Fiskar án reiðhjóls

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

15/02/2001

15. 2. 2001

Jafnrétti kynjanna er eitt af þessum umræðuefnum sem endalaust koma upp í pólitísku starfi. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið enda er fólk ekki á eitt sátt um hvernig skilgreina beri orðið jafnrétti, hvað þá um hvernig best skuli hrinda því í framkvæmd. Forystusveit ungra femínista á Íslandi, málfundarfélagið Bríet, virðist hafa komist að […]

Jafnrétti kynjanna er eitt af þessum umræðuefnum sem endalaust koma upp í pólitísku starfi. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið enda er fólk ekki á eitt sátt um hvernig skilgreina beri orðið jafnrétti, hvað þá um hvernig best skuli hrinda því í framkvæmd. Forystusveit ungra femínista á Íslandi, málfundarfélagið Bríet, virðist hafa komist að þeirri niðurstöðu að jafnrétti sé heimur án karla.


Aftur til fortíðar
Flest nútímaleg félagasamtök hafa það sem vinnureglu að reyna að tryggja jafnan aðgang beggja kynja að starfi sínu. Þetta á sérstaklega við um stjórnmálaflokka og er svo komið að jafnvel Framsóknarflokkurinn er farinn að vinna eftir sérstakri jafnréttisáætlun og er fyrir vikið eini flokkurinn sem í sögu lýðveldisins hefur skipað tvo kvenkyns ráðherra.

Af öllu má sjá að Bríet er mótfallin þessari þróun enda hafa þær tekið upp á þeirri nýbreytni að meina aðgang að fundum sínum öllum þeim sem voru svo ólánsamir að fæðast með hverskyns útvöxt á milli lappanna. Ástæðuna segja þær að meginþorri þeirra ágætu stráka sem hingað til hafa sótt fundi þeirra geri það til að skemmta sér. Þetta fer mikið fyrir brjóstið á Bríet sem telur augljóslega að fundarseta skuli á öllum tímum vera hin mestu leiðindi.

Bríet virðist staðráðin í því að viðhalda því úrelta viðhorfi að jafnréttismál séu einkamál kvenna. Þetta er á sinn hátt skynsamlegt frá sjónarhorni karlrembusvínsins enda fátt betra en að einangra konur í sínu horni þar sem þær geta setið og rætt daglega reynslu sína af kúgun. Þannig verða jafnréttismál eitthvað undarlegt og framandi í augum karlkynsins, eitthvað sem kemur okkur ekki við. Eitthvað tortryggilegt.

Börn annars tíma
Vandamál Bríetanna er að svo virðist sem jafnréttisumræða samtímans hafi að miklu leiti farið framhjá þeim. Þær lifa í eigin hugarheimi, á gullaldartíma rauðsokkuhreyfingarinnar, upplifa botnlausa kúgun og eru ófærar um að sjá viðfangsefni sitt í víðara samhengi. Sem dæmi má nefna að þegar umræðan um fæðingarorlof feðra stóð sem hæst létu þessar frökku stúlkur lítið í sér heyrast en eyddu frekar orku sinni í að bölsótast út í málvenjur og orð, eins og: Ráðherra, borgarstjóri, jafnaðarmaður, bræðralag o.s.frv.

Ég veit ekki hvort að einkynja félög standast jafnréttislög, og í raun er mér sama. Ég hef hinsvegar áhyggjur af því hugmyndafræði femínismans sé komin í öngstræti. Örvæntingarfullar tilraunir til að marka sér sérstöðu með einangrunarhyggju getur aðeins valdið skaða á jafnréttishugsjóninni. Bríet verður að skilja að jafnréttismál eru ekki einkamál kvenna heldur hagsmunamál allra sem láta sig samfélagið varða.

Megum við vera memm?
Bríetur verða líka að skilja að femínisminn er hugmyndafræði sem á erindi við stærri hóp. Þær verða að standa undir hlutverki sínu sem framvarðasveit femínismans að boða fagnaðarerindið, ekki bara við kynsystur sínar heldur einnig við þröngsýnni hluta karlkynsins. Ég vona að Bríet opni dyr sínar fyrir karlkyninu og sjái þann augljósa hag í að þróa félagsskap sinn yfir í tvíkynja vettvang hugsandi fólks. Mér þætti vænt um ef þær létu mig vita um leið og ég get sótt fundi þeirra. Þó ég muni hafa gaman að því fullyrði ég að sú skemmtun verður femínismanum ekki skaðleg.

Deildu