Ein af vinsælustu kreddum seinni tíma er sú að meira og minna allur samfélagsrekstur sé óalandi og óferjandi. Er þetta orðið svo útbreytt að flestir, bæði hægrimenn og fyrrverandi vinstrisinnar í Samfylkingunni eru meira og minna orðnir sammála í efnahagsmálum. Er þetta sérstaklega áberandi meðal ungliða flokkanna. Nú virðist helsti munurinn vera að annars vegar höfum við markaðsanarkista (allt skal einkavætt; Heimdallur, SUS) og hins vegar neo-Thacherista (allt skal einkavætt nema skólar og heilugæsla; Ungir jafnaðarmenn, Skoðun, Samfylkingin). Þeir sem aðhyllast þessi nýju einkavæðingartrúarbrögð líta á alla þá sem ekki vilja einkavinavæða allar samfélagseignir sem einhverskonar nátttröll úr fortíðinni, sem ekki taki því að rökræða við, upnefni er það eina sem hæfir slíkum hallærislegum fornaldardýrum (talebanar, fúll-á-móti flokkurinn, o.sv.fr.).
Brynjólfur Þór Guðmundsson er ágætt dæmi um neo-Thacherista. Því miður mætti hann stundum rannsaka betur það sem hann er að fjalla um. Í grein sinni „Langt seilst“ hneykslast hann mikið á því að samfélagið stundi hvers konar rekstur. Leggur hann til að allt sé einkavætt, þ.á.m. ríkisútvarpið og öllum stuðningi við menningu og listir verði hætt. Bendir hann á Ferðaskrifstofu Ríkisins sem dæmi um fáránleika fyrri tíma. Ferðaskrifstofa Ríkisins var reyndar gott dæmi um útsjónasemi ríkisins. Hún var stofnuð fyrst og fremst til að reka Edduhótelin. Ríkið átti heimavistaskóla út um allt land sem voru ónotaðir yfir sumartímann. Einhver fékk það snjallræði að spara skattgreiðendum peninga með því að reka hótel í skólunum yfir sumartímann. Þannig varð Ferðaskrifstofa Ríkisins til. Brynjólfur er í fullum rétti að telja FR dæmi um fáránleika ríkisrekstrar, en ég tel FR hafa verið dæmi um útsjónarsemi og góða nýtingu á almannaeignum.
Sem betur fer er almenningur á Íslandi líka enn fylgjandi því að Ríkisútvarpinu sé haldið við. Hér í Bretlandi er til stofnun sem heitir BBC. BBC er rekið með notendasköttum eins og Ríkisútvarpið. Almenningur hér er mjög fylgjandi því að halda við BBC, sér fyrir sér að án þess myndi Rupert Murdoch líklega hafa nær einokun á fjólmiðlamarkaðinum. Persónulega vildi ég ekki sjá hina íslensku murdocha sölsa undir sig Ríkisútvarpið, hvort sem um væri að ræða Jón Ólafson eða þá feðga Eyjólf Sveinson/Svein R. Eyjólfsson. Í Bandaríkjunum þar sem ég bjó áður sáu menn fram á vankanta þess að vera einungis með einkareknar stöðvar á sjöunda áratugnum. National Public Radio & TV varð til. NPR er að vísu ekki ríkisrekið, það er rekið sem sjálfseignarstofnun, en NPR nýtur töluverðra ríkisstyrkja. Meðal þess sem NPR býr til er „Sesami Street“, sem er eitt af vandaðasta barnaefni sem framleitt hefur verið (út frá Sesami Street þróðuðust einnig „Prúðuleikararnir“). Það barnaefni sem kom frá einkareknu stöðvunum var meira í líkingu við „Tomma og Jenna“ og „Power Rangers“. Dæmi nú hver fyrir sig hvort er betra barnaefni.
Ég er þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að halda uppi samfélagsrekstri þar sem hann á við. Af mörgu er hægt að taka, en ég get nefnt sem dæmi almenningssamgöngur, Veitustofnun Reykjavíkur og Landsvirkjun. Ég tel það fjarstæðu að einkavæða þessar stofnanir. Gott dæmi um hvernig markaðurinn hegðar sér við rekstur almannaþjónustu má finna í grein í breska blaðinu Observer. Ef þessar skoðanir mínar gera mig „gamaldags“, verður svo að vera. Það sem ég vara hinsvegar við er að líta á einkvæðinugu sem trúarbrögð. Stundum á einkavæðing við (Þjóðkirkjan er gott dæmi um stofnun sem rétt er að einkavæða). En oftar en ekki á einkavæðing alls ekki við, sérstaklega þegar um er að ræða nauðsynlega almannaþjónustu.
Guðmundur Auðunsson