Varaformaður Siðmenntar, Sigurður Hólm Gunnarsson, flutti stutta hátíðarræðu við borgaralega fermingu þann 4. apríl 2004. Hægt er að lesa hana í heild sinni hér.
Kæru fermingabörn, fjölskyldur þeirra og aðrir gestir. Ég vil byrja á að óska ykkur öllum til hamingju með daginn.
Mér líður eins og það hafi verið í hitteðfyrra sem ég sjálfur fermdist. Þegar ég leit hins vegar til baka, komst ég þó að því að það eru víst 14 ár síðan.
Ólíkt ykkur fermdist ég kirkjulegri fermingu. Ekki vegna þess að ég vissi ekki af tilvist Siðmenntar og borgaralegrar fermingar heldur einfaldlega vegna þess að ég var afar trúaður á þessum aldri. Hið sama var alls ekki hægt að segja um mörg fermingarsystkina minna. Ég man svo vel eftir því hve margir viðurkenndu fúslega að þeir væru bara að fermast til að geta haldið veislu og fengið gjafir. Þar sem ég var trúaður man ég hvað mér þótti þessi afstaða hneykslanleg, mér fannst vægast sagt óviðeigandi hversu margir ætluðu beinlínis að ljúga þegar kæmi að því að fara með trúarjátninguna.
Það var þó ekki þessi afstaða bekkjarsystkina minna sem vakti mesta undrun mína, því stuttu síðar komst ég að því að einn besti vinur minn hafði ákveðið að fermast ekki. Hann viðurkenndi fyrir mér að hann væri ekki sérlega trúaður, eða í það minnsta vissi ekki alveg á hvað hann trúði. Hann sagði mér að honum þætti það ákaflega óviðeigandi að fermast bara af því að foreldrar hans vildu það, því hann vildi ekki ljúga að sjálfum sér og öðrum.
Viðbrögð mín á þessum tíma voru í litlu samræmi við þær skoðanir sem ég hef í dag. Ég var stórhneykslaður á þessum vini mínum og sagði honum það. Ekki af því að hann ákvað að fermast ekki, heldur fyrst og fremst vegna þess að hann skuli hafa fullyrt það að hann trúði ekki á Guð. Mér fannst þessi afstaða hans vera svo undarleg og kjánaleg að ég tók ekki eftir því hvað það var virðingarvert af honum að þora að segja satt og ákveða að fermast ekki á trúarlegum forsendum. Í dag ber ég mikla virðingu fyrir þessari ákvörðun hans.
Vinur minn var hins vegar mannlegur eins og við hin. Þegar faðir hans sagði við hann eitthvað á þessa leið: „Hingað og ekki lengra, þú verður að fermast! Ég skal gefa þér 100 þúsund kall í beinhörðum peningum í fermingargjöf ef þú fermist“, þá gaf vinur minn undan og fermdist. Hvaða 13 ára unglingur lætur ekki undan slíkum þrýstingi?
Fyrir mér sýnir þessi sanna dæmisaga, ásamt ótal mörgum svipuðum henni, hversu mikilvægt er að ungt fólk eins og þið hafið val. Val um að taka þátt í þeirri manndómsvígslu sem fermingin vissulega er, án þess þó að þurfa að ljúga að sjálfum ykkur og öðrum. Vitanlega eru fjölmargir sem, rétt eins og ég, ákveða að fermast vegna einlægrar trúar. Þeir eru hins vegar margir sem telja sig trúlausa, óákveðna í trú sinni eða hreinlega ekki reiðubúna til að fara með þá trúarjátningu sem felst í kirkjulegri fermingu. Þess vegna er svo mikilvægt að eiga þetta val.
Nú hef ég ekki hugmynd um hvers vegna þið sem hér sitjið ákváðuð að fermast borgaralega. Ég býst við að ástæðurnar séu eins margar og þið eruð mörg. Sama hver ástæðan er þá tel ég ákvörðun ykkar sýna bæði þroska og sjálfstraust sem ber að hrósa ykkur fyrir. Það er erfitt að skera sig úr hópnum, vera öðruvísi en aðrir. Sérstaklega á þessum aldri. Ég veit að ég hefði ekki þorað að skera mig úr hópnum með þessum hætti þegar ég var á ykkar aldri.
Ég veit að margir eru þeirrar skoðunar að borgaraleg ferming sé einhvers konar tilraun til að stela fermingunni frá kirkjunni. Er ég viss um að einhver ykkar hafa fengið að heyra þetta á undanförnu ári. Það er því varla úr vegi að benda á að ferming er alls ekki eitthvað sérstakt kristið fyrirbæri.
Fermingin er einfaldlega ungdómsvígsla sem hefur verið iðkuð svo lengi sem samfélög manna hafa verið til. Í flestum samfélögum hefur það verið til siðs að bjóða ungt fólk velkomið í hóp hinna fullorðnu. Samkvæmt gamalli hefð eru ungmenni tekin í fullorðinna manna tölu um kynþroskaaldur, það er þegar þau eru 13 til 14 ára gömul. Borgaraleg ferming er því rétt eins og kirkjuleg ferming bara ein birtingarmynd aldagamallar hefðar. Höfum það í huga.
Kæru fermingarbörn,
Það er fátt eins mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi og geta almennings til að hugsa sjálfstætt. Allir hafa gott að því að fá þjálfun í rökhugsun, tjáningu og að bera virðingu fyrir öðrum.
Þess vegna hefur Siðmennt lagt á það áherslu í fermingarundirbúningi sínum að fjalla um siðfræði, mannleg samskipti, gagnrýna hugsun, ábyrgð einstaklingsins gagnvart sjálfum sér og öðrum, frelsi og mannréttindi. Tilgangurinn með fræðslunni er að efla heilbrigð og farsæl viðhorf ungmenna til lífsins. Það er von mín að þátttaka ykkar í borgaralegri fermingu hafi hjálpað ykkur til að rækta með ykkur jákvæðni og ábyrgðarkennd gagnvart ykkur sjálfum og samborgurum ykkar.
Ég fékk þann heiður að fá að kynnast sumum ykkar aðeins þegar ég spjallaði við ykkur um einelti fyrr á árinu. Ég hef flutt fyrirlestra um einelti víðs vegar í skólum og í félagasamtökum og ég segi hér í fullri hreinskilni að ég hef sjaldan hitt eins mikið af áhugasömu og hugsandi fólki eins og í þeim umræðum sem ég átti við ykkur. Ég er sannfærður um að í þessum hópi er að finna fólk sem á eftir að láta að sér kveða í íslensku samfélagi áður en langt um líður.
Kæru fermingarbörn og aðstandendur,
Ég óska ykkur innilega til hamingju með daginn og þakka áheyrnina.