Það hefur löngum verið þekkt að vinstrimenn fara feikilega í taugarnar á þeim félögum Birni Bjarnasyni og Davíði Oddssyni enda hafa þeir verið óþreytandi við að smíða samsæriskenningar þar sem helstu forystumönnum þeirra er líkt við fjöldamorðingja og stríðsglæpamenn. Það grunaði þó fæsta að hinn dagfarsprúði samgönguráðherra væri enn einn kaldastríðsmangarinn en á heimasíðu sinni, þann 4. febrúar, kaus hann að fella grímu hógværðarinnar og afhjúpa það sem í raun býr undir gráum hárlubbanum.
Enn um flugvöllinn
Tilefni skrifa samgönguráðherra er umræðan um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Eftir áralangar deilur um staðsetningu flugvallarins hafa borgaryfirvöld ákveðið að gefa Reykvíkingum tækifæri til að ákveða sjálfir, í opinni atkvæðagreiðslu, hvort þeir vilji losna við flugvöllinn eða halda honum. Þetta fer mikið fyrir brjóstið á samgönguráðherranum sem sér mikla hættu í því að veita almenningi ákvörðunarrétt um framtíð flugvallarins.
Það sem er svo skrítið við skrif samgönguráðherrans er að hann telur að Reykjavíkurlistinn hafi tekið pólitíska ákvörðun um að láta flugvöllinn fara og að samtökunum 102 Reykjavík, sem vilja flugvöllinn burt, sé fjarstýrt af forseta borgarstjórnar. Þó samsæriskenningin sé skemmtileg er hún fjarstæðukennd enda er ljóst að flugvallarmálið er þverpólitískt og engin alger samstaða um það innan þeirra flokka sem eiga sæti í borgarstjórn. Hugmyndin um að forseti borgarstjórnar fjarstýri frjálsum félagasamtökum með liðsinni samstarfsmanna sinna í borgarstjórnarmeirihlutanum er hlægileg. Jafnframt hefur engin ákvörðun verið tekin af Reykjavíkurlistanum um framtíð flugvallarins. Sú ákvörðun verður tekin af kjósendum.
Hver ræður?
Annað sem vefst mikið fyrir samgönguráðherranum er að borgarstjórinn skuli hafa einhverja skoðun á hvar best sé að staðsetja nýjan flugvöll. Vissulega er það svo að borgarstjóri hefur ekkert ákvörðunarvald um, staðsetningu flugvallarins ef hann fer út fyrir Reykjavík. En þar sem sú ákvörðun heyrir undir ríkið hljóta allir þegnar ríkisins að mega hafa afstöðu til þess, líka borgarstjórinn. Samgönguráðherra er á miklum villigötum ef hann heldur að staðsetning innanlandsflugvallar sé hans einkamál.
Á fundi Ungra jafnaðarmanna og Ungra framsóknarfmanna kom það fram í máli Hrannars B. Arnarsonar að við atkvæðagreiðslu um framtíð flugvallarins sé aðeins hægt að greiða atkvæði um hvort flugvöllurinn skuli vera eða fara. Það er hinsvegar mikilvægt að aðrir möguleikar liggi fyrir svo kjósendur hafi hugmynd um þá og stjórnvöld geti unnið skynsamlega úr niðurstöðum kosninga.
Hvers vegna ekki Keflavík?
Nú hefur samgönguráðherra lokað fyrir þann möguleika að nýr flugvöllur rísi í Vatnsleysustrandarhreppi. Það sem liggur að baki þessari afstöðu samgönguráðherra er að halda því uppi sem einhverskonar hótun að allt millilandaflug verði fært til Reykjanesbæjar, í þeirri von að draga úr stuðningi við að flugvöllurinn verði færður út fyrir borgarmörkin.
Sjálfur sé ég enga ógn í þessu. Ég held að Keflavíkurflugvöllur sé ákjósanlegur staður. Þetta er ódýrasti kosturinn auk þess sem í því felst nokkuð hagræði. Líklega er það skynsamlegasta lausnin út frá langtíma sjónarmiðum. Ég vona þó að þær úrbætur sem samgönguráðherra ætlar að gera á Reykjanesbrautinni einhvern tíma í óljósri framtíð reynist verulegar enda mun flutningur millilandaflugs til Keflavíkurflugvallar auka álagið á brautinni og auka enn á mikilvægi þess að Reykjanesbrautin sé bætt.