginni yfir blánóttina um helgar, og mun minna um ofbeldisglæpi. Þrátt fyrir að vandamálið sé leyst; glæpum hafi fækkað, standa myndavélarnar eftir sem áminning um að alsæisvaldið (panopticon) sem sér allt og veit allt er ekki langt undan.

Það er gífurlega mikilvægt að fólk doki við og hugsi alvarlega um eðli eftirlits yfirvalda með þegnum sínum áður en hlaupið er til og eftirlitsbúnaði komið fyrir á fleiri stöðum. Þrátt fyrir að eftirlitsmyndavélar geti haft áhrif á tíðni glæpa er notkun þeirra varhugaverð. Í fyrsta lagi er alsendis óvíst að raunveruleg tíðni glæpa minnki, þó hún geri það á því svæði sem fylgst er með. Í öðru lagi leysir eftirlit engin vandamál, það ógnar einungis, og í þriðja lagi ber ávallt að varast að yfirvöld troði sér inn í einkalíf fólks, sem gerist þegar eftirlitsbúnaði er komið fyrir á opinberum svæðum.

Stöndum vörð um einkalíf okkar – og barna okkar, og hindrum vöxt stóra bróður.

Deildu