Ofbeldissamfélagið og skoðanakúgun

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/01/2013

7. 1. 2013

Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um ofbeldishótanir og ömurlega orðræðu á netinu. Hildur Lilliendahl hefur bent á fjölmargar beinar og óbeinar hótanir sem henni hafa borist og í gær segir Sóley Tómasdóttir frá svipaðri reynslu í DV.  Báðar neita þær að hætta að tjá sig þrátt fyrir eðlilegan ótta við að eitthvert fíflið geri alvöru […]

Undanfarið hefur nokkuð verið fjallað um ofbeldishótanir og ömurlega orðræðu á netinu. Hildur Lilliendahl hefur bent á fjölmargar beinar og óbeinar hótanir sem henni hafa borist og í gær segir Sóley Tómasdóttir frá svipaðri reynslu í DV.  Báðar neita þær að hætta að tjá sig þrátt fyrir eðlilegan ótta við að eitthvert fíflið geri alvöru úr hótunum sínum. Eiga þær báðar hrós skilið fyrir staðfestu sína. Fólk á ekki að láta ofbeldishrotta stjórna umræðunni.

Því miður eru hótanir sem þessar nokkuð algengar. Sjálfur hef ég fengið þónokkrar hótanir vegna skrifa minna og skoðana í gegnum tíðina. Menn hafa hringt heim til mín og hótað mér og fjölskyldu minni líkamsmeiðingum. Ég hef fengið ógnandi tölvupósta, ég hef verið stöðvaður úti á götu (þá reyndar oftast af mönnum undir áhrifum) og svo hef ég fengið fregnir af því að nafngreindir einstaklingar hafi verið með beinar og óbeinar ofbeldishótanir á lokuðum spjallsvæðum á netinu, aðallega Facebook (og á ég skjáskot því til staðfestingar). Í sumum tilfellum má með góðum vilja túlka hótanirnar sem hótfyndni og stæla en ljóst er að stundum eru raunverulegir ofbeldishrottar að tala sem eiga þannig fortíð að það er full ástæða til að hafa áhyggjur.

Mér er ekki sama um þessar hótanir og hef stundum orðið hræddur (þvert á það sem hefur verið gefið skyn í fjölmiðlum). Ég er þó mun hræddari við samfélag þar sem yfirlýstir og jafnvel sakfelldir ofbeldismenn fá að stjórna umræðunni. Því er mikilvægt að Hildur, Sóley og helst miklu fleiri haldi áfram að tjá sig. Skoðanakúgun má ekki líðast.

Tengt:

 

Deildu