Siðmennt styður “fræðslu” um kristni í skólum.

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/04/2005

8. 4. 2005

Eftirfarandi grein var send Fréttablaðinu 30. mars og var birt í blaðinu í dag (8. apríl). Guðmundur Magnússon endurtekur rangfærslu Karls Sigurbjörnssonar, biskups, gagnrýnislaust í grein undir liðnum Sjónarmið í Fréttablaðinu þann 29. mars síðastliðinn. Guðmundur vísar til orða biskups á páskum þar sem hann segir: “Fámennur þrýstihópur vill rýma fræðslu um þá mikilvægu grunnstoð […]

Eftirfarandi grein var send Fréttablaðinu 30. mars og var birt í blaðinu í dag (8. apríl).

Guðmundur Magnússon endurtekur rangfærslu Karls Sigurbjörnssonar, biskups, gagnrýnislaust í grein undir liðnum Sjónarmið í Fréttablaðinu þann 29. mars síðastliðinn. Guðmundur vísar til orða biskups á páskum þar sem hann segir:

“Fámennur þrýstihópur vill rýma fræðslu um þá mikilvægu grunnstoð samfélagsins sem kristni er, út úr skólanum, í nafni mannréttinda og fjölmenningar.”


Hér er biskup augljóslega að vísa til Siðmenntar en fer um leið algerlega rangt með stefnu félagsins. Hið rétta er að Siðmennt hefur barist gegn trúboði í opinberum grunnskólum og lagt fram þá hógværu kröfu að opinberir skólar séu reknir sem fræðslustofnanir en ekki nýttir sem vettvangur trúboðs og átrúnaðar. Þessi krafa er gerð, eins og biskup segir réttilega, í nafni mannréttinda. Siðmennt telur að yfirvöld eigi að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Eitt helsta baráttumál Siðmenntar er fullt trúfrelsi og umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum.

Það er því rík ástæða til að leiðrétta þann útbreidda misskilning að Siðmennt sé á móti fræðslu um kristni eða önnur trúarbrögð. Siðmennt er þvert á móti þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að börn séu uppfrædd um helstu trúarbrögð heims. Félagið hefur einnig tekið skýrt fram að eðlilegt sé, vegna menningarsögulegra tengsla, að börn læri meira um kristna trú en önnur trúarbrögð.

Siðmennt gerir því athugasemdir við trúboð í opinberum skólum en fagnar um leið allri hlutlægri fræðslu. Þetta hefur alltaf verið stefna félagsins.

Sigurður Hólm Gunnarsson
Varaformaður Siðmenntar
Stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum má finna á vefslóðinni:
www.sidmennt.is/trufrelsi

Deildu