Ekki ríkisstjórninni að kenna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/09/2012

23. 9. 2012

Samkvæmt útreikningum Alþýðusambandsins hefur kaupmáttur launa rýrnað um tæp 6% á síðustu fimm árum. Flestir finna fyrir því að þeir hafa minni pening á milli handanna. Ekki bara vegna skulda heldur vegna þess að almennar neysluvörur hafa hækkað meira en tekjur almennings. Við höfum flest í raun tekið á okkur launalækkun síðustu árin. Þetta er […]

Samkvæmt útreikningum Alþýðusambandsins hefur kaupmáttur launa rýrnað um tæp 6% á síðustu fimm árum. Flestir finna fyrir því að þeir hafa minni pening á milli handanna. Ekki bara vegna skulda heldur vegna þess að almennar neysluvörur hafa hækkað meira en tekjur almennings. Við höfum flest í raun tekið á okkur launalækkun síðustu árin. Þetta er auðvitað vont, sérstaklega þegar fólk er vant því að hafa sífellt meiri pening á milli handanna. Ég vona að fólk átti sig samt á því að þetta er ekki núverandi ríkisstjórn að kenna.

Hér var í gangi bullandi bóluhagkerfi í boði flokka sem nú vilja ólmir komast aftur til valda og bæta fyrir „klúður“ vinstriflokkanna. Maður þarf ekki háskólagráðu í hagfræði til að átta sig á því að 90% íbúðarlán, vaxtaokur, einkavinavæðing bankanna, slakt eftirlit með bankakerfinu og almennt regluhatur er uppskrift að hruni. Það voru stjórnmálamenn sem í nafni frjálshyggju og  populisma komu okkur í þessi vandræði. Gleymum því ekki.

Stjórnarflokkar fyrir hrun, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, sungu frjálshyggjusönginn og hagsmunaaðilar eins og drengirnir Viðskiptaráði sungu undir. Hertar reglur með fjármálageiranum þóttu tabú, enda gekk allt svo vel. Sjáið þið byggingarkranana? Sjáið þið hvað allt er í blóma? Sögðu þeir og við hin létum glepjast. Oft heyrði maður hvað það væri frábært að nú væri til moldríkt fólk á Íslandi. Fólk sem hefði skapað auð úr engu (sem reyndist vera satt í mörgum tilfellum).  Hugmyndir um skattahækkanir voru fáránlegar. Við áttum að lækka skatta enn frekar. Við áttum að gera Ísland að fjármálamiðstöð heimsins.

Svona æfingar hafa aldrei virkað. Þeir einu sem græða eru braskararnir. Nokkrir njóta góðs af á meðan veislan er í fullum gangi en þegar allt hrynur (sem gerist alltaf) þá eru það yfirleitt braskararnir sem eiga enn nóg af peningum að meðan allir aðrir tapa.

Ótrúlegt en satt þá er Sjálfstæðisflokkurinn aftur kominn á skrið með sama þvættinginn. Aðhald í ríkisfjármálum (=les skera niður almannaþjónustu), lægri skatta, frekari stóriðju og annað sem kallar á nýtt bóluhagkerfi. Ungliðarnir vilja meira að segja skera upp herör gegn sósíalisma.  Jóhönnu, Steingrími J. og Obama (sem er auðvitað kommúnisti). Þingmenn flokksins fara á flokksþing Repúblíkana í Bandaríkjunum og sjá ekki sólina fyrir Mitt Romney, leiðtoga flokks sem hefur skapað hvað mesta misskiptingu í vestrænu samfélagi. Vill íslenskur almenningur þetta fólk virkilega aftur til valda?

Ég ætla að gerast svo djarfur og segja að það helsta sem ríkisstjórnin hefur klúðrað er að vera ekki nógu öflug vinstristjórn. Hér þarf enn mun skýrari leikreglur í viðskiptalífinu, betra eftirlit, tryggja betur að almenningur njóti arðs af auðlindum landsins og styrkja velferðakerfið. Svo má vel hækka skatta á sum fyrirtæki og vel efnaða einstaklinga. Stór og öflug fyrirtæki sem fara á hausinn vegna þess að skattar hækka aðeins eru ekki vel rekin.  Það er okkur öllum fyrir bestu að hagkerfið vaxi hægt en örugglega og að nokkrir einstaklingar komist ekki upp með að búa til bóluhagkerfi með hjálp leyndarhyggju og regluleysis.

Kostnaðurinn sem við, almenningur, verðum fyrir þegar bóluhagkerfi springa er mun meiri en ágóðinn sem við fáum þegar allt er í (gervi)blóma.

Deildu