Frá einræði til lýðræðis

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

08/11/1999

8. 11. 1999

Á morgun verða tíu ár liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Þessi atburður sem öðru fremur er til marks um það þegar austantjaldsþjóðirnar brutust undan oki harðstjórnar og einræðis vekur einnig athygli á því hversu langt þjóðirnar hafa náð á þeim skamma tíma sem síðan er liðinn. Ný stjórnkerfi, ný markmið Fyrir tíu árum voru austantjaldsþjóðirnar ofurseldar […]

Á morgun verða tíu ár liðin frá hruni Berlínarmúrsins. Þessi atburður sem öðru fremur er til marks um það þegar austantjaldsþjóðirnar brutust undan oki harðstjórnar og einræðis vekur einnig athygli á því hversu langt þjóðirnar hafa náð á þeim skamma tíma sem síðan er liðinn.


Ný stjórnkerfi, ný markmið
Fyrir tíu árum voru austantjaldsþjóðirnar ofurseldar valdi fámennra valdaklíka sem stjórnuðu ríkjum sínum mikið til án þess að taka nokkuð tillit til þarfa almennings og langana. Á þeim tíu árum sem síðan eru liðin hefur flestum þjóðunum lánast að byggja upp einhvers konar lýðræðiskerfi. Vissulega eru þau fjarri því öll þannig að við sem höfum búið við lýðræði alla okkar ævi sættum okkur við þau, en þau eru þó öll stórt stökk fram á við frá því kerfi sem þau leystu af hólmi.

Þessu hafa fylgt heilmikil umskipti. Þannig hefur markaðshagkerfi, sem varla þekktist í þessum löndum í tíð fyrrum valdhafa, náð að skjóta rótum og vex nú smám saman og dafnar. Fyrst um sinn eru afleiðingar þess ekki allar góðar en til lengri tíma litið verður markaðshagkerfið, ásamt lýðræðislegra stjórnfari, mesta lyftistöng þessara ríkja.

Önnur merk umskipti eru þau sem orðið hafa í alþjóðamálum og því hvernig fyrrum austantjaldsþjóðir hafa leitað eftir stöðugt meiri samskiptum við lýðræðisþjóðirnar sem fyrrum stjórnvöld vildu sem minnst af vita. Þannig hafa flest ríki Austur-Evrópu sótt um aðild að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Til Atlantshafsbandalagsins vilja þau sækja tryggingu fyrir sjálfstæði sínu og til Evrópusambandsins aukna efnahagslega velsæld.

Samanburðurinn við Ísland
Reyndar er gaman að líta til þeirrar þróunar sem hefur orðið á Íslandi á sama tíma. Þrátt fyrir að Ísland hafi öðlast sjálfstæði 1944, og verið nokkurn veginn sjálfráða frá því framkvæmdavaldið fluttist hingað til lands 1904, höfum við á þessum áratug tekist á við mörg svipuð vandamál og austantjaldsþjóðirnar þó í minna mæli sé.

Þannig höfum við staðið að því að efla markaðshagkerfið á Íslandi. Ríkisafskipti hafa minnkað og leikreglur markaðshagkerfis verið skýrðar svo fátt eitt sé nefnt. Raunin er nefnilega sú að íslenskum stjórnvöldum hefur lengst af á þessari öld lítið legið á að koma á hagkvæmu efnahagskerfi hérlendis. Þetta horfir þó til betri vegar enda hafa allir stjórnmálaflokkarnir (ef til vill að Vinstri-grænum undanskildum) talað um þörf á því að færa þessi mál til nútímalegra horfs.

Eins er með alþjóðamálin. Ísland hefur að vísu verið aðili að Atlantshafsbandalaginu frá upphafi en aðild að Evrópusambandinu hefur verið meira feimnismál. Þannig minnist ég þess að þegar farið var að ræða um þátttöku í samningum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu margir (þar á meðal núverandi ráðherrar) uppi hávær mótmæli og töldu að sjálfstæði Íslands liði undir lok tækju Íslendingar þátt í samstarfi Evrópuþjóða. Sömu raddir hljóma þegar rætt er um aðild að Evrópusambandinu. Talsmenn aðildar eru vændir um landráð og að gera lítið úr sjálfstæðisbaráttunni á fyrri hluta aldarinnar. Þegar litið er á reynsluna sem við höfum af þátttökunni í EES-samningnum sjáum við hins vegar að af henni höfum við haft mikinn hag og sennilega hefur þátttakan ráðið meiru en flest annað um það góðæri sem við höfum búið við á síðari hluta áratugarins.

Um leið og ég samgleðst austantjaldsþjóðunum með þann árangur sem þær hafa náð á tiltölulega skömmum tíma verð ég að viðurkenna að mér þykir leitt að í sumum mikilvægum málum skuli þær hafa skilið okkur eftir langt að baki sér. Ef til vill er það öðru fremur til marks um þann skort á framsýni sem einkennir marga áhrifamestu stjórnmálamenn Íslands síðustu árin.

Deildu