Ákvörðun Hæstaréttar að ógilda stjórnlagaþingskosningarnar með einu pennastriki er ansi sérstök. Ég fæ ekki séð að framkvæmdaratriðin sem gagnrýnd voru í áliti Hæstaréttar hafi verið þess eðlis að nauðsynlegt hafi verið að ógilda heilar kosningar. En hvað um það? Ég ætla ekki að deila við dómarana. Ég nenni því ekki. Ég ætla að leyfa mér að líta á ákvörðun Hæstaréttar jákvæðum augum. Ekki sem enn eitt áfallið sem hefur dunið yfir íslenska þjóð heldur sem tækifæri til að halda enn betra stjórnlagaþing. Ýmislegt fór úrskeiðið í kringum þessar kosningar annað en framkvæmdin sjálf. Kynningin var léleg, frambjóðendur alltof margir og kosningafyrirkomulagið sjálft ruglingslegt.
Að mínu mati kemur ekki til greina að hætta við stjórnlagaþing og ætla ég því ekki ræða þann möguleika. Ég tel að Hæstiréttur hafi fyrst og fremst gefið okkur Íslendingum frábært tækifæri til að læra af mistökum síðustu tilraunar.
Hér eru þrjár einfaldar tillögur um nýjar kosningar til stjórnlagaþings.
1) Opna skal sem fyrst fyrir framboð til nýs stjórnlagaþings sem kosið verður til í vor eða snemma í sumar.
2) Auka skal kröfur um fjölda meðmælenda úr „minnst 30 til mest 50“ í „minnst 300 í mest 500“. Þannig komum við í veg fyrir að alltof margir bjóði sig fram. Að mínu mati hefur einstaklingur sem getur ekki safnað 300 meðmælendum lítið að gera á stjórnlagaþing.
3) Rúv og þá Ríkissjónvarpinu sérstaklega verði gert skylt að fjalla almennilega um kosningarnar. Að minnsta kosti jafnvel og Stöð 2 sport fjallaði um heimsmeistaramótið í handbolta. Ég vil fá vandaða og áhugaverða þætti um helstu átakamál á komandi stjórnlagaþingi og góða kynningu á frambjóðendum, verði þeir ekki of margir.