Borgarfulltrúi ber af sér sakir

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

09/02/2001

9. 2. 2001

Einhverjir virðast hafi lesið grein mína um kúariðu fyrir skemmstu og hafa þeir lýst mismikilli ánægju eða óánægju með skrif mín þar. Einn sem hefur sett út á skrif mín er Hrannar B. Arnarsson borgarfulltrúi sem þykir afskiptum sínum af málinu ekki rétt lýst og hefur farið fram á að við birtum athugasemdir sínar. Það […]

Einhverjir virðast hafi lesið grein mína um kúariðu fyrir skemmstu og hafa þeir lýst mismikilli ánægju eða óánægju með skrif mín þar. Einn sem hefur sett út á skrif mín er Hrannar B. Arnarsson borgarfulltrúi sem þykir afskiptum sínum af málinu ekki rétt lýst og hefur farið fram á að við birtum athugasemdir sínar. Það gerum við með glöðu geði þó ég verði að viðurkenna að birtingin hefur dregist um nokkra daga, mest fyrir mína eigin leti.


Bréf Hrannars
Heill og sæll félagi Brynjólfur.
Ég var að reka augun í grein þína um kúariðumálið og afskipti stjórnmálamanna af því. Mér þykir miður að sjá hvernig þú meðhöndlar minn þátt í því máli og vísa því alfarið á bug að ég sé, eða hafi verið einhver talsmaður innflutningshafta á matvælum. Það er nefnilega himinn og haf á milli þess að vilja banna innflutning matvæla almennt eða vilja banna innflutning á hættulegum matvælum eins og ég hef talað fyrir, þó ýmsir aðrir stjórmálamenn vilji gjarnan slá þessu saman. Þessum sjónarmiðum mínum geri ég reyndar grein fyrir á Kreml.is og Kolbeinn tekur greinilega í sama streng í annarri grein á ykkar ágætu Skoðun.

Í ljósi umfjöllunar þinnar á Skoðun.is þætti mér vænt um að þessi afstaða mín kæmi þar fram með einhverjum hætti, t.d. með tilvísun til greinar minnar á Kreml.is.
Bestu kveðjur,
Hrannar

Athugasemdir mínar
Forsaga þessa máls er sú að Hrannar mætti í sjónvarpssal með Guðna Ágústssyni landbúnaðarráðherra. Manni sem er þekktur fyrir að vilja ekki sjá nokkurn innflutning. Guðni fagnaði að sjálfsögðu gagnrýni Hrannars á innflutninginn. Guðni spurði Hrannar hvort hann gæti ekki verið sér sammála um að auðvitað ættu Íslendingar ekki að standa í innflutningi erlendra landbúnaðarafurða. Ég gat ekki þá túlkað svar Hrannars öðru vísi en svo að hann tæki undir með Guðna. Hafi það verið misskilningur hjá mér fagna ég því. Ég man hins vegar ekki betur í dag en að svar Hrannars hafi einfaldlega verið: Já. Ekki það að ég hef mun meiri trú á Hrannari í þessum málum en Guðna og því ekki ólíklegt að hann hafi mismælt sig eða viljað sýna Guðna þá kurteisi að benda honum ekki á vitleysuna í málflutningi sínum. Því Hrannar er þrátt fyrir allt geðþekkur maður.

Fár
En það er athyglisvert og um margt ánægjulegt hversu margir hafa brugðist hratt við þegar talin er einhver minnsta hætta á því að matvæli sem hingað berast kunni að vera hættuleg. Ég velti því einfaldlega fyrir mér hvers vegna sömu aðilar berjast ekki jafn harkalega fyrir því að stöðvaður verði innflutningur á tóbaki, áfengi, bílum og öðrum varningi sem kann að stafa hætta af. Ég velti því fyrir mér hvort þar ráði einhverju að með andstöðunni við matvælainnflutninginn sé líkleg til vinsælda meðan andstaða við annað væri frekar til þess að viðkomandi yrðu fyrir fylgistapi. Þrátt fyrir að það síðarnefnda hafi verið sannað að sé hættulegt meðan besta vísindalega vitneskja sem við búum að gefur til kynna að innflutningur á írskum nautalundum hafi verið hættulaus.

Ég vil reyndar taka það skýrt og skilmerkilega fram að þessum vangaveltum mínum er ekki beint að Hrannari sérstaklega. Því þó mér þyki hann hafa tekið niður í þessu máli fer því fjarri að hann hafi verið verri í eru aðrir aðilar og aðrir borgarfulltrúar sem hafa farið sýnu meira offari og ættu í raun og veru að hafa dæmt sig til áhrifaleysis með ofstopafullum málflutningi sínum.

Að lokum
Umræðan um kúariðu hér og í Evrópu hefur um margt verið nytsamleg en samt er gott að setja hlutina í samhengi. Þegar allt er talið hafa innan við hundrað tilfelli mannariðu (sjúkdómsins sem leggst á fólk) greinst. Það er álíka fjöldi og hefur látið lífið af völdum reykinga á Íslandi einu síðustu þrjá mánuði. Nú þarf enginn að velkjast í vafa um það að greindum tilfellum á eftir að fjölga og væntanlega mikið. Það er hins vegar um margt ástæða til að ætla að stór hluti þeirra tilfella sem eiga eftir að greinast séu þegar til staðar. Ég vil ekki hafa þetta lengra að sinni en bendi fólki á athyglisverða samantekt Haraldar Briem sóttvarnalæknis.

Deildu