Dómstóll götunnar Vs. Jón Baldvin Hannibalsson

Logo

13/09/2013

13. 9. 2013

Mannfólkið er breyskt og flestum fibast eitthvað á lífsleiðinni á götu velsæmisins og siðaðrar framkomu gagnvart samferðafólki sínu.  Sumir misbrestir gleymast fljótt en aðrir vekja þann óhug að þeir gleymast ekki og afbrotamaðurinn verður ekki litinn sömu augum aftur.  Í siðuðu þjóðfélagi sér ríkið um að gæta réttlætis og færa afbrotamenn til ábyrgðar með réttarhaldi […]

Mannfólkið er breyskt og flestum fibast eitthvað á lífsleiðinni á götu velsæmisins og siðaðrar framkomu gagnvart samferðafólki sínu.  Sumir misbrestir gleymast fljótt en aðrir vekja þann óhug að þeir gleymast ekki og afbrotamaðurinn verður ekki litinn sömu augum aftur.  Í siðuðu þjóðfélagi sér ríkið um að gæta réttlætis og færa afbrotamenn til ábyrgðar með réttarhaldi og dómi.  Komið er í veg fyrir blóðhefndina. Það gengur í mörgum tilvikum upp, en er dómstóll götunnar þá dauður í siðuðum þjóðfélögum. Nei, mér sýnist að svo sé ekki. Dómstóll götunnar þó óformlegur sé getur komið fólki á kné með því að einangra ætlaðan afbrotamann og gera þannig að þjóðfélagslegu úrhraki og einsetufólki mitt í fjöldanum.  Þannig virðist vera að vissu leyti komið fyrir Jóni Baldri Hannibalssyni, áður virtum stjórnmálaleiðtoga, ráðherra og sendiherra þjóðarinnar svo eitthvað sé nefnt af langri afrekaskrá hans.

Jón Baldvin varð uppvís af því að senda unglingsstúlku gróf klámfengin bréf og viðurkenndi hann sök sína.  Málið var orðið nokkuð gamalt og þó að ásakanir um pólitískan tilgang uppljóstrunarinnar hafi flögrað um, var það Jóni Baldvini ekki nein málsvörn.  Svo heyrist ekkert af hans málum í drjúgan tíma fyrr en að það vakti hneykslan að það ætti að ráða hann sem stundakennara við HÍ.  Hugsunin á bak við það að ráða Jón Baldvin hefur eflaust verið sú að Jón Baldvin hefur þótt vera góður kennari, hefur góða þekkingu á kennsluefninu og þrátt fyrir álitshnekkinn um árið gæti hann trúlega liðist sem kennari í litlu fagi við HÍ. Hið síðast nefnda reyndist rangt, að minnsta kosti var hann ekki liðinn sem kennari hjá HÍ hjá ýmsu fólki sem var ekki endilega nemendur hans eða fólk innan HÍ þó að vissulega væri þar fólk líka sem fannst ekki rétt að ráða hann.  Þetta fólk virðist sjá hann sem ómenni sem það vill ekki vera nálægt og ekki sjá sem kennara við HÍ. Það er ekki tilbúið að umbera hann og í stærra samhengi þannig neita honum tækifæris á því að vera kennari. Jóni Baldvini er því ekki fyrirgefið þó að lögformlegir dómstólar hafi ekki sakfellt hann. Jafnframt telja ýmsir þeir sem mæla mót ráðningu hans að honum sé ekki treystandi sem kennara því að traust þurfi að ríkja milli kennara og nemenda.  Jón Baldvin hefur kennt eftir að þetta mál kom fram upphaflega (og var vísað frá dómstólum) og ekki hafa komið fram neinar kærur gagnvart honum sem kennara.

Jón Baldvin er enginn aumingi og hefur svarað fyrir sig í fjölmiðlum með greinaskrifum í nokkur skipti. Hann ætlar ekki að viðgangast félagslega aftöku þegjandi og hljóðalaust. Hann skynjar að hann þarf að berjast eigi hann að eiga afturkvæmt í einhverjar félagslegar ábyrgðarstöður það eftir lifir starfsævinnar. Takist honum ekki að sannfæra fólk/HÍ um að hann eigi skilið að fá að kenna, verður ólíklegt að hann fái önnur tækifæri hérlendis. Það er stór biti að kyngja að falla frá því að vera opinber diplómat yfir í að vera nánast útskúfaður og rúinn trausti.

Ég spyr í framhaldinu: Er það eðlilegur gangur mála eða félagsleg harðneskja? Engum líkar það sjálfsagt að neita honum um að kenna en á fólki sem verður upplýst um kynferðislegan óhæfuskap án þess þó að hafa lagt hendur á neinn, að vera refsað og útskúfað á þennan hátt? Eru stjórnendur HÍ nauðbeygðir til að setja þannig sekt fólk í far endalausrar útskúfunar frá kennslustörfum? Hvað ef Jón Baldvin hefði sótt um rannsóknarstörf án kennslu? Hefði það verið í lagi eða hefði það svert nafn HÍ?  Hefði dómur götunnar sætt sig við að Jón Baldvin hefði haft hjótt um sig, lokaður af á heimili sínu inní Reykjadal næstu 5 árin og svo samþykkt hann sem stundakennara af því að fólk væri þá búið að gleyma og sjatna í því reiðin gagnvart honum?

Siðferðislegt flækjustig þessa máls er talsvert og þarna mætast annarsvegar tilfinningar óhugs og reiði yfir þeirri ósæmilegu hegðun sem maðurinn varð uppvís að og hinsvegar krafan um að hann (og aðrir í sambærilegri stöðu) fái að njóta þess að vera bara dæmdir út frá starfshæfni í ljósi þess að enginn lögformlegur glæpur var framinn.  Það er ljóst að kynferðisafbrot og ósæmileg kynferðisleg hegðun og áreiti eru ekki lengur liðin í íslensku þjóðfélagi.  Biskup varð að hætta snemma vegna slíks og annar biskup brenndi sig á því að afsaka þann fyrri.  Stjórnmálamenn hafa þurft að segja af sér þingmennsku vegna siðferðislegra bresta þó að þeir hafi ekki hlotið dóm dómstóla. Dómur götunnar er að mörgu leyti harðari en dómur dómstóla því að hann hefur ekki sérlega sýnilega skilgreiningu eða tímalengd.  Hinn seki við slíkar aðstæður nær kannski aldrei að „sitja af sér“ „dóminn“.

Þetta er grátt mál og stjórnendur við HÍ eru ekki öfundsverðir af því að eiga við það.  Kannski þarf að spyrja sig; hvernig verður minnstur skaði í þessu máli?  Sé Jóni Baldvini hafnað getur það valdið honum talsverðu tjóni en sé honum leyft að kenna er spurning hvort að einhver nemenda hans verði fyrir tjóni og þá á hvern hátt? Mörgum mun eflaust mislíka það að hann kenni en er það næg ástæða til að styðja við dóm götunnar og valda Jóni Baldvini tjóni? Verður stúlkan sem Jón Baldvin sendi klámbréf sín til fyrir skaða af ráðningu hans? Getur það á nokkurn hátt túlkast sem stuðningur við hann á kostnað hennar? Gætu möguleg óánægja með ráðningu Jóns Baldvins og þannig álitshnekkir sumra á HÍ valdið meiri skaða en útskúfun Jóns Baldvins? Oft þarf að hugsa um hagsmuni fjöldans á kostnað hinna fáu eða einstaklinga, en þannig virka reyndar ekki mannréttindi.  Ákveðin réttindi má ekki taka af einstaklingum þó að það valdi óánægju hjá fjöldanum.  En eru það mannréttindi nemenda að fá ekki kennara sem hefur  á sér slæmt orð jafnvel þó að það komi kennslu hans ekkert við? Hversu slæmt orð á það að vera til að gera það rétt nemenda að hafna honum? Er til einhver slíkur réttur?

Kannski er ég ekki að spyrja réttra spurninga en ég held að það sé okkur hollt að huga vel að þessu máli og skoða hvað sé skást að gera. Það er hægt að skilja sjónarmið á báða bóga en ég held að stjórn HÍ verði að taka ákveðna stefnu í svona málum því að hún getur ekki komist undan því að taka ákvörðun.  Sú ákvörðun mun setja ákveðið fordæmi.

Deildu