Eitthvert leiðinlegasta umræðuefni sem ég kemst í tæri við er fíkniefnavandinn svokallaði. Ekki vegna þess að það megi ekki rekja mörg vandamál til fíkniefnaneyslu heldur vegna þess að mönnum virðist uppálagt að leita lausna við röngum vanda.
Stríðið gegn fíkniefnum
Stjórnmálamenn, og annað gott fólk, eru duglegir við að lýsa því yfir að grípa eigi til harðra ráðstafana til að leysa vandann. Þeir tala gjarnan um að skera upp herör gegn ,,sölumönnum dauðans“ (eða hvaða tískuorð þeir nota yfir fíkniefnasala hverju sinni) og koma í veg fyrir innflutning og dreifingu fíkniefna.
Þetta er sorglegt vegna þess að vandinn er ekki mikið framboð af fíkniefnum heldur mikil eftirspurn eftir fíkniefnum. Þrátt fyrir vafasamar aðferðir fíkniefnasala má jafnvel færa rök fyrir því að þeir séu að þjónusta þörfum fólks. Mér finnst þetta viðbjóðsleg þjónusta ef þjónustu má kalla en staðreyndin er eftir sem áður sú að þúsundir Íslendinga á flestum aldri sækja í þessa þjónustu. Þess vegna skiptir engu máli hversu margir fíkniefnasalar eru handteknir og hversu stórir farmar eru gerðir upptækir. Meðan það er eftirspurn eftir fíkniefnum er framboð af þeim.
Enn sorglegra er ef til vill að það vita allir sem gefa sér tíma til að hugsa út í það að vandinn kemur framboðinu sáralítið við. En vegna þess hversu auðvelt það er að slá sig til riddara með því að benda á að þetta margir fíkniefnasalar hafa verið handteknir og að þetta mikið magn fíkniefna gerð upptæk (með þeim afleiðingum að forfallnir fíklar þurfa að stela meiru til að fjármagna neyslu sína) freistast stjórnmálamenn, embættismenn og sjálfskipaðir hermenn heilbrigðisins gegn fíkniefnadjöflinum til að lýsa yfir áfangasigri, þó aldrei skili hann neinu.
Hvað er til ráða
Þegar við viðurkennum að vandinn tengist eftirspurninni getum við farið að leita leiða við að draga úr vandanum, ég held að það sé enginn nógu vitlaus til að halda að hægt sé að eyða vandanum. Fræðsla og áróður er ágætis aðferð sem hefur verið notuð með einhverjum, ef til vill takmörkuðum, árangri. Besta leiðin til að draga úr vandanum er þó sú að nota menntakerfið til að gera einstaklinga sjálfstæðari og meðvitaðri um sjálfa sig og umhverfi sitt. Með því að byggja námið enn frekar að þörfum nemenda og opna þeim nýjar leiðir og hjálpa þeim við að átta sig á þörfum sínum og löngunum hjálpum við ungu fólki á brautinni til þess að verða sjálfstæðir og rökhugsandi einstaklingar. Einstaklingar sem er síður hætt við að lendi í vandamálum tengdum fíkniefnaneyslu. Slíkt tekur langan tíma og skilar ekki sýnilegum árangri sem hægt er að monta sig af í fjölmiðlum. En ef menn eru að leitast eftir að ná raunverulegum árangri er þetta leiðin sem er líklegt til að skila honum.
Stríðið gegn fíkniefnum
Ég ætla að biðja ykkur um að gera mér greiða næst þegar þið heyrið stjórnmálamenn eða aðra tala um að heyja stríð gegn fíkniefnum og sölumönnum dauðans: Spyrjið þá hvort þeir telji sig hafa eitthvert vit á vandanum og ef svo er hvers vegna þeir leggja til svona vitleysu. Lausnin er ekki í því fólgin að heyja stríð gegn þessum vondu sölumönnum dauðans heldur að hlusta á og hjálpa þeim sem eiga á hættu að verða fíkniefnum að bráð.