Það er furðulegt að nú, undir lok 20. aldar, skuli ríkið enn hafa afskipti af trúmálum fólks.
Þrátt fyrir að við fögnum því nú að 125 ár eru frá því trúfrelsi var leitt í lög hérlendis er það enn svo að ríkið hefur talsverð afskipti af trúmálum. Þannig sér ríkið ástæðu til að telja ein trúarbrögð öðrum fremri sem sést best á því að evangelísk lútherska kirkjan er kölluð þjóðkirkja og nýtur sérstakrar verndar stjórnvalda og ýmissa ráðamanna sem telja allar spurningar um stöðu kirkjunnar vera árás á hana og íslenskt samfélag.
Þeir sem verja samband ríkis og kirkju virðast þó ekki hafa áhyggjur af því að fólki sé mismunað eftir trú þeirra (og trúleysi) og þaðan af síður virðast þeir hafa áhyggjur af því að svara spurningunni um það hvort ríkið eigi yfir höfuð að skipta sér af trúmálum fólks.
Nú er það svo að undirritaður telur ríkisvaldið fyrir löngu hafa farið að skipta sér af alltof mörgum málum. Trúmál eru eitt þeirra mála. Rökin fyrir sambandi ríkis og kirkju (menningarleg áhrif hennar) hafa lítið vægi þar. Hvoru tveggja vegna afhelgunar (nokkuð neikvætt hugtak yfir minnkandi áhrifa trúarbragða á líf fólks) og ekki síður því að ólíklegt er að títtnefnd menningarleg áhrif myndu minnka eða breytast við það að þjóðkirkjan yrði sjálf ábyrg fyrir starfi sínu og rekstri.
Rökin fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju tel ég öllu meiri. Fyrst er að telja: Er brýn nauðsyn fyrir því að ríkið tryggi fjárhag trúfélaga? Mitt svar er nei, án þess að ég rökstyðji það frekar hér. Annað má nefna að á þessu ári er rúmum tveimur milljörðum króna varið til trúmála. Þetta eru peningar sem ég tel betur komið í öðrum verkefnum, svo ekki sé minnst á vasa þeirra sem greiða reikninginn, skattgreiðenda. Enn fremur má nefna að núverandi fyrirkomulag gerir upp á milli trúfélaga (þannig fær þjóðkirkjan nærri milljarð króna umfram sóknargjöldin sem öll skráð trúfélög fá).
Ríkisrekin kirkja er arfur fortíðar og á ekki við í nútímaþjóðfélagi. Kristnihátíðin á næsta ári er því sorglegt dæmi um hvernig stjórnmálamenn hafa fest sig í því að það sem einu sinni var í verkahring ríkisins þurfi að vera það um aldur og æfi. Það er kominn tími til að trúfélög fái að standa á eigin fótum.