Þetta var nú meira atvinnustjórnmálablaðrið í Silfrinu í kvöld. Almennt kvabb um orkumál, fjölda stofnana og óljósir frasar um heilbrigðismál og húsnæðismál. Allir að reyna að tala af „yfirvegun“ og „ábyrgð“. Hingað til hef ég engan heyrt tala skýrt um mál sem skiptir fólk máli. Hvernig á að taka á biðlistum í heilbrigðiskerfinu? Hvaða aðgerðir, nákvæmlega, ætla flokkarnir að fara í til að tryggja hagsmuni barna, öryrkja, aldraðra, heimilislausra og annarra hópa sem illa geta varið sig? Hvað á að gera til draga úr misskiptingu og örvæntingu fólks sem nær ekki endum saman? Hvernig á að tryggja betur að tekjulágt fólk eigi eða hafi aðgang að öruggu húsnæði? Hvernig á að bregðast við augljósum fjárskorti í félagslega kerfinu okkar, í skólunum eða á heilsugæslunni? Hvað með geðheilbrigðismál, skipta þau nokkru máli?
Í Silfrinu var lítið annað að heyra en atvinnustjórnmálablaður. Blaður frá fólki sem annaðhvort hefur ekki innsýn inn í kaldan veruleika almennings, eða hefur ekki áhuga á að kynna sér hann.
Ég auglýsi eftir fólki í framboði með skýrar hugmyndir sem skipta máli. Ég auglýsi eftir framsæknum hugmyndum.
Vaðið í hægrivillu
Áður en einhver fer að nöldra yfir því að framsæknar lausnir til hagsbóta fyrir almenning kosti of mikið, þá minni ég á að slíkt nöldur er einmitt bara það. Nöldur. Sérstök tegund af nöldri sem ég kalla hægrivillu.
Hægrivillan gengur út á það að horfa bara á aðra hlið jöfnunar, þ.e. kostnaðarhliðina, en gleyma um leið hversu mikið samfélagið allt græðir á því til lengri tíma, í beinhörðum peningum, að byggja upp öflugt velferðarsamfélag. Velferðarsamfélagið tryggir, til framtíðar, fleiri og öflugri vinnandi hendur sem skapa verðmæti.
Velferð dregur ekki bara úr eymd. Velferð er okkar besta fjárfesting til framtíðar.