Þann 31. maí síðastliðinn skrifaði Jóhann Björnsson heimspekingur athyglisverða grein í Morgunblaðið. Þar fjallar hann um trúboð sem á sér stað í Breiðagerðisskóla. Jóhann bendir hér réttilega á að það er ekki hlutverk ríkisrekinna grunnskóla að reka trúboð.
Vikuna 22.-26. maí s.l. var hefðbundið skólastarf í Breiðagerðisskóla lagt til hliðar og við tók þemavika um kristni. Ýmis verkefni um kristni voru unnin og ber helst að nefna tvær heimsóknir í kirkjur, kynning á trúarlegri tónlist, útbúnir tréplattar með myndum úr Biblíunni, kynning á kristniboði, fjallað um kristnitökuna og málað á plexigler sem síðar mun skreyta bænahús sem áætlað er að rísi á lóð skólans næsta haust. Í fréttabréfi skólans kom einnig fram að allir nemendur hafi þegar komið með hugmyndir að gerð áðurnefnds bænahúss. Markmiðið með þessari þemaviku var m.a.að dýpka skilning á kristni samkvæmt upplýsingum frá skólanum. Ekki verður því annað sagt en aðstandendur Breiðagerðisskóla taki tilvist Guðs og ágæti kristninnar æði hátíðlega.
Trú og lífsskoðanir í nútímasamfélagi
Ekkert er sjálfsagðara í nútíma lýðræðisríki en margbreytileiki trúar- og lífsskoðana. Það er ekki sjálfgefið að allir foreldrar sem eiga börn í Breiðagerðisskóla telji sig kristna og svo er reyndar um sjálfan mig. Vissulega er sjálfsagt að börn læri um menningu þjóðar sinnar og er kristnin ein af stórum þáttum hennar. Það er hinsvegar ekki sama hvernig kristin fræði eru kennd í nútímaskólum. Hlutverk trúboðans á að vera liðið eftir því sem ég kemst næst. Ég hef þó ærna ástæðu til að ætla að trúboð sé stundað grimmt í Breiðagerðisskóla eins og t.d. umrædd þemavika ber bott um. Það er greinilega gengið lengra í kristinfræðslunni heldur en hrein kynning á athyglisverðum menningararfi gefur tilefni til og eru heimsóknir í kirkjur og bænahúsið sem mun rísa á lóð skólans og börnunum er ætlað að taka þátt í að hanna þar athyglisverð dæmi.
Að gera ráð fyrir og umbera mismunandi lífsskoðanir
Algengt er að skólar sem og leikskólar fari með börn í kirkjur. Aldrei hef ég þó verið spurður að því hvort skólarnir megi bjóða börnunum mínum í kirkju. Börnin eru færð til kirkju og svo fréttir maður það eftirá. Hvaðan kemur þessi réttur skólayfirvalda til að fara með börnin í kirkju án vitundar eða hugsanlega vilja foreldra? Ekki átta ég mig á því og dreg ég reyndar í efa að sá réttur sé fyrir hendi. Hitt veit ég að fólk sem er ákaft í trú sinni á það til að virða að vettugi frelsi til annarskonar lífsskoðana og er það miður og ber vott um hroka þess sem í hlut á.
Siðferðileg ábyrgð
Ábyrgð þeirra sem standa að jafn umfangsmiklu trúboði og gert er í Breiðagerðisskóla er mikil gagnvart börnunum sem í hlut eiga. Ég lét áhyggjur mínar í ljós og spurði hvað öðrum börnum en þeim sem alin væru upp í kristni væri boðið uppá þessa viku. Svörin sem ég fékk voru nokkuð merkileg í ljósi þess að um ríkisrekinn skóla í lýðfrjálsu landi er að ræða: Eitt var það að ég hefði átt að tala um þetta fyrr, annað svar var það að skylt væri að kenna kristinfræði og í þriðja lagi var gefið sterklega í skyn að ekki væri gert ráð fyrir margbreytileika lífsskoðana. Skilaboðin voru í stuttu máli þau að allir eiga að vera kristnir. Það er í sjálfu sér ekki stórt mál þó kristin fræði séu kennd, en þegar fræðin eru orðin að trúarlegri innrætingu er komin ástæða til að hafa áhyggjur.
Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að skólayfirvöld í Breiðagerðisskóla eru að gera sér það að leik í einhverju trúarlegu ofstæki að útiloka þá sem hafa annarskonar lífsskoðanir. Hvernig bregðast samnemendur við þeim sem á einhvern hátt sker sig úr hópnum eða eru öðruvísi? Getur það verið að með þessu séu skólayfirvöld að stuðla að einelti? Hugum að því og gætum hófs í trúarofsanum.
Jóhann Björnsson
heimspekingur og leiðbeinandi hjá Siðmennt