Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK) héldu aukaaðalfund og málþing um baráttumál samtakanna síðastliðinn þriðjudag. Á fundinn mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi, fulltrúi Þjóðkirkjunnar og fulltrúi Fríkirkjunnar. Vel var mætt á fundinn og sköpuðust fjörugar og góðar umræður. Allir ræðumenn fundarins, nema þá helst fulltrúi Þjóðkirkjunnar voru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju með einu eða öðru móti.
Björgvin G. Sigurðsson frá Samfylkingu, Drífa Snædal frá Vg, Guðjón Arnar frá Frjálslyndum og Haukur Logi frá Framsóknarflokknum lýstu því öll sterkt yfir að þau væru fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Heyra var á málflutningi Friðjóns R. Friðjónssonar, varaformanni Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hann og SUS væru fylgjandi því að aðskilja ríki og kirkju en Sjálfstæðisflokkurinn væri í raun á móti því.
Halldór Reynisson frá Þjóðkirkjunni benti á söguleg tengsl kristinnar trúar og Íslands og benti á að biskup Íslands væri ekki hlynntur því að aðskilja ríki og kirkju að fullu. Halldór sagðist telja að tengsl ríkis og kirkju hefðu ekki áhrif á trúfrelsi hér á landi.
Annað og andstætt hljóð var í Hjört Magna frá Fríkirkjunni en hann sagði að á meðan ríkið styddi sérstaklega eitt trúfélag umfram annað væri ekki trúfrelsi hér á landi. Má segja að heitustu umræðurnar á málþinginu hafi verið á milli Hjartar og Halldórs sem voru augljóslega á öndverðri skoðun.
Fjörugar umræður sköpuðust eftir ræður frummælenda og greinilegt er að það er mikill áhugi á því að berjast fyrir fullu trúfrelsi.
Nýju lífi blásið í starfsemi SARK
Með málþinginu var blásið nýju lífi í starfsemi SARK en lítið hefur farið fyrir félaginu að undanförnu og eru ýmsar ástæður fyrir því. Á næstu vikum mun félagið opna nýja vefsíðu undirslóðinni www.sark.is þar sem fjallað verður um stefnumál félagsins.
Að lokum er vert að benda áhugasömum um trúfrelsi á Íslandi á stefnu Siðmenntar í trúfrelsismálum sem er að finna á slóðinni: www.sidmennt.is/trufrelsi/