Klofningasaga með nýju sniði

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

07/02/2000

7. 2. 2000

Eins og flestir aðrir sem eitthvað hafa fylgst með stjórnmálum kann ég klofningasögu vinstrimanna utan að. Það kom mér hins vegar á óvart þegar ég komst að því að í síðustu sex Alþingiskosningum hefur Sjálfstæðisflokkurinn fimm sinnum boðið fram klofinn, eða klofnað á kjörtímabilinu. Gunnar myndar stjórn Magnaðasta dæmið um klofning Sjálfstæðisflokksins er auðvitað þegar […]


Eins og flestir aðrir sem eitthvað hafa fylgst með stjórnmálum kann ég klofningasögu vinstrimanna utan að. Það kom mér hins vegar á óvart þegar ég komst að því að í síðustu sex Alþingiskosningum hefur Sjálfstæðisflokkurinn fimm sinnum boðið fram klofinn, eða klofnað á kjörtímabilinu.


Gunnar myndar stjórn
Magnaðasta dæmið um klofning Sjálfstæðisflokksins er auðvitað þegar Gunnar Thoroddsen, varaformaður flokksins, og hluti þingmanna gekk til liðs við Alþýðubandalag og Framsóknarflokk um stjórnarmyndum 1980. Þá hafði mikil og langvinn stjórnarkreppa “þjakað” þjóðina sem endaði með því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins varð forsætisráðherra meðan formaður flokksins var leiðtogi stjórnarandstöðunnar.

Þrátt fyrir að flestir þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem tóku þátt í stjórnarmynduninni 1980 færu í framboð fyrir flokkinn í næstu kosningum 1983, var ekki þar með sagt að allt væri fallið í ljúfa löð. Óánægðir Sjálfstæðismenn á Vestfjörðum sem vildu ekki una því að prófkjör væri haldið fyrir kosningarnar buðu fram sérlista. Meðal efstu manna þar voru Sigurlaug Bjarnadóttir, þáverandi varaþingmaður flokksins, og Guðjón A. Kristjánsson, sem síðar varð varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og situr nú á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn. Þetta óánægjuframboð Sjálfstæðismanna náði hins vegar ekki inn á þing þrátt fyrir að fá um 12% atkvæða á Vestfjörðum.

Albert stofnar Borgaraflokkinn
Þegar Þorsteinn Pálsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir fyrir kosningar 1987 að útilokað væri að Albert Guðmundsson yrði ráðherra eftir kosningar vegna hneykslismála sem sá síðarnefndi hafði ratað í ákvað Albert að segja skilið við flokkinn og fara í sérframboð. Á mettíma var komið saman framboðslistum í öllum kjördæmum og Borgaraflokkurinn stofnaður. Borgaraflokkurinn náði sex mönnum á þing og tók þátt í ríkisstjórn 1989 – 1991 en dó út að því loknu.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn bauð fyrst fram undir forystu Davíðs Oddssonar 1991 bauð hann fram heill og óskiptur og hélst svo út kjörtímabilið. En þegar Eggerti Haukdal, þingmanni flokksins á Suðurlandi, var hafnað í prófkjöri fyrir kosningarnar 1995 ákvað hann að fara í sérframboð. Eggert hafði ekki erindi sem erfiði. Mörgum fannst það kaldhæðið að Eggert, sem löngum hafði verið uppnefndur aðalóvinur krata á Suðurlandi, varð til þess að tryggja Alþýðuflokknum sitt fyrsta þingsæti í kjördæminu í á annan áratug. En þau atkvæði sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði til lista Eggerts þýddu að Alþýðuflokkurinn fékk uppbótarþingmann í kjördæminu.

Sverrir stofnar Frjálslynda flokkinn
Þegar Sverrir Hermannsson hrökklaðist úr stöðu bankastjóra Landsbankans fór hann að undirbúa framboð. Þrátt fyrir ýmis áföll, svo sem brotthlaup forystu Samtaka um þjóðareign, tókst Sverri, fyrrum þingmanni og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að komast á þing við annan mann sem einnig hefur komið við sögu Sjálfstæðisflokksins, fyrrnefndan Guðjón A. Kristjánsson.

Illgirni mín
Nú kunna einhverjir að misskilja þessa upptalningu mína sem illgjarnt nöldur í garð Sjálfstæðisflokksins en svo er alls ekki. Mér fannst það einfaldlega athyglisvert að komast að því að sá flokkur sem hefur gert hvað mest úr klofningi vinstrimanna skuli vera sá flokkur sem hefur klofnað oftast undanfarna tvo áratugi.

Deildu