Stefnuleysi kallar á fylgisleysi

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

25/07/1999

25. 7. 1999

Ef marka má skoðanakönnun Gallup sem birt var í vikunni hefur Samfylkingin tapað um þriðjungi fylgis síns frá kosningum. Í raun og veru þarf þetta ekki að koma á óvart. Dáðleysi Samfylkingar Það er ekki hægt að segja að Samfylkingin hafi verið að blómstra að undanförnu. Reyndar hefur Samfylkingunni gengið flest í mót. Á sama […]

Ef marka má skoðanakönnun Gallup sem birt var í vikunni hefur Samfylkingin tapað um þriðjungi fylgis síns frá kosningum. Í raun og veru þarf þetta ekki að koma á óvart.


Dáðleysi Samfylkingar
Það er ekki hægt að segja að Samfylkingin hafi verið að blómstra að undanförnu. Reyndar hefur Samfylkingunni gengið flest í mót. Á sama tíma og Vinstri-grænir hafa aukið fylgi sitt verulega hefur Samfylkingin dalað og gefur ekki vonir um skjótan bata.

Þannig hefur vart annað heyrst frá Samfylkingunni en kröfur um þingflokksherbergi Framsóknarflokks og vonir fjölda fólks um formennsku í nýjum flokki. Þingflokkur Samfylkingar reyndi vissulega að vekja athygli með því að leggja fram tillögu um að banna bensínskattahækkun ríkisstjórnar. Gott mál sem gæti verið líklegt til árangurs. Því var hins vegar illa fylgt eftir og árangurinn varð því enginn.

Á sama tíma hafa Vinstri-grænir lagt fram nokkrar þingsályktunartillögur sem allar höfðuðu til væntanlegra stuðningsmanna þeirra. Þeir hafa staðið fyrir uppákomum og boðað til landsfundar innan skamms. Hjá Vinstri-grænum er líf og fjör, hjá Samfylkingunni virðist allt fara úrskeiðis.

Lánleysi
Fyrir kosningar gerðu forystumenn flokkanna sem standa að Samfylkingunni málefnasamning sem byggði á málamiðlunum sem má líkja við 0 – 0 jafntefli. Með öðrum orðum má segja að málefnasamningurinn hafi einkennst af: Ég skal ekki vera á móti þessu ef þú ert ekki á móti hinu. Niðurstaðan varð oft óskýr og iðulega óspennandi stefna sem höfðaði lítt til kjósenda.

Þessu til viðbótar bætist skortur á sterkri forystu. Margrét Frímannsdóttir er um margt góður stjórnmálamaður en náði ekki að valda forystuhlutverki Samfylkingar svo vel væri. Ef til vill er því um að kenna að hún fékk forystuna eins og gjöf frá formanni Alþýðuflokks í stað þess að hljóta hana frá fjölmennri samkomu.

Lánleysið hefur líka verið nær algjört. Stefnuskráin varð eins og við var að búast fyrir fjölda árása frá Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Vinstri-grænum. Árásum sem var illa eða ekki svarað. Deilur um prófkjör eyðilögðu gríðarlega fyrir Samfylkingunni. Skortur á traustverðu fólki kann líka að hafa sitt að segja. Fólk leit á frambjóðendur Samfylkingar og sá fólk sem það treysti ekki fyrir ríkisfjármálum og taldi vanmegnugt til að hrinda góðum stefnumálum í félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu í framkvæmd.

Samt er von
Þrátt fyrir að flest hafi gengið Samfylkingunni í mót er ekki þar með sagt að öll von sé úti. Þrátt fyrir stefnuleysi og veika forystu fékk Samfylkingin atkvæði rúmlega fjórðungs kjósenda. Til þess að halda í þessa kjósendur, og afla nýrra, verður Samfylkingin að láta verða af flokksstofnun og byggja upp skýra og skilmerkilega stefnuskrá. Flokksstofnun verður væntanlega ekki fyrr en seint á næsta ári í fyrsta lagi. En þangað til verður Samfylkingin að minna á sig, móta stefnu, standa fyrir uppákomum og marka sér sérstöðu í íslenskum stjórnmálum. Verði það ekki gert er hætt við að stóri jafnaðarflokkurinn verði fæddur andvana.

Deildu