Fáfróðir ráðherrar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

04/10/1999

4. 10. 1999

Það er hreint með ólíkindum hvað ráðamenn þjóðarinnar láta út úr sér á stundum. Þannig er með ummæli forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra að undanförnu þess efnis að skortur á samkeppni haldi uppi matvælaverði og auki á verðbólgu. Einhvern veginn virðast þessir aðilar ekki skilja að þeir sjálfir eru helsta orsök vandans. Arfavitlaus landbúnaðarstefna Það sem heldur […]

Það er hreint með ólíkindum hvað ráðamenn þjóðarinnar láta út úr sér á stundum. Þannig er með ummæli forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra að undanförnu þess efnis að skortur á samkeppni haldi uppi matvælaverði og auki á verðbólgu. Einhvern veginn virðast þessir aðilar ekki skilja að þeir sjálfir eru helsta orsök vandans.


Arfavitlaus landbúnaðarstefna
Það sem heldur uppi verði landbúnaðarafurða, sem hefur verið hvað mest í umræðunni undanfarið, er sú staðreynd að við búum við að arfavitlaus landbúnaðarstefna hefur ráðið ferðinni hérlendis síðustu sextíu árin eða svo.

Innflutningstakmarkanir og ríkisstyrkir hafa leitt til þess að bændur og milliliðir hafa ekki fengið það aðhald sem frjáls samkeppni hefur veitt öðrum framleiðendum. Þess vegna hefur vöruþróun orðið hægari í landbúnaði en hefði getað orðið og vöruverð miklum mun hærra en þörf er á.

Helstu varðhundar þess kerfis sem hefur verið byggt upp í kringum þessa arfavitlausu stefnu í landbúnaði eru Sjálfstæðisflokkur Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og Framsóknarflokkur Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra. Saman hafa þessir flokkar gætt þess að neytendur fái ekki keyptar ódýrar landbúnaðarafurðir frá útlöndum. Þannig má nefna tilraun Bónus til að flytja inn kjúklingalæri fyrir nokkrum árum. Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins kom hins vegar í veg fyrir það með því að leggja á þá ofurtolla sem gerðu það að verkum að innflutningur varð í raun og veru ómögulegur.

Að játa sekt sína
Ef þeir kumpánar, Davíð og Guðni, horfðust í augu við raunveruleikann er hætt við því að þeir yrðu að játa sekt sína. Þeir, og félagar þeirra í stjórnarflokkunum, hafa öðrum fremur haldið uppi háu matvælaverði með landbúnaðarstefnu sem er ekki í nokkrum takti við raunveruleikann. Þeir hafa hins vegar tækifæri til að bæta fyrir brot sín, ef þeir vilja geta þeir opnað fyrir innflutning landbúnaðarafurða frá útlöndum með því að fella niður ofurtollana sem þeir hafa komið á.

Þetta er bara spurning um vilja. Vilja Guðni og Davíð lækka matvælaverð Íslendinga eða er þetta bara í nefinu á þeim?

Deildu