Víða er haft fyrir satt að þeim mun minna sem stjórnmálamaður hefur fram að færa sé hann þeim mun duglegri að umvefja sig þjóðfána sínum. Hin hlið sömu hneigðar er að gera öðrum upp trúleysi á eigin þjóðerni. Af einhverjum ástæðum varð mér hugsað til þessa þegar ég heyrði Halldór Blöndal lýsa afstöðu sinni til Evrópusambandsins.
Halldór, sem er andvígur aðild að Evrópusambandinu, sagðist furða sig á því hversu margir væru að gefast upp á því að vera Íslendingar og vildu sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég minnist þess ekki að þingforsetinn okkar hafi rökstutt andstöðu sína við aðild frekar en að hann hafi rökstutt kenningar sínar um þjóðernisleiða þeirra sem eru fylgjandi aðild.
Nú vill svo til að ég er einn þeirra sem þingforsetinn merki ræddi um þegar hann furðaði sig á uppgjafaranda. Og þrátt fyrir að mér finnist ummæli hans kjánaleg þá er ég ekki frá því að það sé eitt og annað satt í þeim. Ég hef nefnilega fyrir margt löngu fengið mig fullsaddan, ég ætti ef til vill að segja gefist upp, á ýmsu sem einkennir íslenskt þjóðfélag. Tökum tvö dæmi. Ég er búinn að gefast upp á háu matvælaverði sem er haldið uppi vegna úrelts landbúnaðarkerfis sem kostar framleiðendur, neytendur og skattgreiðendur morð fjár. Ég er búinn að gefast upp á háum vöxtum sem valda því að sífellt erfiðara verður að eignast húsnæði og bíl, stunda nám og standa straum af kostnaði við að koma sér upp fjölskyldu.
Besta leiðin til að vinna gegn báðum þessum þáttum tel ég vera þá að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Ekki það að við getum gert, í það minnsta hluta af þessu sjálf. Við getum markaðsvætt landbúnaðarkerfið og lækkað matvælaverð verulega á mjög skömmum tíma. Eina sem þarf til þess er samstaða í ríkisstjórn og á Alþingi. Ég fæ hins vegar ekki séð að núverandi þingmenn hafi kjark í sér til að gera það þó allir málsmetandi hagfræðingar mæli með því. Hvað vextina áhrærir er mun erfiðara að ná þeim niður af sjálfsdáðum. Þeim er nú haldið uppi til að vinna gegn gengislækkun og verðbólgu. Því hafa margir orðið til að benda á að tenging við annan gjaldmiðil, eða þátttaka í evrunni innan Evrópusambandsins sé besta leiðin til að ná niður vöxtum.
Málið er nefnilega það að við erum ekki endilega búin að gefast upp á því að vera Íslendingar, svo vitnað sé í orð þingforsetans að norðan. Við erum miklu frekar búin að gefast upp á ýmsum afleiðingum stjórnmálamanna eins og hins ágæta þingforseta. Í ljósi þess að helstu framfarir í íslensku þjóðfélagi, hvað varðar viðskipti, lagasetningu og starfsemi ríkisins hafa fengist við með þátttöku í samningnum um evrópska efnahagssvæðið þarf ekki að vera svo skrýtið að við horfum mörg hver til frekara samstarfs við þjóðir Evrópusambandsins.
Misskildar tilviljanir
Reyndar finnst mér þessi ummæli þingforsetans fremur sorgleg um fleira en skilningsleysi hans á vilja margra til fjölþjóðlegs samstarfs. Ég fæ nefnilega ekki skilið þjóðerniskennd. Þjóðerni okkar ræðst fyrst og fremst af tilviljanakenndum getnaði og búsetu foreldra. Því hefði ég fremur talið eðlilegt að við skilgreindum okkur með hliðsjón af verkum okkar og viðhorfum en því hvar foreldrar okkar bjuggu þegar við fæddumst og hvaðan afar okkar og ömmur eru upprunnin.