Kristilegi íhaldsflokkurinn í Reykjavík

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/03/2002

25. 3. 2002

Það er ljóst að með framboði Björns Bjarnasonar hafa Reykjavíkurbúar eignast nýjan valkost í borgarstjórnarkosningunum. Kristilega íhaldsflokkinn. Hvert það afl sem er undir stjórn Björns Bjarnasonar er þess ekki verðugt að vera kennt við sjálfstæði eða frelsi. Kristilegi íhaldsflokkurinn er mun betra nafn, enda hefur menntamálaráðherrann talið sig sérstakan verndara hins íslenska móralska meirihluta og […]

Það er ljóst að með framboði Björns Bjarnasonar hafa Reykjavíkurbúar eignast nýjan valkost í borgarstjórnarkosningunum. Kristilega íhaldsflokkinn. Hvert það afl sem er undir stjórn Björns Bjarnasonar er þess ekki verðugt að vera kennt við sjálfstæði eða frelsi. Kristilegi íhaldsflokkurinn er mun betra nafn, enda hefur menntamálaráðherrann talið sig sérstakan verndara hins íslenska móralska meirihluta og er yfirlýstur andstæðingur þeirra sem aðhyllast ekki sömu lífsgildi og hann sjálfur. Þessi opinbera afstaða hans gerði hann óhæfan með öllu til að gegna stöðu menntamálaráðherra þjóðarinnar á sínum tíma og á hann ekkert erindi í borgarstjórastólinn af sömu ástæðum.

Vegið að jafnræðisreglunni
Stjórnmálamenn verða og eiga að hafa skoðanir, en þegar viðhorf þeirra og aðgerðir á opinberum vettvangi miða að því tala fyrir hönd eins hóps á kostnað annarra þannig að grafið er undan jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, verður að staldra við. Eins og menn vita þá stendur í stjórnarskrá Íslands að allir menn séu jafnir fyrir lögum og ekki megi mismuna fólki m.a. vegna trúarskoðana sinna. Björn hefur lýst því yfir með orðum sínum og aðgerðum að hann sé þessu ekki sammála.

Á kirkjuþingi árið 1995 predikaði Björn yfir þinggestum og talaði af miklum eldmóð gegn borgaralegu fermingu þeirri sem Siðmennt – félag um borgaralegar athafnir, hefur boðið uppá síðan 1989. Björn sagði m.a.:

,,Ljóst er, að sú tíska gengur einnig yfir Ísland, sem mælir gegn kristnum áhrifum á ungt fólk. Birtist hún í ýmsum myndum og fær liðsinni úr ólíkum áttum. Hér í Reykjavík hafa til dæmis orðið umræður um hlut borgaryfirvalda að borgaralegri fermingu, sem segja má að stefnt sé gegn gildum kristninnar. Þegar um þessi gildi er að ræða eiga stjórnmálamenn ekki að hika við að taka afstöðu með þeim sjónarmiðum, sem reifuð eru í aðalnámskrá grunnskólans. Síst á það við í þessu efni að hlaupa á eftir tískustraumum.“ (1)

Þarna fór Björn beinlínis með rangt mál, enda er ekkert í stefnu Siðmenntar sem mælir gegn svokölluðum gildum kristninnar. Nema umfjöllun um ,,fjölskylduna, lífsviðhorf, frelsi, ábyrgð, hamingju, gleði, sorg, samskipti, mannréttindi og réttindi unglinga, jafnrétti, siðfræði, efahyggju, baráttu fyrir friði, samskipti kynjanna, umhverfismál o.fl.“ (2) séu sérstaklega andkristin gildi?

Björn gerir tilraun til að hindra starfsemi Siðmenntar
En það voru ekki þessar staðreyndavillur um starfsemi Siðmenntar sem voru verstar í málflutningi Bjarnar. Það sem var alvarlegra er að Björn gagnrýndi borgarstjórann í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, harðlega fyrir að leyfa Siðmennt að halda fermingarathöfn sína árið 1995 í ráðhúsi Reykjavíkur. Það fannst Birni ekki ásættanlegt þar sem hann er þeirrar skoðunar ,,að stjórnmálamenn [eigi að standa] vörð um [kristin] gildi“. (3) Það kann þó ekki að vera að það hafi verið vegna tilstuðlan þáverandi menntamálaráðherra sem það kostaði Siðmennt langa baráttu að fá að halda borgaralega fermingu í húsnæði Háskóla Íslands?

Enn fremur sagði Björn á fyrrnefndu kirkjuþingi þegar hann fjallaði um starfsemi Siðmenntar:
,,Þeir, sem bjóða sig fram til forystu, eiga að hafa þrek til að taka skýra afstöðu í málum, er lúta að rótum lýðræðislegra stjórnarhátta okkar og snerta auk þess kjarna hinna siðferðilegu gilda og byggjast á kristinni trú.“ (4)

Stríðshanskanum kastað
Með þessum orðum kastaði Björn stríðshanskanum fram fyrir alla þá sem aðhyllast ekki sömu kristnu lífsskoðanir og hann hefur kosið að vernda sérstaklega umfram aðrar lífsskoðanir. Þessi ólýðræðislega afstaða hans kristallaðist í Morgunblaðsviðtali í ágúst árið 1999 þegar fréttamaður spurði hann hvort ekki væri eðlilegra að segja nemendum frá öllum helstu trúarbrögðum heims í opinberum grunnskólum landsins en ekki kenna þá einhliða kristinfræðslu eins og nú er gert. Björn svaraði ekki spurningunni en lét hafa eftir sér eftirfarandi: ,,ég er sannfærður um það að því meiri fræðslu sem menn fá um önnur trúarbrögð, því hrifnari verði þeir af kristinni trú.“ (5)

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að námsskrá sú er Björn lét búa til er gegnumsýrð af trúarlegum boðskap hans þar sem m.a. kemur fram að: ,,Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans…“. (6) Rétt eins og siðgæði okkar hinna sé ekki nógu gott og ekki þess verðugt að kenna.

Mikið hefur verið rætt síðustu vikur og mánuði um siðleysið sem felst í því þegar menn misnota aðstöðu sína í fjárhagslegum tilgangi. Ekki verður séð að það sé minna siðlaust þegar menn nota völd sín til þess að hnýta í lífsskoðanir minnihlutahópa sem aðhyllast aðra hugmyndafræði en þeir sjálfir og reyna þannig að hindra starfsemi þeirra. Slík notkun valds er, eins og áður segir, aðför að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ógeðfelld aðferð til þess að láta fjölmörgum fullgildum Íslendingum líða eins og þeir séu annars flokks borgarar.

Mönnum sem viðhafa slíka valdmisbeitingu hljóta borgarbúar að hafna í kosningunum í vor.

Ítarefni:

___________

(1) Björn Bjarnason í ræðu sinni á kirkjuþingi í Bústaðarkirkju þann 17. október 1995.

(2) ,,Hvað er borgaraleg ferming?“ – Umfjöllun um markmið borgaralegrar fermingar á vefsíðu Siðmenntar (www.sidmennt.is).

(3) Björn Bjarnason í grein sinni: ,,Kirkjuþing – borgarstjóri – borgaraleg ferming“ frá 21. október 1995.

(4) Björn Bjarnason í ræðu sinni á kirkjuþingi í Bústaðarkirkju þann 17. október 1995.

(5) Björn Bjarnason í Morgunblaðsviðtali þann 31. ágúst 1999.

(6) Aðalnámsskrá grunnskóla frá 1999 – Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði. Bls. 8.

Höfundur er varaformaður Siðmenntar (www.sidmennt.is).

Deildu