Í umræðunni undanfarnar vikur hafa gengið á ásakanir manna á milli að þessi og hinn hafi verið pólitísk ráðinn, þ.e. að störf hafi verið afhent til þeirra sem standa „rétt“ í pótlitík og hinir sem standa „vitlaust“ séu skildir út undan. Nærtæk dæmi eru ráðning bæjarstjóra í Garðabæ og nýleg ráðning hæstaréttardómara. Í tengslum við þessa umræðu hafa vaknað ýmsar spurningar í huga mér sem mér finnst vert að huga að.
Í tengslum við þessa umræðu er mikilvægt að reyna að átta sig á því hvort raunhæft sé að ætla að pólitísk ráðning geti í raun átt sér stað. Skiptir það máli hvaða flokki fólk fylgir að málum þegar sótt er um störf innan hins opinbera? Svar við þessari spurningu er hvorki langt né flókið en samt mjög merkilegt. Það skiptir máli. Tilvist pólitískra ráðninga er raunveruleg og marg staðfest. Ég held að það séu fáir sem hafa haft einhver afskipti af stjórnmálastarfi ósammála mér um þetta. Ef einhver lýsir sig ósammála þá lít ég svo á að hann viti ekki betur eða sé að ljúga[i].
Það þarf ekki doktorspróf í stjórnmálafræðum til þess að gera sér grein fyrir því að stjórnmál ganga að stórum hluta út á það að hygla sínum skoðunum, skoðunum samstarfsmanna sinna og greiða fyrir framgangi flokksins og stefnumála hans. Þar af leiðandi eru, að mínu viti, stjórnmálamenn samkvæmir sjálfum sér þegar þeir koma því til leiðar að samflokksmenn þeirra landi starfi hér og starfi þar hvort sem er hjá hinu opinbera eða í einkageiranum. Ég myndi ráða besta vinn minn eða reyna að útvega honum starf ef hann bæði mig um það. Ég reddaði bróði mínum starfi í sumar og það eru mörg sambærileg tilfelli þar sem ég myndi sjá mér hag í því að redda einhverjum starfi. Stjórnmálamenn eru menn eins og ég (en sem betur fer er ég ekki stjórnmálamaður) og því mætti ætla að þeir álykti á sambærilegan hátt. Ef ég geri þér greiða þá á ég inni hjá þér greiða, ef þú hefur sömu skoðanir og ég þá verður það líka miklu auðveldara að fá þig til að gera mér greiða. Það getur sem sagt greitt fyrir pólitískum hagsmunum stjórnmálamanna að hafa „rétta“ menn á „réttum“ stað ef svo má að orði komast.
En ef ég er svona sáttur við þetta allt saman hvað er ég þá að væla um þetta. Það er nefnilega málið ég er ekki sáttur við þetta ALLT saman. Ég hef fullan skiling á pólitískri ráðningu og skot andstæðinga út í svoleiðis ráðningar eru oftast aðeins léleg neðanbeltispólitík, minnihluta væl og háttur hinna tapsáru.
Það sem mér finnst afspyrnu slæmt og viðbjóðslegt og hefur verið algengt í fréttaflutningi upp á síðkastið er að stjórnmálamenn viðurkenna ekki að staðið hafi verið að ráðningum með pólitískum hætti. Menn koma fram í sjónvarpi og segja að hæfasti maðurinn hafi verið ráðinn og að vel og vandlega hafi verið farið yfir málin. Að tilviljun hafi ráðið því að besta manneskjan hafi verið í „rétta“ flokknum og bla bla bla bla og bla.
Það er á stundum sem þessum sem ég iða um af pirringi, gríp fram í fyrir sjónvarpinu, krem fjarstýringuna og missi allt álit á stjónmálamönnum. Það er ekki hægt að taka starfsstétt alvarlega, s.s. stjórnmálamenn, þegar þeir sem til hennar teljast ljúga í sjónvarpi.
Er ég barnalegur óviti sem veit ekkert um stjórnmál? Já auðvitað er ég það. En það sem ég á svo mjög erfitt með að átta mig á í óvitaskap mínum er ekki minn eigin barnaskapur. Heldur það að ef stjórnmálamenn ljúga á svona áberandi hátt vegna þess að það er auðveldara en að segja sannleikann: Hvenær ljúga þeir ekki? Hvenær er auðveldara að segja sannleikann en að ljúga?
Ég auglýsi hér með eftir þeim stjórnmálamanni sem getur leitt mig á rétta braut í þessum efnum. En auðvitað myndi hann bara ljúga að mér og auðvitað myndi ég halda að hann væri að segja satt. Eða hvað?