Mannréttindum á Íslandi gefið rothögg

Logo

17/05/2000

17. 5. 2000

Það er alltaf svolítið undarlegt að horfa upp á fólk sem telur sig berjast fyrir jafnrétti og mannréttindum, verða skyndilega íhaldsamt, líkt og suður amerískur hershöfðingi, þegar leyfa á hluti sem þeim þóknast ekki. Dæmi um slíkt eru mörg, má þar nefna málfrelsi en það virðist ávallt takmarkast mjög ef segja á eitthvað sem mannréttindafrömuðum […]

Það er alltaf svolítið undarlegt að horfa upp á fólk sem telur sig berjast fyrir jafnrétti og mannréttindum, verða skyndilega íhaldsamt, líkt og suður amerískur hershöfðingi, þegar leyfa á hluti sem þeim þóknast ekki. Dæmi um slíkt eru mörg, má þar nefna málfrelsi en það virðist ávallt takmarkast mjög ef segja á eitthvað sem mannréttindafrömuðum mislíkar. Til eru samtök sem berjast t.d. fyrir því að banna Mein Kampf og allar þær bækur sem innihalda einhvern vott af gyðingahatri og hverskyns kynþáttafordómum. Þeir vilja helst brenna slík rit og hegða sér þá líkt og nasistar gerðu forðum. Jafnvel þótt að það sem standi í slíkum bókum sé óhæfa þá er það algjört aukaatriði, því annars væri ekki um neitt málfrelsi að ræða. Einnig má nefna lýðræði, en þegar almenningur kýs yfir sig stjórn eins og þá sem nú er við völd í Austurríki, þá vilja mannréttindafrömuðir helst takmarka sjálft lýðræðið og beita viðskiptaþvingunum ef þeir geta, til að hafa vit fyrir almenningi sem greinilega er verulega greindarskertur þegar miðað er við þá sem hafa „réttar“ skoðanir á málunum.


Alþingi Íslands hegðaði sér svona á dögunum, þegar það viðhélt úreltu banni á hnefaleikum á Íslandi. Sigurður Hólm, pistlarhöfundur er einnig dæmi um mann sem hefur „rétta“ skoðun á málinu. Hann telur að banna þurfi hnefaleika vegna þess að það fólk sem stundar slíkt sport eru óvitar sem ekki hafa nægan þroska til að taka ábyrgð á eigin lífi. Sigurður og þeir alþingismenn sem greiddu atkvæði á móti frumvarpinu taka að sér að „ættleiða“ þjóðina og taka af henni sjálfræðið og hegða sér síðan líkt og umhyggjusamt foreldri sem bannar barninu sínu að leika sér að eldi.

Sannleikurinn er sá að ríkið á ekkert að skipta sér að málefnum manna nema ef athafnir þeirra beinlínis skaða aðra án þeirra vilja. Að leyfa hnefaleika er grundvallar mannréttindi og myndu slík lög skerða aðeins þá valdníðslu sem viðgengst enn hér á landi.

En tökum nú aðeins fyrir þau rök sem Sigurður setti fram í pistli sínum. Hann talar um fallhlífarstökkvara, en svo skemmtilega vill til að sá sem þetta ritar er einmitt einn slíkur, Sigurður segir að slys séu ekki tilgangurinn með því sporti, heldur óheppileg afleiðing, og því sé einhver tæknilegur munur á þessum íþróttagreinum. En þó er það þannig að ef fallhlífarstökk væri fullkomlega örugg íþrótt, þá myndi greinarhöfundur ekki stunda hana og sama má segja um marga aðra, það er nefnilega svo að mannskepnan sækjast í það sem hættulegt er, það er í hennar eðli. Það að lifa í fullkomnu öryggi á ríkisspenanum í sovéskri blokk er ömurleg tilvist, það að taka áhættu er skemmtilegt og það gefur lífinu gildi.

En vissulega eru þeir til sem ekki vilja taka áhættu og er það þeim frjálst. En hér er einmitt mergur málsins, þ.e. frelsi. Einstaklingurinn á að hafa frelsi til að athafna sig eins og honum sýnist, það er ekki í verkahring ríkisins né nokkurns annars að „vernda“ fullorðið fólk frá þeirra eigin gerðum. Þeir sem þannig hugsa setja sig á háan hest og telja sig yfir aðra hafna. Ef Jón Jónsson vill berja hausnum í stein þá er það hans ákvörðun, því hver veit nema hann fái góða hugmynd við þá athöfn? Það er svona forsjárhyggja sem er óþolandi í nútíma samfélagi, hana verður að stöðva.

Það mætti kannski segja að ríkið hafi rétt til að takmarka þær athafnir manna sem gætu kostað útgjöld fyrir heilbrigðiskerfið, en þá þarf ríkið líka að banna reykingar, áfengi, bíla, kynlíf, kokteilsósu og frv. En allt kostar þetta jú útgjöld fyrir heilbrigðiskerfið. En skattborgarar í þessu landi borga fyrir heilbrigðiskerfið (reyndar líka þegar á því þarf að halda?!) og þeir sem stunda hnefaleika eru einnig skattgreiðendur.

Jafnréttismenn eins og Sigurður segist vera, hljóta að vera sammála um að allir eigi að hafa jafnan rétt til að stunda þá íþróttagrein sem þeir velja. Að allir eigi að hafa jafnan rétt til frelsis í okkar samfélagi, frelsi frá alvitrum alþingismönnum.

Heimir Helgason

Deildu