Mannúðarmál

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

02/03/2000

2. 3. 2000

Í síðustu viku birtist fremur fyndin grein á forsíðu Múrsins þar sem hinir róttæku frömuðir þess skondna vefs færðu rök fyrir því að George Bush yngri, forsetaframbjóðandi og fylkisstjóri í Texas væri mun verri og hættulegri maður en Jörg Heider, foringi austurrískra þjóðernissinna. Rök þeirra byggja á því að Bush sé liðtækur böðull sem einna […]

Í síðustu viku birtist fremur fyndin grein á forsíðu Múrsins þar sem hinir róttæku frömuðir þess skondna vefs færðu rök fyrir því að George Bush yngri, forsetaframbjóðandi og fylkisstjóri í Texas væri mun verri og hættulegri maður en Jörg Heider, foringi austurrískra þjóðernissinna. Rök þeirra byggja á því að Bush sé liðtækur böðull sem einna helst fái útrás fyrir morðgleði sína með því að láta taka af lífi hörundslitaða fátæklinga.


Nú er það einu sinni svo að á Vesturlöndum er ríkisvaldið almennt þrískipt, í framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald, og svo er einnig í henni Ameríku. Hugmyndin er sú að óeðlilegt sé að það geti orðið pólitísk ákvörðun hvort fólk skuli taka afleiðingum þess að hafa framið afbrot. Reyndar er pottur brotinn í mörgum ríkjum Bandaríkjanna þar sem fylkisstjórar hafa umboð til að náða afbrotamenn sem hafa fengið dóma fyrir illvirki s.s. morð og nauðganir. Í þessu tilfelli vil ég telja Bush yngri það til tekna að hafa látið það ógert að hrufla með sínum íhaldssömu fingrum í eðlilegri virkni dómskerfisins. Ég tel rétt að benda hinum meinhæðnu háfjallakommum Múrsins á að George Bush situr ekki á fylkisstjóraskrifstofu sinni í Texas og velur af handahófi fátæklinga til að lífláta, heldur hefur þetta fólk verið fundið sekt um hrottalega glæpi. Um hitt get ég þó verið Múrurunum sammála um að dauðarefsingar eru engu betri en morðin sem umræddir afbrotamenn hafa framið.

Í sömu grein er minnst lítilega á mál fyrrum einræðisherra Chile, Ágústar Pinochets, þar sem Múrararnir gagnrýna að þessum illvirkja verði hlíft við að taka afleiðingum gjörða sinna. Aftur er ég sammála múrurunum. En þarna eru þeir í hrópandi mótsögn við sjálfa sig. Örlög Pinochets eru í höndum stjórnmálamanna. Að það sé óásættanlegt að pólitísk ákvörðun geti bjargað Pinochet en ásættanlegt að pólitísk ákvörðun geri það sama fyrir morðóða langömmu í Texas, hverrar eigin börn vitnuðu gegn, er fáránlegt.

Að lokum bera Múrararnir saman mál langömmunar frá Texas við mál kúrdaleiðtogans Öcalans. Þessi samanburður er bæði langsóttur og fáránlegur. Öcalan er leiðtogi niðurbarins þjóðernisminnihluta sem er ofsóttur í öllum þeim löndum þar sem hann fyrirfinnst. Umrædd langamma myrti eiginmann sinn. Ég er ekki að segja að góður málstaður réttlæti mannsmorð enda á ég ekki hugmyndafræðilegar rætur mínar í róttækari hluta vinstrilitrófsins. Ég tel báðar aftökur vera rangar. Forsendurnar fyrir aftökunum eru hinsvegar afar ólíkar.

Í þessari grein er þess krafist að Evrópusambandið sé samkvæmt sjálfu sér. Einhvern veginn finnst mér að Múrinn eigi að líta í eigin barm. Málflutningur þeirra er hentistefnulegur og virðist aðeins byggja á tveimur forsendum. Í fyrsta lagi: Róttækir vinstrimenn hafa löngum haldið við þá Sovésku afstöðu að réttast sé að vera illa við Bandaríkin og nýta hvert tækifæri til að hníta í þau. Í öðru lagi sé rétt að verja Jörg Heider, því þrátt fyrir allt sé hann ekkert meira en ómerkilegur poppúlisti sem notar óraunsæja stefnu og öfgakenndan málflutning til að veiða atkvæði. Svona pínulítið eins og Vinstrihreyfingin – grænt framboð.

Deildu