Davíð Oddsson er góður penni, hann hefur sterkar skoðanir og gífurlega þekkingu á öllu því sem tengist íslenskum stjórnmálum. Allt ákjósanlegir eiginleikar fyrir ritstjóra Morgunblaðsins. Það að Davíð sé augljóslega Sjálfstæðismaður er nánast aukaatriði. Allir ritstjórar Morgunblaðsins hafa verið Sjálfstæðismenn. Ekkert nýtt þar á ferð.
Þau atriði sem gera Davíð þó algerlega óhæfan, þrátt fyrir aðra kosti, til að ritstýra virtasta dagblaði landsins eru þó mun veigameiri í mínum huga. Hann var forsætisráðherra frá 1991 til 2004 og utanríkisráðherra frá 2004 til 2005. Maðurinn stýrði ríkisstjórn Íslands þegar bankarnir voru einkavæddir og þegar útrásarvíkingarnir hófu að galdra peninga úr oft engu nema íslensku lofti. Hann var seðlabankastjóri Íslands þegar bankarnir hrundu. Ef marka má helstu aðdáendur hans hefur Davíð Oddsson borið höfuðábyrgð á þróun íslensks samfélags undanfarin ár. Reyndar hafa grúppíurnar nú aðeins dregið í land og segja Davíð einungis bera ábyrgð á því góða í íslensku samfélagi, hrunið er vondu kapítalistunum að kenna.
Hvaða skoðun sem fólk hefur á ábyrgð Davíðs á íslenska efnahagsundrinu/hruninu er ljóst að stöðu sinnar vegna (sem ráðherra og seðlabankastjóri) á Davíð eftir að vera stórleikandi í fjölda frétta í nánustu framtíð. Hvað gerist þegar út koma skýrslur um bankahrunið? Hvað gerist ef nýjar upplýsingar koma upp á yfirborðið sem tengja Davíð við fall bankanna? Er líklegt að ritstjóri Morgunblaðsins verði reiðubúinn að veita öðrum fjölmiðlum viðtöl og svara spurningum þeirra? Heldur einhver að Davíð sé tilbúinn að veita öðrum fjölmiðlum upplýsingar sem gætu orðið að mikilvægri forsíðufrétt? Nei, auðvitað ekki.
Hvað með Morgunblaðið sjálft? Sjá menn það virkilega fyrir sér að blaðamenn þess blaðs grafi upp óþægilegar staðreyndir um Davíð, hringi svo í skiptiborðið til að fá samband, og krefji svo yfirmann sinn svara við erfiðum spurningum? Ætli þeir séu margir blaðamennirnir sem eru tilbúnir að taka slíka áhættu í kreppunni? Ég býst ekki við því.
Þegar aðrir fjölmiðlamenn reyna að ná í Davíð mun það sjaldnast takast og margar fréttir munu enda á „ekki náðist í ritstjóra Morgunblaðsins til að fá viðbrögð við umræddri frétt“.
Davíð Oddsson er fréttaefni, ekki efni í ritstjóra.